Ég held að öll viðurkennd ríki séu í sameinuðu þjóðunum. Vandinn er hins vegar sá að ekki allar
þjóðir búa í eigin
ríki. Margir hópar fólks telja sig einmitt vera eigin þjóðir þrátt fyrir að þeir búi ekki í eigin ríki. Þessar þjóðir eru þar með ekki aðilar að Sameinuðu þjóðunum sem sérstakar þjóðir. En á hinn bóginn má gera ráð fyrir að þessir hópar fólks búi í einhverju viðurkenndu (fjölþjóðlegu) ríki eða ríkjum sem er/eru aðili/aðilar að Sameinuðu þjóðunum; og þar með eru þær þjóðir sem búa í þessum ríkjum í Sameinuðu þjóðunum að svo miklu leyti sem þær eru hluti af ríki sem er í Sameinuðu þjóðunum, þótt þessar þjóðir séu hins vegar ekki í Sameinuðu þjóðunum
sem sérstakar þjóðir.
Kúrdar telja sig t.d. vera þjóð en þeir búa ekki í eigin ríki. Þeir hafa þvert á móti barist fyrir stofnun ríkisins Kúrdistans en það er ekki ljóst hvort eða hvenær þeim verður af ósk sinni.
Segja má að Samar í N-Noregi séu þjóð en þeir búa ekki í eigin ríki og eru þar með ekki í Sameinuðu þjóðunum sem Samar þótt þeir séu í Sameinuðu þjóðunum að svo miklu leyti sem þeir eru íbúar Noregs og/eða annarra skandinavískra landa.
Svo er ef til vill frægasta dæmið Palestínumenn, en Palestína er ekki sérstakt ríki í Sameinuðu þjóðunum.
Einn vandinn við að telja upp allar þær þjóðir sem eru ekki í Sameinuðu þjóðunum sem sérstakar þjóðir vegna þess að þær búa ekki í eigin ríki er sá að það er ekki alltaf ljóst hvað gerir hóp fólks að þjóð.
Hægt er að sjá aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna á
vefsíðu þeirra. Ef einhver tiltekinn hópur fólks er þjóð en þó ekki á listanum, þá er það þjóð sem ekki er í Sameinuðu þjóðunum sem sérstök þjóð þótt gera megi ráð fyrir að hún sé í Sameinuðu þjóðunum að svo miklu leyti sem ríkið sem þjóðin býr í er í Sameinuðu þjóðunum.