Eftir að hafa farið í próf úr grískri goðafræði síðastliðinn föstudag hef ég komist að því að hún er hrein snilli. Grikkir höfðu skýringar á öllu sem gerðist í heiminum og þær eru stundum skrautlegar.

Ein skemmtilegasta sagan sem ég hef lesið er um Faeþon son Heliosar. Helios var sólarguðinn og var hans starf að keyra með sólina yfir himininn daglega. Faeþon vildi endilega fá að prófa að keyra eins og er oft um unga menn og það fékk hann eftir mikið mas. En því miður fyrir Faeþon þá hafði hann enga stjórn á sólarvagninum. Hann fór of nálægt jörðinni og brenndi Afríku og Afríkumenn urðu svartir. Af Faeþoni er það að segja að Seifur slöngvaði eldingu í hann svo hann datt af vagninum og lést er hann féll til jarðar.

Sögur segja líka frá Sísýfosi nokkrum. Hann fjötraði banaguðinn sem var náttúrulega algjört grimmdarverk því þá dó enginn og Hades (undirheimaguð) varð fúll því hann fékk engar sálir. Sísýfos var refsað grimmilega fyrir þetta og þurfti hann að ýta steini upp á fjall en þegar hann var alveg að komast upp gafst hann upp og steinninn rúlaði niður aftur.

Eins og áður sagði höfðu Grikkir skýringar á öllu og er ástæða þess að stundum er ekkert túngl sú að mánagyðjan Selene var í sífelldri makaleit. Þess vegna var hún stundum upptekinn á næturna og gat ekki verið að því að keyra tunglvagninn sinn.

Jæja, nú er komið nóg af skemmtilegum sögum í bili.