Sókrates lýsti Alkibiadesi svona. „Þú tróðst alla undir fótum stolts þíns. Þú þóttist ekki þurfa að vera upp á neina kominn. Því þú varst svo ríkur bæði til líkama og sálar. Þú vissir að þú varst fegurstur og gáfaðastur og varst kominn að voldugum ættum borgar, sem var mest allra grískra borga. Vegna föður þíns áttirðu marga vini og skyldmenni sem voru reiðubúin að uppfylla allar óskir þínar. Og í móðurættina stóð sjálfur Perikles og tók þig að sér, maður sem gat farið öllu fram sem honum sýndist, ekki bara í borginni heldur öllu Grikklandi og var áhrifamikill með mörgum og stórum útlendum þjóðum.“
Alkibiedes fæddist 451 fyrir krist í Aþenu og var sonur Klinias og Dínómökku. Þegar hann var 5 ára gamall þá missti hann föður sinn og frændi hans Perikles, sem var alþingismaður Aþenu tók hann að sér. Í æsku var hann mjög ofdekraður en hann heillaði marga með persónutöfrum sínum þar sem hann var mjög glæsilegur og gáfaður. Hann var lærisveinn Sókratesar svo hann var mjög lifandi í samræðum hugmyndaríkur í athöfnum, bráðmælskur og gríðarlega snjall ræðumaður.
Vegna ætternis og persónuleika voru allir vegir Alkibiedesar færir og varð hann eftirlætisgoð og fyrirmynd ungra manna sem vildu líkjast honum í klæðaburði sem og góðum og vondum siðum. En eins og hjá öllum þá fylgdu gallar kostunum. Alkibiades var hrygglegt dæmi um mann sem skorti siðferðisgrunn. Hann átti sér engan hugsjónagrundvöll nema eigið sjálf. Honum var ekkert heilagt og gat brugðið sér í öll gerfi, hlaupið milli herbúða eftir sem byrinn blés best hans eigin frama.
Alkibiades og Sókrates kynntust í hernum þegar Sókrates bjargaði lífi Alkibiedesar. Stuttu síðar endurgalt hann Sókratesi greiðann. Eftir það urðu þeir ævilangir vinir og Alkibiades leit mikið upp til Sókratesar. Sókrates gerði sér grein fyrir göllum Alkibiedesar og uppfræddi hann mikið. En eftir fall Sókratesar varð freistingin of mikil og Alkibiades hvarf aftur til sældarlífs.
Alkibiades snéri sér að stjórnmálum nokkrum árum eftir dauða Periklesar eða 421 fyrir krist og stofnaði hann róttækan lýðræðisflokk. Fyrstu skref hans í stjórnmálum var að reyna koma frið milli Spörtu og Aþenu sem hefði fært honum mikla frægð. En friðarsamningarnir voru tileinkaðir Nikias sem var hófsamur foringi í aþenska hernum. Alkibiades varð ekki sáttur og ákvað því að koma stríði milli Spörtu og Aþenu. Eftir sigur flokks hans á fulltrúakjörinu í Aþenu, safnaði hann liði til að koma óorði milli Spörtu og Aþenu. Spartverjar sendu fulltrúa til að endurnýja friðarsamningana en Alkibiades tók hann á eintal og ráðlagði honum að segja að hann hefði ekki umboð til að semja frið milli borgríkjanna. Fulltrúinn fór eftir ráðleggingum Alkibiedesar en þá reis sá síðarnefndi upp og sagði að það væri ófyrirgefanlegt af Spörtu að senda umboðslausa senditík og lét aflífa mannin.
En rétt áður en Aþena lagði aftur af stað gegn Spörtu var Alkibiades sakaður um að guðlast og varð gerður útlægur frá Aþenu. Þetta átti eftir að vera dýrkeypt fyrir Aþenu þar sem Alkibiades var líkur sjálfum sér og ákvað að svíkja borg sína og fór til Spartverja í miðju Pelópsskagastríðinu. Sparta fór eftir ráðleggingum hans og náði mörgum borgum nærri Aþenu. En enn eitt hneykslið kom upp í kringum hann þegar hann svaf hjá konu Spörtukonungs. Hann var rekinn frá Spörtu með skömm og snéri hann sér þá að Persum. Þegar hann var kominn með Persana á sitt band ákvað hann að fara til Aþenu og ná fram sáttum. Honum tókst það að lokum eftir að hann lofaði stuðningi Persa. Hann kom á nýrri stjórn í Aþenu og honum einum hefði tekist að geta búið til nýjan flota. Hann vann aftur borgríkin nálægt Aþenu en beið svo ósigur loks árið 405 fyrir krist. Alkibiades flúði þá til Frýgiu en þar var hann myrtur 404 fyrir Krist af Aþenubúum sem leituðu hann uppi.
Ég hóf pistil minn á orðum Sókratesar þá þykir mér það við hæfi að enda hann á orðum Plútarkurs. En hann sagði að Alkibiades hafi verið maður margra ástríðna, en sterkasta ástríða hans var metnaður, að keppa við aðra í hverju sem var og verða yfirsterkari. Knúinn fram af sterkum metnaðarvilja gat hann náð ótrúlegum árangri. En sterkum vilja fylgir óskhyggja þar sem menn loka augum og eyrum fyrir staðreyndum. Og honum fylgir líka óþolinmæði. Alkibiades heimtaði tafarlausan árangur, en undi því ekki að þurfa að bíða og endurskoða mál í ljósi staðreynda. Hann vildi hespa öllu af og ef hann beið ósigur vildi hann losa sig út úr öllu og jafnvel ganga í lið með óvinum. Eins og raun bar vitni.