http://mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1214633
Sjóher Póllands greindi frá því í dag að hann hefði fundið flak Graf Zeppelin, eina flugmóðurskips Þjóðverja á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar, í Eystrasalti. Í 59 ár hafa menn velt því fyrir sér hvað orðið hafi um það. Pólska olíufyrirtækið Petrobaltic uppgötvaði flakið fyrr í mánuðinum, en það liggur á sjávarbotni um 60 km norður af hafnarborginni Gdansk.
Sjómælingaskip sjóhersins var sent í fyrradag til rannsóknar á flakinu og komst að því að það væri frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Teknar voru stafrænar myndir af því og komist var að þeirri niðurstöðu, við samanburð á heimildum um Graf Zeppelin, að það væri skipið.
Skipið var sjósett 8. desember 1938 en var aldrei notað í hernaði. Sovétmenn tóku skipið árið 1945, eftir ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, en það hvarf tveimur árum síðar með dularfullum hætti.