Það má vel vera að einhverntíman muni ég skrifa grein um þetta stríð, en inngangurinn verður þá örugglega mun styttri!
Haustið 1973 var Motti Ashkenazi, ung-læknir frá Tel Aviv að gegna árlegri tveggja mánaða varaliðsskyldu sinni í Ísraelska hernum. Hann hafði alls ekki hugsað sér hugsað sér hermennsku sem ævistarf, enda kominn ágætlega á leið í læknisferli sínum. En nokkurra vikna afleysingar í hernum gáfu honum “punkta” víðsvegar í kerfinu þó ekki væri kaupið hátt. Hann ákvað því að gegna þessari skyldu fremur en að sækja um undanþágu sem líklega hefði verið auðsótt.
Hann var sendur til virkis á “Bar Lev-línunni” svonefndu við austurbakka Súez-skurðar. Þar átti hann að leysa “medikkinn” af í nokkra daga þar til sá kæmi aftur úr fríi, færa sig svo yfir til næsta virkis á línunni o.s.frv, þar til allir virkis-medikkar á línunni væru búnir að taka sín frí. Þar hafði ekki verið mikið um að vera undanfarna mánuði, egypskir og ísraelskir hermenn sátu hvor á sínum bakkanum á stuttbuxum einum fata og dorguðu, og skiptust á fingur-merkjum og múningum fremur en skothríð. Enda bjóst Motti við nokkrum rólegum vikum við Súez-skurðinn áður en hann sneri sér aftur að alvöru lífsins heimavið og starfsferlinum.
Einn daginn var Motti hafður með í bíltúr á Willysjeppa, vanabundna eftirlitsferð um nágrennið. Á einum stað þar sem skurðurinn var við sjávarmál og stórt lón myndaðist á háflæði, rakst eftirlitsflokkurinn á fótpor í rökum sandinum, og þótti Motti það grunsamlegt. Þeir litu nánar á fótsporin, og sáu að skóförin voru þau sömu og þeirra eigin. Hér höfðu semsagt einhverjir í ísraelskum hermannaskóm verið á ferð, og var því ekkert til að hafa áhyggjur af, sagði yfirmaðurinn. Afleysingamaðurinn Motti var ekki svo viss - “Ég myndi örugglega skipta um skó væri ég að stjórna egypskri könnunarsveit” varð honum að orði. Yfirmaðurinn hnussaði, “Heldurðu virkilega að þeir séu svo gáfaðir?”, og var málið þannig afgreitt. Þetta litla atvik var táknrænt fyrir andvaraleysi Ísraelsmanna og vanmat þeirra á getu andstæðinga sinna. Innan nokkurra daga átti það eftir að koma þeim harkalega í koll.
Bar Lev-línan samanstóð af fremur ófullkomnum virkjum sem Ísraelsmenn höfðu reist á austurbakka Súez-skurðar síðan árið 1967. Sínaí-skagi var egypskt landsvæði sem Ísraelsmenn höfðu hernumið þá í svonefndu “Sex daga stríði” og síðan neitað að skila, í óþökk Sameinuðu þjóðanna. Þeir báru fyrir sig að engu landi yrði skilað fyrr en Egyptar féllust á varanlega friðarsamninga. Það var í sjálfu sér réttmæt krafa. Hinsvegar hafði þrjóska Ísraelsmanna við að ræða neinar sanngjarnar tillögur, auk byggingar þessarar varnarlínu við Súez-skurð, gefið sterklega til kynna að þeir væru ekki tilbúnir að gefa neitt af sínum landvinningum eftir.
Það sem síðan kom fyrir Motti þennan, var að daginn eftir rétt slapp hann lifandi frá innrás Egypta yfir skurðinn, en varð öryrki af sárum sínum. Varð ekkert kátur með þetta alltsaman og hóf hávær mótmæli gegn stjórnvöldum.
Annars má lesa allt um þetta stríð sem ég nennti ekki að skrifa meira um, á gömlu góðu Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Yom_Kippur_Wa
_______________________