Hér á áhugamálinu eru býsna margir áhugasamir um heimsstyrjaldirnar og styrjaldarsögu almennt. Um þau efni vantar heilmikið á íslensku Wikipediu, bæði í greinarnar sjálfar um fyrri og síðari heimsstyrjöldina en einnig vantar heilmargar greinar um afmarkaðri efni, t.d. um tiltekna hershöfðingja, einstakar orrustur, herdeildir, vopn og hertól o.s.frv. Einnig vantar heilmikið um aðrar styrjaldir bæði fornar og nýjar t.d. Persastríðin, Pelópsskagastríðið, púnversku stríðin, þrjátíu ára stríðið, hundrað ára stríðið, Kóreustríðið, Víetnam stríðið, stríðið í Írak o.s.frv. og auðivtað skyldar greinar um einstakar orrustur, tiltekna herforingja, vopn og hertól o.s.frv.
Styrjaldarsaga er samt ekki það eina sem vantar. Það vantar heilmargt um Íslandssögu, miðaldasögu, fornaldarsögu, sögu Bandaríkjanna, sögu Afríku og Asíulanda, stjórnmálasögu, listasögu, vísindasögu og þar fram eftir götunum, jafnt almennar greinar sem greinar um afmarkaðri málefni (fólk og atburði o.s.frv.)
Ólíkt Huga, sem afþakkar allt c/p efni, er í góðu lagi að taka efni frá öðrum Wikipedium, t.d. ensku Wikipediu, og þýða yfir á íslensku. Enska Wikipedian er þegar orðin stærsta alfræðirit sögunnar (í fjölda greina) og margar greinarnar eru ítarlegar og góðar. Þessar greinar má t.d. nota sem grunn fyrir íslenskar greinar, ef maður nennir ekki að þýða þær frá upphafi til enda eða bara veit ekki hvar maður á að byrja.
Að skrifa í alfræðirit getur verið skemmtileg reynsla. Það þarf að sjálfsögðu að gæta hlutleysis og vanda til verks en það er nú þegar fjöldi annarra notenda sem er reiðubúinn að veita hjálp. Það sakar ekki að renna fljótt yfir kynningarsíðuna og handbókina áður en maður byrjar, en annars má alltaf spyrja spurninga í pottinum.
Íslenska Wikipedian er að orðið glæsilegt ókeypis alfræðirit á netinu. Það getur orðið miklu glæsilegra og þú getur hjálpað til.
___________________________________