Ásinn Baldur Það kannast kannski margir við söguna um ásinn Baldur sem drepinn var af Höð bróður sínum vegna lævísi Loka. Þessi saga myndi vera einn af hápunktum norrænnar goðafræði að mínu mati.


En hver var Baldur og hvaða hlutverki gegndi hann í goðafræðinni. Stutt lýsing er á Baldri í Gylfaginningu sem er hluti af Snorra-Eddu.

“Annar son Óðins er Baldur, og er frá honum gott að segja. Hann er bestur og hann lofa allir. Hann er svo fagur álitum og bjartur svo að lýsir af honum. Hann er vitrastur ásanna og fegurst talaður og líknsamastur. En sú náttúra fylgir honum að enginn má haldast dómur hans. Hann býr þar sem heitir Breiðablik. Það er á himni. Í þeim stað má ekki vera óhreint.”

Baldur er sonur Óðins og Frigg. Kona hans heitir Nanna og sonur hans heitir Forseti. Baldur á hringinn Draupni sem hafði þá náttúru að af honum drupu 8 gullhringar jafngóðir hina 9. hverja nótt.

Til að vernda Baldur tók móðir hans Frigg eiða af öllum lífverum og höfuðskepnum að þyrma lífi Baldurs og mátti honum því ekkert granda. Loki sem var fóstbróðir Óðins komst að því með lævísi að mistilteinninn var sá eini sem ekki var tekið eiða af. Æsirnir voru vanir að skemmta sér við þá iðju að kasta hlutum í Baldur þar sem engin sár hlutust af en eitt sinn kom Loki þar að og spurði Höð bróður Baldurs sem var blindur hví hann gerði ekki svo. Höður segir að hann hafi ekkert til að kasta með og því réttir Loki honum mistilteinsvönd. Höður kastar vendinum og hann fer í gegnum
Baldur og lætur hann þar lífið.

Allir fyllast harmi yfir dauða Baldurs og fær Frigg móðir hans Hermóð bróður Baldurs til að ríða til Heljar til að endurheimta hann. Samkvæmt heimildum er ekki hægt að líkja Hel við Helvíti kristinna manna heldur myndi það kallast Ríki hinna dauðu, þangað fara allir sem deyja úr sóttum og elli. Hel heitir einnig gyðjan sem stjórnar Hel og sagt er að hún, Miðgarðsormur og Fenrisúlfur séu afkvæmi Loka og gýgjarinnar Angurboðu. Hel lofar að hleypa Baldri til baka ef allir í veröldinni gráta hann.

Frigg sendir sendiboða um allan heim til að láta alla gráta Baldur en aðeins ein gýgur neitar að gráta hann og er sagt að það hafi verið Loki í dulargervi. Því getur Baldur ekki snúið tilbaka.

Eftir dauða Baldurs og Helreið Hermóðar taka æsir lík Baldurs og setja það í skip hans Hringhorna þar sem átti að brenna líkið. Einhverra hluta vegna geta þeir ekki sett skipið fram og verður að kalla til gýgji eina sem hrindir því í sæ. Nanna kona Baldurs springur úr harmi og er lögð á bátinn með manni sínum. Óðinn setur hringinn Draupni í bátinn og einnig er hestur Baldurs settur þar. Þór vígjir bálið með Mjöllni hamar sínum.

Eftir Ragnarök kemur Baldur aftur frá Helju og hittir þau goð sem lifað hafa Ragnarökin af.


Þegar á 6. öld eru til skriflegar heimildir um bátsetningu dauðra þar sem býsanski sagnaritarinn Prokop segir frá því að slíkar bátsetningar séu algengar meðal íbúa strandlengjunnar við Norðursjó.

Einnig lýsir Arabinn Ibn Fadlán víkingagreftrun árið 922 sem hann sá með eigin augum. Þar var borið á skip ekki aðeins hinn dauði heldur vopn, matvæli, húsdýr og jafnvel ambáttir og allt brennt til kaldra kola á landi. Síðan var orpinn haugur yfir öskuna.

Þriðja greftrunaraðferðin var sú að haugur var orpinn yfir allt saman og þar kom enginn eldur við sögu.


Heimildir: Völuspá, Gylfaginning, Skáldskaparmál, Baldurs draumar kvæði.

Góðar stundur,
IceCat