Nú í síðustu viku lést bókaútgefandinn og “fjölfræðingurinn” Þorsteinn Thorarensen í Fjölva, áttræður að aldri. Ég tel alveg við hæfi að minnast hans stuttlega hér á þessu áhugamáli, því þó ekki væri hann sagnfræðingur að mennt, hafði hann gífurlegan áhuga fyrir sagnfræði og varði stórum hluta ævistarfs síns í það áhugamál. Hann samdi, þýddi og gaf út fjöldann allan af sagnfræðitendgum ritum.

Meðal bóka sem Þorsteinn skrifaði má helst nefna “Að Hetjuhöll” – ævisögu Adolfs Hitlers fram til 1924; Og síðan mikinn bókaflokk um íslenskt þjóðfélag í kringum aldamótin 1900. Þessar bækur hans hlutu víða slæma gagnrýni fyrir að fylgja ekki ströngum reglum sagnfræðirannsókna, en urðu þó ákaflega vinsælar meðal almennings. Enda skrifaðar á stórskemmtilegan og líflegan hátt, og útfrá íslensku sjónarmiði.

Utan þess sem Þorsteinn skrifaði sjálfur, þýddi hann og gaf út fjöldann allan af stórfínum fræðibókum um ýmis efni, þá ekki síst sögu. Má þar nefna Listasögu Fjölva, Veraldarsögu Fjölva, Flugvélabókina, Skipabókina, og bók um sögu Seinni heimsstyrjaldar sem (þrátt fyrir ýmsa galla) var svo lipurlega skrifuð/þýdd að enn er nánast unun að lesa. Allar voru þessar bækur lengi vel hið eina sem tiltækt var á íslensku um viðkomandi efni (löngu fyrir daga Internetsins), og urðu fyrir vikið hálfgerðar “biblíur” ungra söguáhugamanna.

Þorsteinn Thorarensen var líka frumkvöðull að útgáfu teiknimyndabóka hér á landi. Það var Fjölvaútgáfa hans sem kynnti Tinna fyrir Íslendingum uppúr 1970. Sjálfur þýddi Þorsteinn svo flestar Ástríks- og Lukku-Láka bækurnar á einstaklega sér-íslenskan og húmorískan hátt!

Þorsteinn er nú allur, en verk hans lifa.
_______________________