Bara smá áminning, nánast orðrétt frá í fyrra:


Nú eru væntanlega flest framhaldsskóla-“deadline” fyrir skil á ritgerðum í öllum fögum að renna út - þótt eflaust megi kría út smá frest hjá skilningsríkari kennurum :)

En ég vil endilega hvetja ykkur sem nú eru að bagsa við að berja saman ritgerðir í sögu-áföngum, að senda þær hingað inn eftir að þið fáið þær aftur frá kennaranum. Allavega ef hann gefur þeim 6.5 eða hærra í einkunn.

Hafið bara í huga að stundum er gott að “snyrta” slíkar ritsmíðar og aðlaga til birtingar í nýjum miðli. Taka út allar óþarfa upplýsingar, t.d. nafn kennarans & áfangans - nema ykkur þyki sjálfum það skipta einhverju máli fyrir lesendur hér.

Reynið frekar að hafa fyrirsögnina góða og lýsandi um efnið, textann hnitmiðaðan og vel fram settan með greinaskilum. Takið mark á öllum athugasemdum og/eða leiðréttingum sem kennari hefur gert við ritgerðina, og farið eftir þeim áður en þið sendið “endanlega útgáfu” hingað.

Og notið “Endurskoða” takkann áður en þið sendið endanlega, með því má oft sjá slæm mistök sem auðvelt er að leiðrétta.

Vona svo bara að þetta verði einhverjum hvatning til að senda inn gott efni til birtingar hér :)
_______________________