Ég kíki bara í sögubókina mína:
"Eins og áður sagði (kafli I.14) voru Vestgotar fyrstir germanskra þjóða til að ráðast inn í Rómaborg, árið 410. Þeir eru taldir upprunnir við Eystrasalt og er eyjan Gotland nefnd sem upphafsstaður þeirra. Þeir bjuggu lengi í austurhluta Evrópu, en tóku sig upp vegna þrýstings innrásarþjóða úr austri [sem voru held ég Húnar] og hröktust um Balkansskaga og til Ítalíu, þar sem þeir réðust á Rómaborg. Svo héldu þeir áfram til Spánar þar sem þeir settust loks að og stofnuðu ríki.
Vandalir réðust næstir á Rómaborg um árið 455. Þeir höfðu flutt sig frá Mið-Evrópu suður eftir álfunni, sett sig niður um tíma á Suður-Spáni, í Andalúsíu, farið yfir Gíbraltarsund til Afríku og stofnað ríki þar sem áður var Karþagó, en nú er Túnis. Þaðan fóru þeir í herleiðangra bæði til Rómar og Aþenu og ollu mikilli eyðileggingu, enda eru tilgangslaus skemmdarverk enn kölluð vandalismi á ýmsum Evróputungum. Ríki þeirra í Norður-Afríku stóð hins vvegar ekki lengi.
Þriðji þjóðflokkurinn sem réðst á Rómaborg voru Austgotar. Þeir flúðu undan Húnum frá sléttum Úkraínu og Rússlands og héldu í suður og vestur uns þeir komu til Ítalíu. Þeir lögðu undir sig heimsborgina árið 476, sögðu síðasta keisaranum að hypja sig og stofnuðu ríki á rústum Vestrómverska ríkisins.
Síðar komu svo Langbarðar (,,Síðskeggjar´´) úr norðri og stofnuðu ríki á Ítalíu sem stóð öllu lengur. Norðar í álfunni voru Frankar á ferðinni og náðu undir sig Gallíu, sem síðar fékk nafn af þessari nýju þjóð og heitir nú Frakkland. Englar og Saxar (eða Egilsaxar eins og þeir eru stundum kallaðir) lögðu undir sig suðurhluta Bretlands, kölluðu það England og ráku keltneskar þjóðir á útjaðra Bretlandseyja. Fleiri germanskar þjóðir voru á ferðinni á sama tíma svo sem Búrgundar og Jótar.
Germanir gerðust herraþjóðir í löndum Vestur-Evrópu en samlögðust fljótlega þeim þjóðum sem voru þar fyrir og höfðu tileinkað sér menningu Rómverja. Aðrir frumbyggjar Vestur-Evrópu hörfuðu undan, en héldu menningu sinni og samfélagsskipan. Svo var um Kelta í Skotlandi, Írlandi og Wales og á Bretagneskaga í Frakklandi, einnig Baska á Norður-Spáni og í Pýrenafjöllum."
Fornir tímar - spor mannsins frá Laetoli til Reykjavíkur; bls 82-83
(Ég skrifaði þetta mest blindandi svo ég veit ekki hvort það eru innsláttarvillur. Annars var þetta ágæt vélritunaræfing ;) fyrir utan að vera eina leiðin til að fá mig til að lesa sögu)
—
Nokkrar greinar um þessa þjóðflokka (á ensku, ég myndi ekki treysta íslenska wikipedia eins vel):
http://en.wikipedia.org/wiki/Category:Ancient_Germanic_peoplesBætt við 23. september 2006 - 00:08 Vá, þetta er svo mikið minni texti en hann lítur út fyrir að vera í bókinni.