Varaforseti Kennedys Áfram heldur “Kennedy þemað” :)

Þessi sjaldséða en skemmtilega mynd er frá kosningafundi fyrir forsetaslaginn 1960. Lyndon B. Johnson varaforsetaefni Kennedys lætur hér eitthvað fara mjög í taugarnar á sér, og bregst við á sinn gamla góða Texas-máta.

Hinn vel-uppaldi Boston-piltur John F. Kennedy er hinsvegar vanur öllu kurteisislegri pólitík úr sinni heimabyggð. Honum þykir greinilega upphlaup Johnsons vart sæma verðandi varaforseta Bandaríkjanna og reynir af veikum mætti að róa gamla Suðurríkjavarginn.


Eins og við vitum varð Johnson forseti við fráfall Kennedys þremur árum síðar, og var svo endurkjörinn með yfirburðum 1964. Þykir hann hafa gert marga góða hluti, sérlega í mannréttinda- og velferðarmálum innanlands, en Víetnamstríðið setti stóran strik í reikninginn og varð til þess að hann lauk embættistíð sinni í hálfgerði skömm.

En eins og myndin sýnir glöggt, hafði hann stórt skap og var oft á tíðum orðljótur. Því fengu t.d. íslenskir herstöðvarandstæðingar að kynnast þegar hann heimsótti landið í varaforsetatíð sinni. Átti hann að sækja einhvern fund í Háskólabíói, en þegar þangað var komið beið hans þvaga af mótmælendum með sín skilti. “Secret Service” mönnum til mikillar hrellingar rauk Johnson (sem var hár og mikill vexti) útúr bíl sínum, ruddist gegnum þvöguna, stóð uppá girðingu og þrumaði yfir lýðnum! Þar til útúrstressuðum lífvörðunum tókst loks að komast að honum og róa hann niður.
_______________________