Þetta er ansi stórt “ef”. Mönnum ber ekki einu sinni almennt saman um hvort Rússum hefði tekist að sigra Þjóðverja án bandarískrar þáttöku í stríðinu.
En ókei, ef Kanar hefðu haldið sig utan við stríðið, segjum sem svo að Þjóðverjar hefðu knúið Rússa til uppgjafar, kannski 1943 eða '44. Gerum þá einnig ráð fyrir því að Bretar hefðu séð sig knúna til að semja frið, og þá líklega hefja samstarf við Þjóðverja um skipulag Evrópu og Afríku.
Bandaríkin hefðu ekki getað neitt annað gert en að sætta sig orðinn hlut. Þau hefðu viðhaldið góðu sambandi við Bretland, og bætt samskiptin við hið nýja Evrópuveldi Hitlers. En auðvitað hefðu þau treyst varnir sínar. Þau hefðu eftir sem áður verið fyrst með kjarnorkusprengjuna, Manhattan-prógrammið var farið í gang fyrir árslok 1941.
Til að gera innrás í Bandaríkin hefðu Þjóðverjar þurft að:
A) Fá stuðning Breta og þeirra mikla herskipaflota. Jafnvel þótt einhverskonar fasistastjórn hefði komist til valda á Bretlandi í kjölfar friðarsamninga, efast ég um að hún hefði verið spennt fyrir slíku.
B) Byggja sjálfir upp gríðarlegan herskipaflota með flugmóðurskipum og “innrásarfleytum”. Árið 1940 höfðu þeir ekki einu sinni bolmagn til innrásar yfir Ermarsund, hvað þá Atlantshaf.
En þó þeim hefði einhvernveginn tekist það, hefðu þeir þurft…
C) Að lenda a.m.k. milljón hermönnum með tilheyrandi útbúnaði á austurströnd Bandaríkjanna, sem væntanlega hefði verið víggirt allt frá Maine til Flórída. Ekki hefði þýtt að fara gegnum Kanada, því Bandaríkjamenn hefðu hernumið það land við fyrstu grunsemdir um slíkar áætlanir.
En ef Þjóðverjum (og etv breskum bandamönnum þeirra) hefði samt tekist það, hefðu þeir þá þurft að…
D) Sjá liðinu fyrir nægum vistum og útbúnaði til sóknar lengra inn í meginland Norður-Ameríku, yfir víða erfitt landslag, gegn milljónum harðvopnaðra og vígreifra heimamanna.
Hugmyndir um innrás Japana á vesturströndina eru jafnvel enn fáránlegri. Þeir höfðu minni efni en Þjóðverjar og yfir tvöfalt stærra haf að fara, og hefðu að auki lent í erfiðaðra landslagi.
Bottom-lænið er þó: AF HVERJU hefðu Þjóðverjar og/eða Japanir átt að ana út í slíkt ævintýri? Þeir höfðu vissulega háar hugmyndir um framtíðarskipan heimsins, en innrás í Ameríku var ekki þar á meðal. Sama hvað Frank Capra og fleiri slíkir bandarískir áróðursmenn sögðu hermönnum í kvikmyndum sínum.
_______________________