Móðurlandið kallar Þessi gríðarstóra stytta stendur í Volgograd í Rússlandi til minningar um hetjudáðir í Seinni heimsstyrjöld. Styttan er að öllu leyti mjög dæmigerð fyrir hinn stalíníska stíl í listsköpun, risastór og yfirdrifin en algerlega “steingeld” að mati flestra listunnenda. Enda hafa frá falli Sovétríkjanna slíkar styttur verið rifnar niður í stórum stíl, taldar sjónmengun og óþægileg áminning um slæma tíma.

Ólíklegt er þó að þessi hljóti nokkurntíman þau örlög, því Volgograd hét áður Stalíngrad, og þar var ein svakalegasta orrusta mannkynssögunnar háð frá hausti 1942 fram í febrúar 1943. Líklega úrslitaorrusta Seinni heimsstyrjaldar.

Nikita Kruschev og félagar létu breyta nafni borgarinnar árið 1961, og var það þáttur í svokallaðri “af-stalíniseringu” þeirra. Mörgum þótti hinsvegar hér of langt gengið, í ljósi sögufrægðar borgarinnar. Hafa síðan jafnvel komið fram tillögur um að breyta nafninu aftur, burtséð frá illu orðspori Stalíns.

Ólíklegt er að þetta muni nokkurntíman ganga eftir, en styttan stendur.
_______________________