Það eru til margar útgáfur af flestum grísku goðsögunum. En samkvæmt einni frægustu frásögninni sem er í Goðakyni eftir Hesíódos (uppi seint á 7. öld f.Kr.) varð heimurinn til þannig að kosmos varð til úr kaosi, þ.e. hinn skipulagði heimur varð til úr óreiðu. Síðan er því lýst hvernig Úranos (himinninn) átti afkvæmi með Gaju/Ge (jörðinni) og hvernig afkvæmi þeirra eignuðust ólympsguði, títana og aðrar verur.
Venjulega er Prómeþeifur, sem var títani og ekki einn af Ólympsguðum, sagður hafa skapað fyrstu mennina. Samkvæmt þessari sögu voru fyrstu mennirnir Devkalíon og Pyrrha. Devkalíon var stundum sagður vera sonur Prómeþeifs og Klýmene eða Kelænóar en Pyrrha var stundum sögð vera dóttir Epimeþeifs (bróður Prómeþeifs) og Pandóru.
Seifur er sagður hafa sent flóðbylgju til að eyða mannkyni þegar hann sá hversu löstugir mennirnir voru. Prómeeifur á að hafa sannfært hann um að hlífa Devkalíoni og Pyrrhu og sagt þeim að smíða örk. Þau sigldu svo í níu daga og níu nætur en strönduðu loks á fjalli í Þessalíu. Seifur sendi Hermes til þeirra en hann sagði þeim að þau fengju eina ósk uppfyllta. Devkalíon óskaði sér vina og Þess vegna leyfði Seifur þeim að skapa nýtt mannkyn. Devkalíon kastaði steini yfir öxl sér og frá honum spruttu menn, en Pyrrha kastaði steini yfir öxl sér og frá honum spruttu konur.
___________________________________