Ég vil benda þér á að lesa líka hina hliðina. Hér er gagnrýni sem ég skrifaði á grein Mark webers um þetta efni og sigurfreyr birti:
http://www.sigurfreyr.com/gagnryni-a-weber.html. Í álitum lesenda eru svo áframhaldandi umræður um þetta sem er fróðlegt að lesa líka. Þar eru t.d. nánari útskýringar á því hvernig ég hrek rök Webers.
Farðu varlega í að lesa það sem Sigurfreyr skrifar um nasisma, Hitler og helförina. Mín reynsla er sú að þegar heimildirnar fyrir greinunum eru skoðaðar, eru þær samsafn af rusli, annaðhvort eldgömlum greinum eða bókum sem nú hafa verið hraktar algerlega, eða einfaldlega verið að vísa í verulega vafasama einstaklinga. Lestu þessar greinar því með mjög gagnrýnu hugarfari og myndaðu þér þína eigin skoðun.
————–
Til að hafa þetta nú allt með frá báðum hliðum þá er hér gagnrýni sigurfreys og félaga á mína grein, og þar á eftir svar mitt við þeirri gagnrýni. Þetta er svolítið langt, en það er því miður ekki hægt að linka á þetta beint svo ég setti það allt hér með:
————–
Helförin og endurskoðunarsinnar - gagnrýni
Biggi Toker skrifar þann 27-03-2004 :Allt í lagi Jóhannes, þú ert að vísu ekkert að taka málið fyrir lið fyrir lið eins og ég vonaðist til, heldur ert þú með svona ,,heildaryfirgrip“ eins og er mjög algengt hjá fólki sem hefur rangt fyrir sér.
Þú minnist á Önnu Frank og pabba hennar, og talar um hversu léleg rök Weber hafði í þeim málum: ,,þau feðgin hefðu nú ekki lifað svona lengi ef nasistarnir hefðu ætlað sér að drepa þau” er einfaldlega lélegustu rök sem ég hef heyrt. Anna Frank dó. Hún var ein af milljónum og hvort hún dó strax eða seinna skiptir ekki nokkru einasta máli“. Skiptir það engu máli hvar og hvenær hún dó? Er það þá Bandaríkjamönnum að kenna að Einstein dó, hann var nú einu sinni í Bandaríkjunum, ekki satt? Þetta er ein allra undarlegasta ritfærsla sem að ég hef nokkru sinni lesið, og með þessu fór ég að draga dómgreind greinaskrifara í efa, en hélt þó áfram lestrinum.
Að sjálfsögðu var góð pólitík að sprengja bara allt heila klabbið í loft upp árið 1945, eftir að stríðinu lauk. Þá þurftu Bandamenn ekkert að pæla í eitthverjum óþarfa rannsóknum og efasemdum um sinn eigin áróður. Ég vitna í mína eigin þýðingu þar sem að einn af eftirlifandi föngum sagðist aldrei nokkurn tímann hafa orðið var við ,,reykstróka úr brennsluofnum” og annað því um líkt. Einnig var því haldið fram að Þjóðverjar hefðu fundið upp nýja aðferð til þess að ,,eyða líkamsleifum þannig að þær skildu ekki eftir sig nein ummerki“ … einmitt félagi, trúir þú þessu? Fjöldamargir fyrrum fangar Auschwitz höfðu aldrei heyrt minnst á neinar útrýmingar fyrr en þeir sluppu úr þrælkunarbúðunum, já einmitt, það er það sem að Auschwitz var!
Það vantaði 5,7 milljónir Gyðinga í Evrópu eftir stríð. Hvenær eftir stríð? Er þá talið með þær milljónir sem að fluttust til Bandaríkjanna, Bretlands og Ísrael? Enn og aftur ertu hreinlega að skjóta undan þér vinurinn.
Ég vil bara enn og aftur benda á að engir stórir öskuhaugar hafa fundist nærri Auschwitz, engar massívar fjöldagrafir eða annað þvíumlíkt. Fjöldinn allur af sérfræðingum gæti líka sagt þér að enginn líkbrennsluofn í heiminum gæti mögulega afkastað jafn miklu og bandamenn voru að halda fram um afköst Auschwitz. Hvað varð um líkamsleifar allra þessara Gyðinga? Stóð Himmler kannski bara uppi á þaki og dreifði öskunni af þeim út í vindinn?
Sjálfur var ég að vonast til að Jóhannes Þ. Skúlason sagnfræðingur færi nánar út í röksemdir Mark Webers. Eins og Gunnsteinn segir hér í gestabókinni þá gagnrýnir Jóhannes einungis tvær heimildir af 21 sem Weber vitnar í máli sínu til stuðnings. Jóhannes segir um endurskoðunarsinna: ,,Þeir þykja ekki sérlega fínn pappír í sagnfræðiheiminum.” Ég spyr: ,,Og, hvað með það?“. Ég veit ekki til annars en að margir af helstu frumkvöðlum vísindanna hafi á sínum tíma ekki heldur þótt nógu ,,fínir pappírar” hjá ,,fínu pappírunum“, þó að ,,fínu pappíranir” í dag þyki þess vert að sleikja sig upp við þá þegar þeir hljóta loks viðurkenningu, stundum löngu eftir dauða sinn og erfiða ævi. Ég veit til þess að Gagnauga.net neitaði að birta grein Jóhannesar vegna þess að þeim þótti hann ekki taka greinargerð Mark Webers nógu efnislega vel fyrir né færa nógu sterk rök gegn henni. Persónulega hef ég ekki kynnt mér þetta mál nógu ítarlega til að geta tekið skýra afstöðu til þess.
————
Helförin og endurskoðunarsinnar - gagnrýni
Jóhannes Þ. Skúlason skrifar þann 3-05-2004 :
Ég hef fengið ákveðna gagnrýni á grein mína gegn Mark Weber og það er jú ekki nema gott mál. Átti nú ekkert endilega von á að allir væru sammála mér. En margt af þessu finnst mér skringileg rök og því vildi ég svara nokkrum aðalpunktum sem fram hafa komið.
1. Gunnsteinn og Sigurfreyr töluðu um að af 21 heimild Webers hefði ég aðeins gagnrýnt tvær og þá bara verið að rýra mannorð Leuchters og Lindseys en ekki hrakið það sem þeir sögðu.
Markmið mitt var ekki að brjóta grein Webers niður í frumeindir og afsanna hverja einustu heimild. Tilgangurinn var að sýna fram á grundvallarvillur í röksemdafærslu hans og fræðimennsku.
Í heimildalista Webers eru ýmsar heimildir sem engin ástæða er til að draga í efa eða hrekja á nokkurn hátt. Þar má t.d. nefna skjöl frá Nürnberg-réttarhöldunum, bækur Pressac og Reitlinger, rit Y. Bauer sem eins og skjölin úr Jewish Historical Institute of Warsaw fjallar um endurskoðun á fjölda dauðsfalla í Auschwitz, reglugerðir búðanna sjálfra og framburði eftirlifandi fanga í Zundel réttarhöldunum í Toronto sem ekki hafa verið dregnir í efa en stangast samt sem áður á við yfirgnæfandi meirihluta samskonar framburða frá útrýmingarbúðum nasista um alla Austur-Evrópu (og verða því miðað við verulega vafasaman trúverðugleika og sannaðar lygar annarra vitna verjenda í því máli að teljast léttvægari heimildir).
Í grein minni kemur fram skýrlega að ég er ekki að draga í efa það sem Weber heldur fram um fjölda dauðsfalla í Auschwitz. Um það fjalla a.m.k. 6 heimildir Webers. Aðrar 5 fjalla um greinargerðir Leucters og Lindseys. Og varðandi það að ég taki ekki fyrir það sem þeir félagar segja heldur bara persónurnar sjálfar þá er það ekki venja í sagnfræðiheiminum að taka lygara gilda sem heimildamenn. Þannig er það nú bara. Ég er ekki að ráðast sérstaklega á persónur þessara manna. Ég er einfaldlega að sýna fram á að aðrir mér betri fræðimenn hafa sýnt fram á í lærðum ritum að framburður Leuchters og Lindseys er ómarktækur með öllu.
Að halda því fram að ég fjalli einungis um 2 heimildir af 21 er því skýr ábending um að viðkomandi skilji ekki samband heimildanna við textann og viti í raun lítið um efni heimildanna sjálfra.
2. Gunnsteinn og Biggi Toker gerðu sér líka mat úr því að ég eyddi heilli málsgrein í Önnu Frank. Anna Frank skiptir einfaldlega ekki máli í þessari umræðu. Ég eyddi í hana púðri vegna þess að Weber gerir hana að rökum. Ég hafði hana með aðallega til að sýna fram á fáránleika þess sem Weber er að skrifa, ekki sem einhver aðalrök.
3. Biggi Toker, þýðandi greinarinnar spurði um tölur um fjölda gyðinga í Evrópu fyrir og eftir stríð, hvort gert væri ráð fyrir þeim ,,milljónum sem að fluttust til Bandaríkjanna, Bretlands og Ísrael?“ Svarið er já. Það er gert ráð fyrir þeim. Ég er því ekki að ,,skjóta undan mér” með þessum tölum eins og þú orðar það svo málefnalega.
Biggi hélt áfram og minntist á framburð vitna í Zundel-málinu sem aldrei sögðust hafa séð reykjarstróka úr skorsteinum í Auschwitz. Það má vel vera. Á móti því má leggja hundruði framburða vitna (fanga og varða) úr búðunum sjálfum og íbúa úr sveitunum í kring um búðirnar um hið gagnstæða. T.d. er algengur framburður pólskra íbúa á svæðinu í kring um Auschwitz um stæka nábrennslulykt sem lagði gjarnan frá búðunum. Og ég spyr að auki: Ef ekki voru stundaðar neinar líkbrennslur í Auschwitz, hvers vegna þurfti þá að byggja fjóra stóra og afkastamikla líkbrennsluofna þar? Áfasta ,,sturtuklefunum“? Og svarið ,,það þurfti stundum að brenna þá sem dóu í þrælkunarvinnunni” er bara því miður ekki nægjanlegt.
Og Biggi hélt því líka fram varðandi ofnana að ,,Fjöldinn allur af sérfræðingum gæti líka sagt þér að enginn líkbrennsluofn í heiminum gæti mögulega afkastað jafn miklu og bandamenn voru að halda fram um afköst Auschwitz.“
Það er rétt hjá þér Biggi. Það er að segja miðað við tölurnar sem Bandamenn héldu fram á áratugunum eftir stríð, 4 milljónir. Nú eru sagnfræðingar sammála um (þar á meðal ég og Mark Weber) að sú tala sé röng. Ofnarnir í Auschwitz hefðu hins vegar auðveldlega afkastað 900 þús. - 1.6 milljónum, en það eru tölurnar sem eru almennt viðurkenndar í dag, þar á meðal af Mark Weber.
Gunnsteinn féll líka í þennan pytt þegar hann talaði um ,,Ivan Lagace, framkvæmdarstjóra stórrar líkbrennslu í borginni Calgary í Kanada, sem sagði í apríl 1988 að líkbrennslusagan frá Auschwitz væri út frá tæknilegu sjónarmiði óhugsandi.”
Það var einmitt í kring um 1990 sem menn fóru að endurskoða tölurnar fyrir alvöru … herra Lagace var einfaldlega að tala um gömlu fjórar milljónirnar eins og sérfræðingarnir hans Bigga.
Biggi hélt því svo fram að svona ,,heildaryfirgrip“ væru algeng hjá fólki sem hefur rangt fyrir sér. Ja hérna … ég lyppast bara niður fyrir svona rökfærslu.
4. Varðandi þá fullyrðingu Sigurfreys að Gagnauga.net hafi ekki birt þessa grein að hans sögn vegna þess að ,,þeim þótti hann ekki taka greinargerð Mark Webers nógu efnislega vel fyrir né færa nógu sterk rök gegn henni” þá er rétt að tvennt komi fram. Í fyrsta lagi sóttist ég ekkert sérstaklega eftir birtingu á þessu út um allt. Ég birti þetta á minni eigin vefsíðu og á www.hugi.is/saga og þótti það í raun nóg. Hins vegar sendi ég þetta til þeirra sem birtu grein Webers og tók fram að ég gæfi leyfi fyrir birtingu hjá þeim ef þeir hefðu áhuga á því. Sigurfreyr hafði áhuga á því, ekki Gagnauga.is. Um ástæður þess veit ég ekki nánar, en hins vegar finnst mér röksemdir Gagnauga.is ef rétt er haft eftir hjá Sigurfrey ansi skondnar miðað við efnisinnihald og rökfærslu á ýmsu efni sem þeir hafa birt hingað til.
5. Til að fyrirbyggja það að gagnrýnendur mínir fari að velta sér upp úr þeim atriðum gagnrýninnar sem ég hef ekki svarað hér þá finnst mér afgangurinn í raun ekki svaraverður. Margt af því er barnalegt raus eins og t.d. ,,Stóð Himmler kannski bara uppi á þaki og dreifði öskunni af þeim út í vindinn?“ eða ,,Er það þá Bandaríkjamönnum að kenna að Einstein dó, hann var nú einu sinni í Bandaríkjunum, ekki satt?” og jafnvel ,,Hvort [heimildarmaðurinn] er ljótur með skalla, hommi, gamall nazisti eða hafi logið einhverju í atvinnuumsókn sinni eða CV-skrá einhvern tímann skiptir mig engu máli" !
Nei … það er líklega þess vegna sem þú ert ekki sagnfræðingur Gunnsteinn því svoleiðis hlutir skipta nefnilega máli í sagnfræði þegar kemur að því að meta heimildagildi og vitnisburði manna. Því ef við látum okkur engu máli skipta hvaða skoðanir eða tilgang heimildamennirnir bera með sér í umræðuna en trúum bara öllu sem þeir segja (alveg án þess að athuga hvaða rök mæla með eða móti því) þá erum við ekki að stunda fræðimennsku heldur bara að skrifa bullið upp eftir einhverju fólki út í bæ.
Sagnfræði er fræðigrein sem byggir á ákveðnum aðferðum og ströngum fræðilegum vinnubrögðum. Mark Weber gerir sig sekan um stór axarsköft í vinnubrögðum og aðferðafræði þegar hann notar framburð heimildamanna eins og Leuchters og Lindseys sem löngu er búið að sanna að eru ekki trúverðugir, þ.e. framburður þeirra hefur lítið sem ekkert heimildagildi fyrir þessa tilteknu umræðu. Weber notar þennan framburð sem grundvallarrök í grein sinni. Þess vegna er grein hans léleg sagnfræði sem ekki er hægt að taka mark á.