Þegar Kennedy tók við embætti árið 1961, lagði hann sig fram um að fá sprenglærða sérfræðinga í helstu embætti frekar en flokksgæðinga. Með slíku einvalaliði skyldi nú aldeilis tekið til hendinni við stjórn Bandaríkjanna, eftir doða Eisenhower-tímans.
McNamara var að vissulega að mörgu leyti feykivel gefinn, og hafði gert mjög góða hluti við skipulagningu hernaðarframleiðslu í Seinni heimsstyrjöld, og síðan hjá Ford-bílarisanum. Tölur voru hans ær og kýr, og var hann oft nefndur “reikningshausinn” eða “tölvan”.
Eftir fráfall Kennedys hélt McNamara áfram störfum í Johnson-stjórninni, og kom því hitinn og þunginn af Víetnam-stríðinu mest í hans hlut. Við stríðsreksturinn reyndi hann að beita sömu aðferðum og áður við rekstur Ford verksmiðjanna: Tölur voru fyrir honum allt. Framleiðsla og tap á hergögnum, “bodycount” eigin manna og óvinanna o.s.frv. Þessi ofuráhersla hans á tölfræðina kom honum í koll, því hann tók alls ekkert tillit til annara þátta, eins og mórals hermannana, óánægju almennings í Víetnam o.fl. Einnig fóru að verða brögð að því að undirmenn hans “hagræddu” tölum til að þóknast honum, því hann þótti harður húsbóndi.
Að lokum þegar allt var komið í óefni, varð hann að sæta ábyrgð og segja af sér embætti. Gerðist hann forstjóri Alþjóðabankans. Mörgum þykir í dag ferill hans sem varnarmálaráðherra svipa til Donalds Rumsfeld, og vissulega eru nokkur líkindi til staðar.
http://en.wikipedia.org/wiki/Robert_McNamara
_______________________