David Horowitz er kynlegur kvistur í stjórnmálaumræðunni vestan hafs. Hann varð fyrst þekktur á stúdentsárum sínum sem talsmaður róttækrar vinstristefnu. Þetta var á hinum miklu umbrotatímum Víetnamstríðsins og “Hippismans”. Horowitz þótti góður og beittur penni og fóru skrif hans víða, t.d. gaf hið þá afar vinstrisinnaða bókaforlag Mál & Menning út nokkrar af bókum hans hér á landi.
En í kringum 1980 varð alger viðsnúningur á stjórnmálaskoðunum hans. Hann gerðist sífellt harðari talsmaður íhaldsstefnu í anda Ronalds Reagan, og átti varla nógu sterk orð til að fordæma fyrrum félaga sína á vinstri vængnum, úthrópaði þá sem “ó-ameríska” föðurlandssvikara og ýmislegt verra.
Að sjálfsögðu er hann núna einn al-harðasti stuðningsmaður “ný-íhaldsstefnu” Georges W. Bush og félaga. Og verandi af Gyðingaættum er hann harðari Zíonisti en flestir hægrisinnaðir Ísraelsmenn eru sjálfir!
Undanfarin ár hefur hann verið í einskonar krossferð gegn því sem hann kallar “hættulega” menntamenn; þ.e.a.s. bandarískum háskólakennurum sem eru vinstrisinnaðir og/eða voga sér að gagnrýna stefnu Ísraelsríkis gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjunum. Nefnir hann alla þá sem gagnrýna Ísrael “Gyðingahatara” (e. “Anti-Semites”), og gildir þar einu þó þeir sjálfir séu Gyðingar, t.d. Noam Chomsky og Norman Finkelstein. Horowitz hefur svar við því, hann kallar þá “self-hating Jews” (!!).
Horowitz hefur (réttilega að mínu mati) verið sakaður um “ný-McCarthyisma”. Líkt og McCarthy forðum, hvetur hann til útskúfunar og jafnvel fangelsunar fólks sem ekki er honum sammála, allt í þágu “þjóðaröryggis”. Og verður því miður að því er virðist furðu vel ágengt. Áðurnefndur Norman Finkelstein, virtur prófessor við New York University, var nýlega sagt upp störfum fyrir engar sakir, en margir telja að þar megi kenna gagnrýni hans á Ísrael um.
Skoðið málgagn Horowitz hér: http://www.frontpagemag.com/index.asp
…hann rekur einnig “systursíðu” þar sem hann varar við “hættulegu” fólki í bandarískri stjórnmálaumræðu. Listann yfir það má finna hér: http://www.discoverthenetworks.org/individual.asp
Menn verða svo að gera upp við sig hvort svona menn verði að stöðva líkt og McCarthy forðum.
_______________________