Ég hefði nú ekki nennt að svara þessu þvaðri ef ég hefði ekki átt svarið á lager. Þetta er úr grein sem ég skrifaði í fyrra:
Framlag Bandaríkjanna í stríðsrekstur bandamanna í Seinni Heimsstyrjöld var gríðarlegt. Þó manntjón þeirra væri minna en flestra annara aðila og skemmdir heimafyrir engar, lögðu þau til nánast ótæpilegan mannafla og framleiðsla þeirra á hergögnum og öðrum nauðsynlegum varningi var meiri en í nokkru landi öðru. Sovétríkin komust næst þeim, en kerfi þeirra og skipulagi var í samanburði stórlega ábótavant, jafnvel þó tillit sé tekið til þess gífurlega tjóns sem þau urðu fyrir í upphafi stríðs.
Margir hafa lengi haldið því fram að framlag vesturveldanna almennt, og þá sérstaklega Bandaríkjanna, til sigursins á öxulveldunum sé stórlega ofmetið. Helst má af þessum röddum skilja að Rússar hafi í raun sigrað Þjóðverja nánast einir síns liðs. Það er reyndar rétt að Sovétmenn báru meginþungann af hernaðarstyrk Þjóðverja, og sú hergögn sem vesturveldin sendu þeim voru flest annars flokks. Það sem oft gleymist er hinsvegar að þessi annars flokks hergögn voru notuð með ágætis árangri á stöðum þar sem ekki var þörf fyrir betra, og losuðu í leiðinni fyrsta flokks innlend hergögn til notkunar í fremstu víglínu. Að auki sendu Bandaríkjamenn Rússum milljónir tonna af matvælum og ýmiskonar nauðsynlegum varningi, auk 500.000 jeppa og vörubíla, sem var ómetanlegt á víðáttum austurvígstöðvanna. Á sama tíma voru svermar af breskum og bandarískum sprengjuflugvélum að draga verulega úr framleiðslumætti Þjóðverja. Vel má vera að Rússar hefðu marið sigur án alls þessa, en það hefði í öllu falli orðið nokkrum mánuðum eða jafnvel árum síðar.
Að vinna stríð krefst fleira en bara að senda sem flesta hermenn í hakkavélina eins og Stalín & félagar stunduðu. Ég held að frekar en að gera lítið úr Könum fyrir að hafa misst fæsta menn, ættu menn fremur að hrósa þeim fyrir hvað þeir þó misstu fáa miðað við hversu gríðarlegt framlag þeirra var til sigursins yfir Öxulveldunum. Það sýnir að (ólíkt sumum) var stjórnvöldum ekki skítsama um mannfall.
_______________________