Það má finna á heimasíður sagnfræðiskorar HÍ:
Sagnfræði er fræðigreinin um mannleg samfélög, um stjórnkerfi þeirra og stjórnmál, frelsi og ófrelsi, atvinnuvegi og efnahagslíf, hvers konar lifnaðarhætti og menningu í víðasta skilningi. Í sagnfræði eru samfélög könnuð eins langt aftur í tíma og heimildir leyfa og oft skoðuð í löngum tímasniðum. Eins er leitast við að skoða samfélögin sem mest í heild og sjá samhengið á milli hinna einstöku geira þeirra, svo sem stjórnkerfis og efnahagslífs, efnahagslífs og hugmyndaheims, stjórnkerfis og hugmyndaheims. En jafnframt beinist áhugi sagnfræðinga að einstaklingum og hinu einstaka og tengslum þessa við stærri heildir og hið almenna.
Fræðigreinin snýst um að kunna að rannsaka mannleg samfélög, einkum í fortíð, og miðla þekkingu um þau til annarra. Mikilvægur hluti sagnfræði felst í að kunna að lesa mikinn fróðleik út úr litlum heimildum og beita þó varúð við að oftúlka hvorki né mistúlka. Sagnfræðingar hafa iðulega áhuga á að vita eitthvað annað um viðfangsefni sitt en heimildunum var ætlað að segja. Því reynir á rökrétta hugsun, hugkvæmni og frumleika í starfi sagnfræðinga. Við miðlun sagnfræðilegs fróðleiks reynir líka á skýrleika í hugsun og leikni í meðferð máls.
(sjá:
http://www.hug.hi.is/page/sagn)