Hitler í París Þessi fræga ljósmynd sýnir það sem má líklega kalla “stærstu stund” Adolfs Hitlers. Hún er tekin í júní 1940, skömmu eftir að herir hans höfðu sigrað Frakka og rekið Breta á flótta úr meginlandinu. Veldi hans átti reyndar eftir að breiðast enn meira út á næstu tveimur árum áður en fór að halla undan fæti, en þarna hefur honum nær örugglega fundist “toppinum náð”: Hann hafði sigrað Frakkland!

Hitler hafði allt frá unglingsárum verið mikill áhugamaður um arkitektúr og var sérstaklega hrifinn af stórum listrænum glæsibyggingum – sem sannarlega er nóg af í París. Hafði hann ávallt dáðst mjög að þeirri borg og fyrir hönd Þjóðverja og Austurríkismanna öfundast út í hana. Hann hafði legið yfir bókum og myndum af borginni.

En aldrei hafði hann þó komið þangað. Fyrir Fyrri heimsstyrjöld hafði hann ekki efni á því, og eftir þá styrjöld bar hann slíkan haturshug til Frakka að tæpast hefur honum dottið í hug að heimsækja þá sem túristi. Þess í stað kom hann í fyrsta (og eina) skipti til Parísar sem sigurvegari; “Ég á ‘etta, ég má ‘etta!” hefur kannski verið hugsunin hjá honum þegar hann ákvað þessa óvæntu og stuttu heimsókn þennan þungbúna sumarmorgun. Hann fór ásamt fylgdarliði skot-túr um næstum auðar göturnar, kíkti á helstu staðina (vottaði reyndar virðingu sína í grafhýsi Napóleons Bonaparte í Invalides), og var síðan rokinn aftur heim.

Adolf Hitler átti aldrei aftur eftir að koma til Parísar, en þessi heimsókn hefur líklega eflt í honum þá ætlun sína að gera Berlín framtíðarinnar enn flottari París með stórfenglegum byggingum, “Welthaupstadt Germania” eins og hann kallaði það.

Þegar herir Hitlers neyddust loks til að flýja París árið 1944, fyrirskipaði hann að borginni skyldi gjöreytt með öllum tiltækum ráðum. Sem betur fer ákvað hernámsstjórinn í borginni að virða þau brjáluðu fyrirmæli að vettugi, og eru Frakkar (og allir þeir sem bera virðingu fyrir menningarverðmætum) þeim manni ætíð þakklátir fyrir það.
_______________________