Lokasenna Kvæðið Lokasenna er eitt af eddukvæðum. Innihald kvæðisins fjallar um skammir og ásakanir Loka á hendur öðrum goðum. Kvæði þetta er í Konungsbók.

Kvæðið hefst á einum lausamálskafla þar sem kemur fram bakgrunnur kvæðisins og ástæðu þess að Loki kveður um goðin. Síðan kemur kvæðið sjálft og endar svo á öðrum lausamálskafla þar sem skýrt er frá refsingu Loka.

Ægir hefur boðið til veislu og öll meiriháttar goð mæta þar nema Þór sem er í austurvegi að berja á tröllum. Að sjálfsögðu er Loki mættur einnig og virðist hafa verið í sérstaklega illgjörnu skapi þar sem hann drepur annan þjónustumann Ægis af tveimur fyrir það eitt að þeim er hrósað fyrir góða þjónustu. Æsir reka hann út með hörðum höndum til skógar og byrja drykkju. Loki sættir sig nú ekki alveg við þetta, kemur aftur og gerist boðflenna.

Nú byrjar sjálft kvæðið. Loki heimtar sæti og drykk en Bragi vill meina honum hvoru tveggja. Hann minnir Óðinn á að þeir séu fóstbræður og Óðinn víkur syni sínum úr sæti fyrir Loka nauðugur. Hann heilsar öllum nema Braga sem nú dregur í land og vill friðmælast við Loka með loforði um góðar gjafir, sverð, hest og hring en hann svarar bara með illu.

Bragi sjálfur verður fyrstur fyrir orðum Loka, segir hann vera “bekkskrautuð” og kallar Braga bæði hræddan við að skjóta og hugdeigan. Iðunn kona Braga biður mann sinn um að sýna stillingu þar sem veislan sé friðhelg en fær í staðinn yfir sig aðdróttanir Loka um vergirni sína. Að hún hafi sængað hjá bróðurbana sínum, þetta atriði kemur hvergi fram annars staðar í heimildum.

Ásynjan Gefjun er næst, hún fær samskonar ásakanir og Iðunn. Það sem vitað er um Gefjuni er það eina að hún er mær og til hennar fara allar þær meyjar sem andast og kemur það fram í Snorra-Eddu.

Óðni er alveg hætt að lítast á þetta og reynir að lægja háðsyrði Loka en Loki er greinilega í stuði og ásakar Óðin um að hafa oft gefið þeim sem lakari var sigur í orrustum. Einnig sakar Loki hann um að haga sér eins og norn þar sem Óðinn sýður seið (að sjóða seið var kvenmannsverk og þótti lítillækkandi fyrir karlmenn að stunda þann sið). Óðinn sakar Loka um kynvillu í staðinn.

Frigg reynir að lægja öldurnar þar sem ásakanir um kynvillu (í mannheimi) kallar alltaf á grimmilega hefnd. En Loki er ekki hættur, hann brigslar Frigg um ótryggð og segir hana hafa sængað hjá báðum bræðrum Óðins, Vila og Vé. Þá segir Frigg að ef sonur á borð við Baldur væri á staðnum þá slyppi Loki ekki heill á húfi úr höllinni. Þá í raun viðurkennir Loki að hafa staðið á bakvið dauða Baldurs, hvort sem átt er við Haðarþátt eða þegar hann í hlutverki gýgjunnar sem neitaði að gráta Baldur úr Helju. Freyju sakar hann um lauslæti og hefur hann víst alveg efni á því.

Njörður reynir að leggja Freyju dóttur sinni lið en verður fyrir ásökunum sjálfur, að jötnameyjar hafi migið upp í munn honum (engar skráðar heimildir um þetta atriði) og að Frey og Freyju hafi hann getið með systur sinni (sem var víst vaninn í Vanaheimi) og að alveg merkilegt sé að Freyr sé ekki verri en hann er. Týr tekur málstað Freys en þá hæðir Loki hann fyrir handamissinn. Einnig segist Loki hafa átt barn með konu Týs án þess að hann hafi fengið skaðabætur fyrir (þess má geta að hvergi er minnst á konu Týs í heimildum nema á þessum stað). Freyr minnir þá Loka á að afkvæmi hans Fenrisúlfur verði í böndum til ragnaraka en Loki segir að Freyr verði sverðlaus þá þar sem hann hafi gefið sverð sitt vegna girndar sinnar til Gerðar. Loki hæðir einnig Byggvi þjónustumann Freys þegar hann reynir að blanda sér í umræðuna.

Heimdallur reynir eins og fleiri að segja Loka að hætta þessu bulli og drykkjurausi en í staðinn gerir Loki grín að honum fyrir varðstöðuna sem hann þarf að gegna.

Skaði hótar Loka öllu illu en hann minnir hana á að hann hafi átt mestan þátt í því er Þjassi faðir hennar var drepinn og svo hafi hún leyft honum að sofa hjá sér (hvergi getið annars staðar).

Sif ætlar að vera sniðug (eða slóttug???) og gefur Loka að drekka og biður hann um að vægja allavega einni ásynjunni þ.e. henni sjálfri. Hann segir að hún sé þá öðruvísi en allar hinar ef hún hafi ekki hórast með neinum en bætir svo við að hann hafi nú samt sjálfur sængað með henni. Sagan um þegar Loki klippti hárið af Sif hefur kannski eitthvað með þetta að gera ???.

En nú fara allir að anda léttar þar sem heyrist í Þór sem er á leiðinni heim, hann kemur inn og ógnar Loka en fær samt sinn skammt af ásökunum. Hann segir Þór hafa skolfið af ótta í þumli Skrýmis (Útgarða-Loki í dulargervi) á leið sinni til Útgarða-Loka og hafi þurft að vera matarlaus þar sem hann hafi ekki getið leyst hnútinn sem Skrýmir hafi bundið á nestispakkann.

Kvæðinu lýkur þar sem Loki kemur sér út úr höllinni og fomælir Ægi og veislunni hans.

Í niðurlaginu kemur fram hvernig goðin handsama Loka og refsa honum. Hann er bundinn með þörmum sonar síns í helli yfir beittum steinhellum og eiturormur settur fyrir ofan andlit hans og Sigyn kona Loka situr þar yfir honum og heldur skál undir orminn. Í hvert skipti sem Sigyn þarf að tæma skálina kippist Loki til vegna eiturdropanna og af því verða jarðskjálftar segir sagan.

Aðeins eitt ranghermi hefur fundist í Lokasennu og það er að Loki sakar Þór um að drepast í ragnarökum í átökum við Fenrisúlf en í öllum öðrum heimildum drepur Þór Miðgarðsorm og deyr svo stuttu seinna.

Mönnum hefur ekki komið saman um hvort kvæðið sé ort í heiðni eða kristni. Sumir vilja halda því fram að sannir heiðingjar hefðu ekki ort svona um goðin sín og verð ég að vera sammála því en samt sem áður er Lokasenna bráðfyndin og vitað er að heiðingjum fannst goðin sín ekki vera heilög á neinn hátt. Margt bendir einnig til að kvæðið hafi ekki verið ort fyrr en á 12. öld og þá t.d. málfarið á kvæðinu. En svo er spurning hvort kristið skáld hefði ekki notað aðra aðferð til að níðast á goðum heiðingja þar sem mjög fljótlega eftir kristnitöku reyndu kristnir að breyta goðunum í djöfla og tókst það vel. Mér finnst sennilegasta skýringin að kvæðið hafi verið ort á 10. - 11. öld þegar kristnin var að síast inn í landann og menn svolítið valtir í trúnni.

Góðar stundir,
IceCat