Litli Einræðisherran Hér sést “Hinn ástkæri leiðtogi” Norður-Kóreu, Kim Jong-Il, í fangi föður síns sem nefndur var “Hinn mikli leiðtogi”.

Kim yngri fæddist í austanverðum Sovétríkjunum þar sem foreldrar hans voru í útlegð á árum Seinni heimsstyrjaldar. Heimaland þeirra var þá hernumið af Japönum, sem ekki voru neitt hrifnir af kommúnistum.

Í kjölfar stríðsins var Kim eldri gerður að leiðtoga Norður-Kóreu í skjóli Sovétmanna, og átti nokkrum árum síðar stærstan þátt í að hefja Kóreustríðið, eina mannskæðustu styrjöld 20. aldar utan heimsstyrjaldanna.

Eftir að Kóreustríðinu lauk árið 1953, einangraði Norður-Kórea sig brátt frá umheiminum, og þar var sett upp líklega öfgakenndasta kommúnistaharðstjórn sögunnar. “Stalínískari” en Sovétríki Stalíns, en jafnframt með sér-kóreskum tilbrigðum.

Kim eldri lést í hárri elli árið 1994, og tók þá sonur hans við völdum. Valda-erfir kunna að virðast skringilegar í kommúnistaríki, en í Norður-Kóreu kemur ekkert á óvart. Saga þessa lands undir stjórn Kim-feðga er með slíkum ólíkindum að halda mætti að um skopstælingu á alræðisríki sé að ræða fremur en raunveruleika. Víst er þó að Kóreumönnum, hvorki norðan né sunnan, þykir ekkert skoplegt við þá feðga, enda bera þeir ábyrgð á milljónum dauðsfalla undanfarna áratugi.

Langa og ítarlega grein um það má finna hér (ATH að hún er 6 ára gömul, og í tveim pörtum): http://www.guardian.co.uk/theobserver/2003/nov/02/features.magazine17

Svo er spurningin hvað gerist núna. Kim yngri er enn við völd að því að menn telja, en mun vera orðinn fárveikur, jafnvel dauðvona.

Á sama tíma er landið að prófa kjarnorkuvopn og hóta hinum ríku frændum sínum í suðri, sem og Japönum og Bandaríkjamönnum. Þarna gæti hæglega brotist út “Seinna Kóreustríðið” á næstunni.

Hvort að litli drengurinn á myndinni ræður enn einhverju um gang mála, er ekki vitað. Getgátur eru uppi um að e.t.v. sé hann dauðvona í öndunarvél eða jafnvel þegar látinn, og þessi nýlegu læti í raun hluti af innri valdabaráttu í þessu furðulega ríki.

Nú er bara að bíða og sjá.
_______________________