Þjóðabandalagið og Bandaríkin
Hvers vegna tóku Bandaríkjamenn ekki þátt í Þjóðabandalaginu?
Hugmyndin að bandalagi þjóða til að stuðla að friði í heiminum kom fyrst fram á fundi borgarafélags eins í Fíladelfíu þann 17 júní 1915. Félagið, undir formennsku William H. Taft setti fram tillögu um að Bandaríkin gerðust félagar í bandalagi þjóða sem hefði það að stefnu sinni (1) að koma upp alþjóðlegum dómstól, (2) að koma á fót ráði til að fara með deilumál sem ekki féllu undir dómstólinn, (3) að vinna saman í efnahags- og hernaðarmálum gegn hverju því ríki sem efndi til stríðs í stað þess að leita til þessara stofnana, og (4) að halda ráðstefnur til endurskoðunar og samræmingar alþjóðalaga. Þessi hugmynd var kynnt á fundi í Washington 1916 þar sem bæði Woodrow Wilson forseti og Öldungadeildarþingmaðurinn Henry Cabot Lodge ljáðu henni stuðning sinn.
Þegar heimsstyrjöldinni lauk árið 1918 og komið var að því að draga upp friðarsáttmála milli hinna stríðandi þjóða lagði Wilson Bandaríkjaforseti fram fjórtán atriði sem tillögu að grundvelli fyrir friðarsamningana. Aðal inntak þeirra var viðskiptafrelsi milli þjóða og óheftar siglingar hvort sem væri á friðar eða stríðstímum, löndum sem unnin höfðu verið í styrjöldinni skyldi skilað, nýlendumál skyldu endurskoðuð og sjálfsákvörðunarréttur þjóða skyldi virtur. Síðast en ekki síst setti Wilson fram í 14. grein tillöguna um að bandalag þjóða skyldi stofnað undir sérstökum sáttmála og skyldu aðildarlöndin veita hvort öðru gagnkvæma tryggingu gagnvart þjóðum utan bandalagsins. Voru þessar fjórtán greinar Wilsons samþykktar af bandamönnum sem grundvöllur friðarsamningana, þó með nokkrum semingi væri.
Ásamt þeim friðarsamningum sem samdir voru í Versölum 1919 var því dreginn upp sáttmáli fyir Þjóðabandalagið. Í sáttmálanum var gert ráð fyrir að öll ríkin sem undirrituðu Versalasamningana, að Þjóðverjum undanskildum, yrðu stofnfélagar og að auki þrettán önnur ríki sem nefnd yrðu í viðauka. Hægt var að bæta við ríki ef tveir þriðju bandalagsþjóðanna greiddu því atkvæði. Þrjár stofnanir áttu að sjá um störf bandalagsins: Þing, ráð og skrifstofa eða ráðuneyti. Ætlunin var að Bandalagið héldi uppi friði með því að takast á hendur ábyrgð á öryggi og sjálfstæði annarra bandalagsríkja og með því að veita hvort öðru gagnkvæma aðstoð eftir akvörðun Bandalagsins ef á eitthvert þeirra yrði ráðist. Var þetta sett fram í tíundu grein stofnsáttmálans og varð þessi grein síðar eitt aðal bitbeinið í slag Wilsons við Öldungadeild Bandaríkjaþings um staðfestingu Friðarsamningana og stofnsáttmálans.
Þjóðabandalagið var vissulega ágæt hugmynd og háleit hugsjón en sá galli var á gjöf Njarðar að bandalagið gat ekki virkað til lengdar án þáttöku Bandaríkjanna. Til þess voru stórveldin í Evrópu of gamalgróin og föst í sessi og valdajafnvægið óbreytt. Vissulega var Þýskaland niðurbrotið eftir Versalasamningana en upprisu þess var ekki langt að bíða og þess verður að gæta að Þýskaland hafði barist gegn fjórum ríkjum Evrópu og nærri haft betur áður en Bandaríkjamenn skárust í leikinn. Því var nærvera Bandaríkjanna bráðnauðsynleg friði í Evrópu ef ekki í formi íhlutunar þá sem ógnun.
En Wilson forseti átti við vandamál að stríða heima fyrir sem fólst í litlum þingmeirihluta. Wilson var Demókrati og þeir höfðu aðeins fjögurra manna meirihluta í Öldungadeildinni. Þar sem sterk andstaða var í Repúblíkanaflokknum við allri íhlutun í málefni Evrópu og töluverður ótti við að Þjóðabandalagið yrði að eins konar Ríki Yfir Ríkjunum (Super-State) á alþjóðavísu var alls ekki gefið að Versalasamningarnir og þar með sáttmáli Þjóðabandalagsins næði fram að ganga á Bandaríkjaþingi.
Nú brá svo við að einn af leiðtogum andstöðunnar við samningana var Henry C. Lodge, sá sami og hafði stutt hugmyndina um Þjóðabandalagið fjórum árum áður. Þegar frumvarpið um staðfestingu samningana var lagt fram í Öldungadeildinni lagði hann fram breytingatillögu á því sem Demókrötum var ómögulegt að samþykkja. Þar gerði hann meðal annars ráð fyrir að Bandaríkin yrðu undanskilin þeirri grundvallarreglu Þjóðabandalagsins að ríkin skyldu tryggja sjálfstæði og öryggi annarra þjóða með her sínum eða efnahagshjálp af hvaða tagi sem væri og einnig var gert ráð fyrir að Bandaríkin fengju neitunarvald um aðgerðir bandalagsins. Við atkvæðagreiðslu lögðust Repúblíkanar og Demókratar á eitt og var frumvarpið fellt með 55 atkvæðum gegn 39.
Einangrunarsinnar innan Repúblíkanaflokksins voru sterkir á þessum árum sem endranær og voru fjölmargir þeirrar skoðunar að Bandaríkin ættu að láta Evrópumönnum eftir að leysa vandamál Evrópuríkja og snúa sér alfarið að því að leysa eigin innanríkisvandamál og halda sig innan áhrifasvæðis síns samkvæmt Monroe-kenninguni. Þessi afstaða hefur alltaf verið sterk í Bandaríkjunum og kom meðal annars aftur fram eftir seinni heimsstyrjöldina þegar var farið að tala um að stofna varnarbandalag Atlantshafsríkja- NATO. Þá gerðu Bandaríkjamenn sér hins vegar grein fyrir því að samstarf Evrópuríkja var að sumu leyti byggt á sandi ef sterka forystu þeirra vantaði Þeir létu samt sem áður koma sterkt fram, og sáu til þess að slíkt væri tryggt í stofnsáttmála NATO, að Bandaríkin vildu hafa síðasta orðið um það hvað Bandaríkin gerðu ef til átaka kæmi sem krefðust íhlutunar bandalagsins. Bandaríkjamenn tryggðu það sem sagt að Evrópuríki gætu ekki þvíngað þá til neinna aðgerða, hernaðarlegra né efnahagslegra, með því að veifa framan í þá stofsáttmálanum. Segja má að sömu sjónarmið hafi ráðið ferðinni að mörgu leyti er Bandaríkjamenn gengu út úr Þjóðabandalaginu. Einangrunarsinnar og jafnvel Repúblíkanar almennt vildu ekki að Bandaríkin yrðu dregin inn í átök í Evrópu sem þeim kom kannski ekkert við og þar sem þau hefðu jafnvel engra hagsmuna að gæta. Einnig kom fram ótti um að Þjóðabandalagið yrði það valdamikið að það gæti skert sjálfstæði Bandaríska ríkisins með því að taka ákvarðanir fyrir það, það yrði eins konar yfirþjóðlegt vald sem drottnaði yfir örlögum aðildarþjóðanna. Þessi ótti var að nokkru leyti af sama meiði og fyrrnefnd einangrunarstefna en auk þess komu inn í svipuð sjónarmið og við sjáum í dag í sambandi við yfirþjóðlegt vald Evrópusambandsins og ótta manna um að það verði of mikið og of víðtækt.
Þegar frumvarpið um friðarsamningana og stofnsáttmálann var tekið til afgreiðslu að nýju þann 19. mars 1920, enn á ný með miklum fyrirvörum í anda Lodges þó að í þetta sinn væri um nokkra málamiðlun að ræða, settu nokkrir af þingmönnum Demókrata sig í andstöðu við stefnu stjórnarinnar og var frumvarpið þá samþykkt með 49 atkvæðum gegn 35. Þrátt fyrir það kom allt fyrir ekki vegna þess að ekki náðist hinn tilskildi meirihluti tveggja þriðju þingmanna Öldungadeildarinnar fyrir samþykkinu og því féll frumvarpið þar út af dagskrá og Bandaríkjamenn hurfu á braut úr Þjóðabandalaginu og friðarsamningunum í Versölum. Í stað þess skrifuðu þeir undir sérfriðarsamninga við Þjóðverja, Austurríkismenn og Ungverja árið 1921.
Jafnvel þó að frumvarpið hefði náð tilskildum fjölda atkvæða í kosningunni 1920 er hæpið að hin aðildarríki bandalagsins hefðu samþykkt að hleypa Bandaríkjamönnum inn í það á þeim forsendum og með þeim fyrirvörum sem þeir settu, til þess viku þeir of langt frá grundvallar hugmynd þess í 10 greininni.
Segja má því að Bandaríkjamenn hafi ekki tekið þátt í Þjóðabandalaginu á grundvelli fjögurra atriða:
(1) Stjórn Wilsons átti í vök að verjast í Öldungadeild Bandaríkjaþings þar sem Demókratar höfðu aðeins fjögurra sæta meirihluta.
(2) Auðvelt var því fyrir Repúblíkana að ónýta áætlun Wilsons með því að setja mikla fyrirvara á staðfestingu friðarsamningana og stofnsáttmálans með stuðningi fjögurra til tíu þingmanna Demókrata. Með fyrirvörunum var gert nær öruggt að aðrar aðildarþjóðir bandalagsins gætu ekki sætt sig við aðild Bandaríkjanna á þeim forsendum sem þar voru settar fram.
(3) Einangrunarsinnar og þjóðernissinnar óttuðust að Þjóðabandalagið gæti orðið eins konar kúgunartæki Evrópu á Bandaríkin, það gæti sett bandarísku lýðræði og sjálfstæði skorður og neytt Bandaríkin til að taka þátt í að leysa evrópsk vandamál, efnahagsleg eða hernaðarleg, þar sem Bandaríkin hefðu engra hagsmuna að gæta en gætu á hinn bóginn skaðað hagsmuni sína með þáttöku sinni.
(4) Skoðanir um gagnkvæmt afskiptaleysi höfðu alltaf verið ríkar í bandarískri utanríkispólitík(sbr. t.d. Mornroe-kenninguna) og á því varð lítil breyting fyrr en í og eftir seinni heimsstyrjöldina þegar Bandaríkjamenn tóku loksins að viðurkenna nauðsynlegt forystuhlutverk sitt í málefnum Evrópu og hin bráðnauðsynlegu “buffer” áhrif sem þau höfðu á valdajafnvægið þar og var svo sárt saknað á millistríðsárunum.
Heimildir:
Pratt, Julius W.: A History of United States Foreign Policy; Prentice-Hall, New Jersey, 1965.
Cantor, M. og Commager, H. S.: Documents of American History; 2. bindi, 10. útg., Prentice-Hall, Englewood Cliffs, 1988.