Uppgangur nasista í Þýskalandi 1919-1933 Það hefur nokkuð borið á því að menn hafi verið að pósta ritgerðalanglokur hér undanfarið. Ég var að fara í gegnum gamalt dót og fann eina sem mér datt í hug að henda hér inn. Það er nokkuð síðan þetta var skrifað svo að þið vinsamlegast fyrirgefið byrjendabraginn ef einhver er.

P.s Þetta er heillangt…góða skemmtun :)

obsidian

———————————–

Uppgangur nasista
í Þýskalandi
1919-1933


1. Inngangur

Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar varð mikið umrót í stjórnmálum Evrópu. Ríkjum var skipt upp og ný ríki voru dregin á landabréfið í stað þeirra gömlu. Nýjar hugmyndir höfðu komið fram um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og var þeim beitt til að skapa þjóðríki. Ekki tókst samt sérlega vel til í öllum tilfellum og sumsstaðar lentu þjóðarbrot innan um í stærri stíl en æskilegt var.

Friðarsamningarnir 1919 voru ekki sérlega sanngjarnir og báru í sumum greinum meiri vott af hefnd heldur en friðarumleitunum. Voru þeir því betur fallnir til að skapa ólgu en frið í Evrópu. Upphaf öfgafullra þjóðernishreyfinga í Þýskalandi er hægt að rekja nær beint til úrslita stríðsins og áhrifa Versalasamningana á þýskt efnahagslíf og þjóðarstolt. Fjölmargir Þjóðverjar voru þeirrar skoðunar að þýski herinn hefði marsérað ósigraður heim frá vígstöðvunum og að pólitíkusar sósíal-demókrata hefðu rekið rýting í bak keisaradæmisins með undirritun Versalasamningana.

Í þessari stjórnmálaiðu Þýskalands árið 1919 spruttu upp fjölmargir smáflokkar sem höfðu það að stefnu sinni að endurreisa Þýskaland úr rústum Versalasamninganna og búa Þjóðverjum forystuhlutverk í Evrópu. Einn slíkra flokka, sem átti eftir að verða nokkuð lífsseigari en aðrir, var Þýski Verkamannaflokkurinn (Deutsche Arbeiters Partei).


2. Fasismi: Réttur hins sterka

Orðið fasismi merkir samkvæmt íslenskri orðabók “andsósíalsísk stjórnmálahreyfing er stefnir að vopnaðri beitingu ríkisvalds (með her eða lögreglu) gegn almenningi”.
Uppruna orðsins fasismi er að leita á Ítalíu, en í janúar 1915 stofnuðu ítalskir þjóðernissinnar flokkinn Fasci di Combattimento. Síðar tóku þeir að nota fornt tákn rómverskra ræðismanna sem merki sitt, hrísknippi sem öxi stóð uppúr. Á tímum Rómverja var vöndurinn tákn um vald til að refsa og lífláta og var kallaður Fasces. Upphaflega voru ítalskir fasistar því nefndir eftir nafni flokksins og merki þeirra, hrísvendinum og síðar hefur þetta orð fest í sessi yfir öfgafulla þjóðernisstefnu.

En hvað er fasismi? Fasismi er ansi víðtæk stefna en í stuttu máli má segja að í henni felist sú grundvallarhugmynd að ein þjóð tilheyri einu ríki. Ríkið er algert og stöðugt, einstaklingarnir veikir og afstæðir. Einstaklingar og hópar eru einungis leyfanlegir ef þeir hegða sér í fullu samræmi við stefnu ríkisins. Í fasisma býr andúð á lýðræði. Samkvæmt kenningum Adolf Hitlers sem hann setur fram í Mein Kampf er lýðræðið undanfari Marxisma og hið síðara óhugsandi án hins fyrra.

Í kenningum fasisma víkja hagsmunir einstaklingsins fyrir hagsmunum fjöldans. Ákveðinn hópur manna er útvalinn til að stjórna fjöldanum og vernda hagsmuni hans, en þó aðeins ef hagsmunir þessir fara saman við stefnu ríkisins. Sterk forysta, ótakmarkað vald þeirra er hana mynda og fullkomið réttleysi þeirra sem ekki samræmast allsherjarhagsmunum ríkisins eru helstu einkenni þessarar stefnu. Yfirburðir hins fasíska ríkis gagnvart öðrum ríkjum er einnig stór þáttur í hugmyndum fasisma og markviss útþenslustefna var stór þáttur í hinum fasísku ríkjum á Ítalíu og í Þýskalandi á árunum 1921-1945. Nasismann í Þýskalandi má með réttu telja afsprengi eða systurstefnu fasisma, hann ber öll þau einkenni sem lýst er hér að ofan en auk þess blandast inn í fasismann kynþáttahugmyndir sem ekki voru eins áberandi í ítölskum fasisma þannig að segja má að nasisminn sé öfgafyllri grein af sama meiði.


3. Upphafið: Stefna og þróun 1919-1924

Þann 12. september árið 1919 gekk maður inn á fund hjá hinum tiltölulega nýstofnaða Þýska verkamannaflokki. Þessi maður var Adolf Hitler, austurrískur tollvarðarsonur sem hafði háleitar hugsjónir um framtíð þýska ríkisins og var auk þess framúrskarandi ræðumaður. Þessi fundur átti eftir að hafa mikil áhrif á flokkinn, líf Hitlers og síðar heimsbyggðina alla. Verkamannaflokkurinn innihélt aðallega félaga úr Fríliðasveitunum (Freikorps) og hernum, menn sem voru óánægðir með endalok styrjaldarinnar og hlutskipti sitt í rústum keisaradæmisins.

Flokkurinn var einn margra slíkra sem spruttu upp eins og gorkúlur árið 1919 um allt landið og félagatalan var ekki sérlega há. En flokkurinn og Hitler féllu saman eins og flís við rass og strax á þessum fyrsta fundi var framistaða Hitlers svo mögnuð að þáverandi formaður flokksins, Anton Drexler, bauð honum sérstaklega að taka frekari þátt í flokksstarfinu.

Stefna nasistaflokksins á þessum upphafsárum var aðallega and-semítismi, sterk þjóðernishyggja og einhverskonar and-kapítalismi. Í stefnuskrá hans frá 24. febrúar 1920, sem var nær eingöngu sett saman af Drexler og Hitler, segir meðal annars:
“1. Við krefjumst sameiningar allra Þjóðverja í Stór-Þýskaland á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar þjóða.
2. Við krefjumst jafnréttis fyrir þýsku þjóðina í samskiptum hennar við aðrar þjóðir, og afturköllunar friðarsamningana frá Versölum og Saint-Germain.
3. Við krefjumst lands og landsvæða(nýlenda) til að fæða þjóð okkar og til búsetu fyrir aukinn mannfjölda okkar.
4. Aðeins meðlimir þjóðarinnar mega vera borgarar ríkisins. Aðeins fólk af þýsku blóði, hverar sannnfæringar sem þeir eru, mega vera meðlimir þjóðarinnar. Samkvæmt því má enginn gyðingur vera meðlimur þjóðarinnar.

7. Við krefjumst þess að Ríkið geri það að aðalmarkmiði sínu að sjá ríkisborgurunum fyrir lífsviðurværi. Ef það myndi reynast ógerningur að fæða alla íbúana, verður að flytja útlendinga (þá sem eru ekki ríkisborgarar) frá Ríkinu.
8. Allan straum innflytjenda sem ekki eru Þjóðverjar verður að stöðva. Við krefjumst þess að allir þeir sem ekki eru Þjóðverjar og komu til Þýskalands eftir 2. ágúst 1914 verði látnir yfirgefa Ríkið án tafar. …”

Stefna flokksins hafði þá þegar tekið á sig nokkuð af þeirri mynd sem síðar átti eftir að verða ríkjandi, en síðar í þessu skjali, í greinum 11-25 ber mest á and-kapítalískum hugmyndum um rétt verkamanna og skiptingu auðs, stundum svo að jaðrar við sósíalisma. Síðar urðu þessar hugmyndir óljósari og meiri áhersla var lögð á fasíska þjóðernisstefnu, en þrátt fyrir það voru verkamenn og líkamleg vinna ætíð í hávegum haft í nasismanum, eins og reyndar var einnig á Ítalíu. Til að leggja áherslu á þennan samruna þjóðernishyggju og and-kapítalisma var nafni flokksins breytt í febrúar 1920 og kallaðist hann síðan Þjóðernissósíalistaflokkur þýskra verkamanna (Nationalsocialistische Deutsche Arbeiters Partei, NSDAP).

Fylgi flokksins jókst hratt á þessum fyrstu árum. Árið 1921 voru félagar orðnir 3.300 talsins og mátti helst þakka ræðumennsku Hitlers sem var kjörinn formaður flokksins í ágúst sama ár. Um haustið 1923 var félagatalan komin í 50.000 manns og að morgni 9. nóvember lagði ganga nasista af stað til Berlínar frá München til að hefja “þjóðarbyltingu”. Ekki vildi betur til en svo að þegar inn í miðborg Berlínar kom tóku á móti göngumönnum hermenn vopnaðir vélbyssum og upphófst skothríð sem lyktaði með flótta nasista. Forsprakkar göngunnar, Hitler, Ludendorff hershöfðingi og fleiri voru handteknir og var Hitler dæmdur til fangavistar í Landsberg fangelsinu þar sem hann skrifaði bók sína Mein Kampf. Urðu þarna þáttaskil í sögu nasistaflokksins og hefst nýtt tímabil þegar Hitler sleppur úr fangavistinni 1. apríl 1924.



4. Flokksvélin styrkist: Breytingar og fylgisaukning 1924-1928

Hitler tók á ný við forystu í flokknum og hóf að byggja hann upp á nokkuð breyttum grundvelli. Hann sá til þess að leifunum af hinum lýðræðislegu innviðum flokksins frá því á fyrstu árum hans var kastað fyrir róða og tekin upp ný skipan sem samræmdist betur stefnu hans. Upp frá því fór einn maður með öll völd í flokknum, foringinn Hitler. Einnig breytti hann um baráttuaðferð. Upp frá þessu skyldi flokkurinn aðeins starfa innan ramma stjórnarskrárinnar. Hitler hafði þegar í Landsberg ákveðið að taka upp nýjar aðferðir og ætlaði sér með því að ná yfirhöndinni á þinginu og þar með Þýskalandi á sitt vald. Nokkur andstaða við kosningaþáttöku flokksins kom upp í flokkssdeildum annarsstaðar en í Bæheimi, til dæmis í Hannover og Göttingen en slíkt varði ekki lengi.

Flokkurinn stækkaði hægt fram til ársins 1928. Hitler var fljótlega bannað að halda ræður í flestum stærri fylkjum Þýskalands og hann einbeitti sér því í fyrstu að því að skrifa seinna bindi Mein Kampf. Því féll það í hendur Dr. Josef Goebbels að sjá um að hala inn fylgi. Félagatalan jókst hægt og árið 1927 voru félagar um 40.000. Í ársbyrjun 1928, eftir að banninu á Hitler hafði verið aflétt tók félagatalan hins vegar stökk og komst í 60.000 manns. Í þingkosningunum sama ár náði flokkurinn þó ekki settu marki og fékk aðeins 12 þingsæti, helming þess sem sett hafði verið að markmiði fyrir kosningarnar. Þó voru kosningarnar nokkur sigur fyrir nasista því í fyrsta sinn sátu fulltrúar þeirra á þingi Þýskalands og sýndi það vantrúarmönnum í flokknum að áætlun Hitlers var meira en hjóm eitt.

Innviðir og skipulag flokksins gerbreyttist á árunum eftir að Hitler slapp úr fangelsinu. Hann var þeirrar skoðunar að ef flokkurinn ætti að geta tekið við stjórntaumum ríkisins með litlum fyrirvara yrði hann að vera byggður upp sem ríki í sjálfum sér. Því voru sett á stofn ýmis embætti og stofnanir innan flokksins og varð hann nánast eins og skuggaríki innan ríkisins, svo þróað var skipulagið og verkaskiptingin innan hans. Má sem dæmi nefna að á opinberum fundum flokksins sáu meðlimir SA og SS* um að halda uppi röð og reglu, sem og önnur lögreglustörf, Flokkurinn hafði sín eigin utanríkis-, landbúnaðar- og varnarmálaráðuneyti, rétt eins og þýska ríkið, hakakrossfáninn var þjóðfáni skuggaríkisins og Horst Wessel söngurinn var þjóðsöngur þess.

Það var ekki fyrr en eftir kosningarnar 1928 að draga fór til tíðinda fyrir nasistaflokkinn. Nasistar fóru að njóta meiri virðingar vegna baráttu sinnar heldur en helstu keppinautar þeirra, Stálhjálmurinn (Stahlhelm) og Þýski þjóðernissina flokkurinn (Deutschnationale Volks Partei). Í kjölfar þess jókst fylgi nasista úr 2.6% við kosningarnar í ársbyrjun, í 5.7% í desember sama ár. Heimskreppan 1929 var hrein himnasending fyrir nasista og varð til þess að fylgi þeirra jókst enn meira. sífellt fleiri urðu óánægðir með hlutskipti sitt og nasistaflokkurinn höfðaði vel til þeirra fjölmörgu sem voru atvinnulausir eða fjárþurfi. Adolf Hitler og flokkur hans bauð þeim nýja og bjartari framtíðarsýn, þar sem Þjóðverjar voru sameinaðir og sterkir, í fararbroddi í Evrópu og þýskir þegnar skyldu hafa nóg að bíta og brenna umfram aðra. Það skal engan undra að slík gylliboð hafi heillað marga á árum óðaverðbólgu, atvinnuleysis og almennrar niðurlægingar þýsku þjóðarinnar eftir heimsstyrjöldina.


5. Leiðtoginn Adolf Hitler

“Það hefur reynst mér heilladrjúgt nú, að forlögin útnefndu Braunau am Inn sem fæðingarstað minn. Því það litla þorp er einmitt staðsett á landamærum þeirra tveggja ríkja, hverra sameining, alltént fyrir okkur af yngri kynslóðinni, virðist vera það verkefni sem við ættum að helga líf okkar og allar aðferðir ætti að nota til að svo megi verða.”

Á þessum orðum hefst eitt magnaðasta áróðursrit tuttugustu aldar, sjálfsskoðun og sýn Adolfs Hitlers, Mein Kampf. Í þessum upphafsorðum bókarinnar kemur skýrt fram lífsmarkmið mannsins sem þau skrifaði, að sameina þýsku ríkin tvö undir sterkri stjórn og hefja þannig Þjóðverja á sinn réttmæta stall yfir öðrum í Evrópu.

Hitler lýsir í bókinni þeim árum í Vín sem urðu til þess að móta stjórnmálaskoðanir hans. Hann fyrirleit lýðræðið, sérstaklega þingið, og lýsir því sem ofsafengnum fjölda fólks, patandi og öskrandi hvert ofan í annað, með vorkunnarlegum eldri manni hristandi bjöllu sína, reynandi af öllum mætti að kalla samkunduna til vitundar um virðingu sína með vinsamlegum ábendingum og alvarlegum viðvörunum. Segist Hitler ekki hafa getað varist hlátri við þessa sjón er honum var boðin í hinu virðulega þinghúsi Vínarborgar.

Hitler kom til München vorið 1912. hann hafði farið frá Austurríki til að forðast að vera kvaddur í herinn, en tæplega er hægt að skella skuldinni á hugleysi því þegar stríðið braust út árið 1914 gerðist hann sjálfboðaliði her þýska keisaradæmisins. Styrjaldarárin höfðu mikil áhrif á Hitler og mótuðu skoðanir hans enn frekar, félagatengslin í skotgröfunum, Þjóðverjar sameinaðir gegn vel skilgreindum óvinum, fórnin fyrir föðurlandið, þetta voru þau gildi sem Hitler taldi seinna gersamlega andstæð hinum sjálfbirgingslegu lýðræðisstjórnmálum Weimarlýðveldisins.

Í skotgröfunum kynntist Hitler einnig áhrifum vel útbúins áróðurs. Tileinkar hann einn kaflann í bók sinni áróðri og segir hann þar að rétt notkun áróðurs sé list í sjalfri sér og að þeirri list hafi smáborgaraflokkarnir á stríðsárunum verið nær allsendis ókunnir. Í kaflanum koma einnig vel fram þau markmið sem Hitler telur að áróður eigi að þjóna og hvernig honum skuli beitt svo að sá árangur náist sem miðað er að. Hann segir meðal annars:
Áróður má ekki leggja hlutlægt mat á sannleikann og, svo lengi sem það er hliðhollt mótaðilanum, setja hann fram samkvæmt hinum fræðilegu reglum réttlætisins; heldur skal hann einungis setja fram þá hlið sannleikans sem er málstað hans hliðholl.

Það voru grundvallarmistök að opna umræðu um það hver var ábyrgur fyrir upphafi styrjaldarinnar og að lýsa því yfir að ekki væri hægt að skella skuldinni að öllu leyti á Þýskaland. Algera ábyrgð hefði átt að leggja á herðar óvinarins, fullkomlega án allrar umræðu.

Þessum skilningi sínum á áróðri og áhrifum hans, beitti Hitler sér og nasistaflokkinum til framdráttar og var hann snemma settur yfir öll áróðursmál flokksins. Hann beitti þessu einnig óspart í ræðumennsku sinni og er nokkuð víst að það hefur átt þátt í því fylgi sem hann aflaði flokknum á þeim vettvangi. Ein af uppáhalds áróðursaðferðum Hitlers var þessi: Ef þú ætlar að ljúga einhverju á annað borð, taktu þá nógu stórt upp í þig og hikaðu ekki við að endurtaka það. Hugmyndin á bak við þessa aðferð var var sú að múgurinn léti fremur stjórnast af tilfinningum en vitsmunum.

Auk sérstæðs skilnings hans á stjórnmálum og mikilvægi aróðurs var Hitler afburða ræðumaður. Hann bjó yfir einstökum persónuleika sem hreif fólk hvort sem um var að ræða nánustu samstarfsmenn hans eða múginn sem hann talaði til.

“Blanda Hitlers af kreddukendum staðhæfingum, endurtekningum, stingandi háði og skírskotun til tilfinninga gerði yfirleitt útslagið. Í lok tveggja klukkutíma ræðu hans var múgurinn farinn að fagna oft og mikið. … Samt sem áður var hann ætíð ‘ískaldur’, og lét aldrei hrifninguna sem hann vakti ná tökum á sér. Hann bandaði frá sér fagnaðarlátunum hélt áfram rólega án þess að missa taktinn, byggði upp rök sín eins og píramýda fyrir augum áheyrendanna á meðan rödd hans færðist frá pianissimo til fortissimo og allt upp í furioso. Að því leyti voru ræður hans ætíð úthugsaðar og aldrei ósjálfráðar. En það mikilvægasta var hæfileiki hans til að sannfæra áheyrendurna um að honum væri dauðans alvara. Svo að þegar galdramaðurinn leysti þá undan seið sínum streymdu þeir heim á leið … fordómar þeirra staðfestir, von þeirra endurnýjuð af manni sem kenndi sig við ótta þeirra og þrár og lofaði að uppfylla óskir þeirra á meistaralegan hátt.”

Það var án efa þessi samsetning Hitlers á skörulegri ræðumennsku, mögnuðum persónuáhrifum og beittum áróðri sem aflaði nasistaflokknum hvað mests fylgis. Hann gat sett hugmyndir sínar og markmið skipulega fram á þann hátt sem fólkið skildi og mikilvægt var að hann gat sett þau fram á mismunandi hátt eftir því til hvaða þjóðfélagshóps hann talaði.

Hitler var hinn fullkomni tækifærissinni, hinn fullkomni stjórnmálamaður að þessu leyti. Hann gat heillað lýðinn með loforðum um sameiningu og bætt kjör og hann vissi einnig hvernig þurfti að meitla markmið flokksins til að hægt væri að fá iðnjöfra og hástéttarfólk til að trúa á það sem hann stóð fyrir.

Hitler hafði sett fram markmið sín og hugsjónir í Mein Kampf, og má segja að þau hafi verið í þremur stigum. Fyrsta stigið var að losa þýsku þjóðina úr hlekkjum Versalasamninganna. Þetta var mjög mikilvægt að mati Hitlers bæði vegna hinna efnahagslegu takmarkana sem samningarnir hljóðuðu upp á en ekki síður vegna þeirrar niðurlægingar þýsku þjóðarinnar sem þeir lýstu. Þegar því markmiði hefði verið náð taldi Hitler að næsta stig væri að losa þjóðina við óæskilega kynstofna eins og gyðinga, sígauna og slava svo að hinn aríski kynstofn gæti blómstrað ómengaður. Gyðingar voru að mati Hitlers andstæða aría og neitaði hann því alfarið að gyðingdómur væri trúarleg skilgreining og hélt hann því fram að slíkt væri náttúrulega eða líffræðilega ákvarðað. Þar sem gyðingar höfðu ekkert þjóðríki bjuggu þeir ekki yfir þeirri háleitu getu að fórna sér fyrir mikilvæga almannahagsmuni. Gyðingurinn var veraldlega sinnaður og hugsjónalaus og því var hann óæskilegur í hugsjónaríki nasista og var ábyrgur fyrir arðráni og spillingu í þjóðfélagi aría. Síðasta stig Hitlers var að vinna land og lífsrými í austri svo að þýska þjóðin gæti verið sjálfri sér nóg um allar nauðsynjar. Kemur þeta viðhorf skýrt fram strax í upphafi Mein Kampf:

“Þegar landsvæði Ríkisins umlykur alla Þjóðverja og því er ómögulegt að tryggja þeim afkomu … Þá er plógurinn sverðið; og tár stríðsins munu verða uppspretta daglegs brauðs fyrir komandi kynslóðir.”

Stríð var því óumflýjanlegt að mati Hitlers ef aríski kynstofninn átti að búa við þann kost sem hann verðskuldaði.


6. Fjöldahreyfing: Kosningar og valdataka 1928-1932

Á árunum fyrir kreppuna hafði nasistaflokkurinn aukið fylgi sitt töluvert. Var þetta aðallega að þakka þeirri staðreynd að þrátt fyrir aukna velmegun og stöðugleika á tímabilinu hafði þingræðislegt lýðræði enn ekki fest rætur í Þýskalandi. Á hinn bóginn mátti merkja sterkar tilhneigingar efri- og miðstéttafólks í átt til þjóðernislegra og íhaldslegra hugmynda. Flokkurinn hafði beðið nokkuð skipbrot í tilraunum sínum til að vinna verkamenn á sitt band og í kjölfar þess í þingkosningunum 1928. Ljóst var að leita þurfti nýrra úrræða ef flokkurinn átti að eiga möguleika á að komast til áhrifa í þýskum stjórnmálum. Flokkurinn breytti áherslum sínum og fór að einbeita sér í meiri mæli en áður að miðstéttarfólki og eftir það óx félagatala flokksins hægt og hægt.

Wall Street hrunið hafði mjög slæm áhrif á efnahagsbata Þýskalands. Árið 1924 hafði Dawes-áætlunin** um greiðslu Þýskalands á stríðsskaðabótum verið sett fram og í kjölfar hennar fengu Þjóðverjar mikið lán frá Bandaríkjamönnum til að auðvelda þeim að standa í skilum. Þetta hafði rennt nýjum stoðum undir þýskt efnahagslíf, skaðabæturnar voru greiddar árlega samkvæmt áætluninni og þjóðin rétti úr kútnum. Það var því gríðarlegt áfall þegar heimskreppan skall á og efnahagslíf í Þýskalandi hrapaði niður í nýja lægð verðbólgu og atvinnuleysis. Young-áætlunin*** sem sett var fram eftir hrunið 1929 varð hægrimönnum uppspretta mikils áróðursefnis. Þeir sáu í henni tækifæri til að endurvekja andúð fólksins á stríðsskaðabótunum og vinna aftur upp það fylgi sem tapast hafði í kosningunum 1928. Tóku þeir harða afstöðu gegn áætluninni og sögðu meðal annars að með henni væri verið að selja þýsk börn í þrældóm fyrir bandamenn.

Þessi uppsveifla varð til þess að nasistar gengu til nokkurs samstarfs við leiðtoga Þýska þjóðernissinnaflokksins og með því fengu þeir aðgang að meira fé en áður og gátu aukið og víkkað kosningabaráttu sína fyrir vikið. Þetta samstarf leiddi einnig til þess að verkamannastimpillinn fór loks af nasistaflokknum og miðstéttarfólk gat farið að taka hann alvarlega. Andstaðan við Young áætlunina misheppnaðist hrapallega og varð til þess að minnka fylgi hægri flokkana enn frekar, það er að segja allra nema nasistafloksins. Hitler tókst aftur að snúa ósigri upp í sigur. Hann steig út úr hringiðunni sem sterkasti og þekktasti leiðtogi hægriflokkana og hræðslu almennings við hann og flokkinn hafði nú verið eytt með sambandi hans við virtari leiðtoga hægrimanna. Nafn hans var nú á hvers manns vörum í Þýskalandi og í árslok 1929 voru félagar í flokknum orðnir 178.000.

Annað atriði sem jók fylgi nasista svo um munaði var samband þeirra við hina róttæku Landvolk hreyfingu, en nasistar voru undanfarar og boðendur hennar. Þessi hreyfing höfðaði til bænda og landbúnaðarfólks og breiddist ört út um sveitir Þýskalands. Í kjölfar þess hlaut nasistaflokkurinn stóraukið fylgi í landbúnaðarhéruðum og varð þetta upphafið að hinni miklu fylgisaukningu flokksins sem hófst á árunum 1929-1930.
Í júlí 1930 var þing rofið og boðað til kosninga. Nasistar eygðu nú tækifæri til að rétta hlut sinn og hófu mikla kosningabaráttu sem aflaði þeim 6.4 milljóna atkvæða og 25.6% fylgis í kosningunum. Flokkurinn fékk 107 þingsæti og var nú orðinn annar stærsti þingflokkur landsins.

Fyrir kosningarnar og á árunum fram til 1933 hélt áróðursvél flokksins áfram að þróast og varð æ beinskeyttari og fágaðri á alla lund. Nasistar notuðu nýustu tækni sér til framdráttar og áróður þeirra buldi á þjóðverjum í formi samhæfðra fjölmiðlaherferða og kvikmyndasýninga svo eitthvað sé nefnt. Öllu þessu stjórnaði Dr. Goebbels af stakri snilld frá höfuðstöðvum flokksins.

Flokkurinn hélt áfram að stækka og auka fylgi sitt eftir því sem efnahagsástand Þýskalands hélst bágt og áhrif áróðursdeildarinnar jukust. Árið 1932 var komið að því á ný að halda þurfti þingkosningar. Þessi kreppa kom á besta tíma fyrir nasista og í kosningunum hlaut flokkurinn 13.7 milljónir atkvæða og 230 þingsæti. Þessi úrslit gerðu það að verkum að nasistaflokkurinn var orðinn langstærsti flokkurinn á þýska þinginu og var loksins kominn í þá yfirburðaaðstöðu sem Adolf Hitler hafði séð fyrir sér er hann breytti baráttuaðferðum hans eftir bjórkjallarauppreisnina 1923.

Eftir kosningarnar fór í hönd tími óvissu í ríkisstjórn Þýskalands. Þrátt fyrir að nasistar hefðu unnið yfirburðasigur voru Paul von Hindenburg forseti og þeir Franz von Papen kanslari og Schleicher hershöfðingi (sem tók við kanslaraembættinu af von Papen 2. desember 1932) ekki tilbúnir að hleypa Hitler og nasistum inn í stjórn landsins. Þeim von Papen og Schleicher var hinsvegar ómögulegt að vinna sér það fylgi sem þeir nauðsynlega þurftu til að geta myndað starfhæfa ríkisstjórn og því var það þann 30. janúar 1933 að Hindenburg útnefndi Adolf Hitler kanslara Þýskalands. Var það í samsteypustjórn hægriflokka þar sem aðeins tveir aðrir nasistar áttu sæti, þeir Hermann Göring og Wilhelm Frick. Von Papen og aðrir gamalreyndir stjórnmálamenn reiknuðu með að geta haft taumhald á Hitler þar sem flokkur hans væri í minnihluta í stjórninni. Það reyndist þó nokkuð gróft vanmat.

Eitt fyrsta verk Hitlers er hann var sestur í kanslarastólinn var að boða til nýrra kosninga og var öllum ráðum beitt til að hala inn atkvæði. Úrslitin urðu þau að nasistaflokkurinn fékk 44% atkvæða og um sumarið 1933 höfðu allir aðrir flokkar verið bannaðir eða leystir upp. Nasistaflokkurinn stóð uppi sem eini löglegi flokkurinn og þingið var einungis leikvöllur þeirra. Er Hindenburg lést sumarið 1934 útnefndi Hitler sjálfan sig forseta og upp frá því urðu allir hermenn Þýskalands að sverja honum persónulega hollustu. Síðasta mótspyrnan var brotin á bak aftur aðfaranótt 30. júlí 1934 þegar fjöldinn allur af mönnum í SA-sveitunum voru myrtir og þar á meðal foringi þeirra Ernst Röhm. **** Kynþáttalögin alræmdu voru sett 1935 og voru þau í samræmi við stefnuskrá nasistaflokksins frá 1920. Samkvæmt lögunum voru allir aðrir en aríar sviptir ríkisborgararétti í Þýskalandi og sambönd aría við fólk af öðrum kynstofnum bönnuð.

Hitler hafði þannig á þeim stutta tíma sem liðinn var síðan hann varð kanslari öðlast einræðisvald yfir öllu Þýskalandi og nasistaflokkurinn hélt uppi ógnar- og ofbeldisstjórn af þvílíku offorsi að enginn andstæðingur þeirra var óhultur.


7. Niðurstöður

Fimm atriði virðast aðallega hafa stuðlað að því að nasistar náðu völdum í Þýskalandi.

Í fyrsta lagi er um að ræða sameiningu flokksins á sterkri þjóðernisstefnu og and-kapítalisma. Þetta gerði það að verkum að stefna flokksins gat höfðað til fleiri hópa samfélagsins, allt frá verkafólki til iðnrekenda, og þetta nýttu nasistar sér út í æsar.

Í öðru lagi er stjórnmálaástand í Þýskalandi á millistríðsárunum. Nasistar boðuðu kenninguna um svik sósíaldemókrata miskunnarlaust og börðust hatrammlega gegn Versalasamningunum. Þetta fór saman við skoðanir fjölda Þjóðverja sem ekki sættu sig við að Þýskaland hefði tapað stríðinu.

Í þriðja lagi voru nasistar heppnir. Þeir voru á réttum stað á réttum tíma þegar heimskreppan skall á og hún varð þeim til mikillar hjálpar. Þeir gátu lofað fólkinu betri kjörum í sameinuðu og sterku Stór-Þýskalandi og þeir boðuðu að þjóðernissósíalisminn væri andstæða þess ástands sem ríkti.

Í fjórða lagi var skilningur og beiting nasista á áróðri hrein list. Þeir notuðu sér nýustu tækni og allur áróður þeirra var úthugsaður. Áróðri hafði aldrei verið beitt í stjórnmálum af jafnmikilli beinskeyttni.

Síðast en ekki síst hafði flokkurinn á að skipa leiðtoga sem var framúrskarandi ræðumaður og hafði lag á að vinna hvern þann sem á hann hlýddi til fylgis við sig. Ekki er nokkur vafi á að Adolf Hitler var sá maður sem aflaði nasistum mests fylgis og án stjórnar hans er óvíst að flokkurinn hefði nokkurn tíma komist til áhrifa í Þýskalandi.



Tilvísanir og neðanmálsgreinar:

1 Íslensk orðabók, Árni Böðvarsson, 194.
2 Mussolini, Benito: The Doctrine of Fascism, 19.
3 Mussolini, Benito: The Doctrine of Fascism, 36.
4 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 53.
5 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 11.
6 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 11.
7 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 14-15.
8 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 18.
9 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 18-20.
10 Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany, 7.
11 Fest, Joachim C.: The Face of the Third Reich, 59.
12 Fest, Joachim C.: The Face of the Third Reich, 60.
13 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 41.
14 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 40.
15 Fest, Joachim C.: The Face of the Third Reich, 60.
* SA (Sturmabteilung) voru fyrstu baráttusveitir nasistaflokksins. Félagar þeirra voru upphaflega flestir meðlimir fríliðasveitanna og var þeim falið að sjá um að halda uppi reglu á fundum flokksins á fyrstu árum hans, verja fundi fyrir áhlaupum kommúnista og eins að fleypa upp fundum annarra stjórnmálaflokka. Í SA völdust því aðallega fautar og svaðamenni fyrst í stað. SS (Schutzstaffeln) voru stofnaðar nokkru síðar og var upphaflegt hlutverk þeirra að vera einkalíförður Hitlers. Í þessar sveitir völdust aðeins fyrirmyndararíar, ljóshærðir og bláeygir, og voru sveitirnar úrvalslið nasista og mikill heiður talinn að því að vera meðlimur þeirra.
16 Fest, Joachim C.: The Face of the Third Reich, 61.
17 Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany, 18.
18 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 13.
19 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 53.
20 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 80.
21 Geary, Dick: Hitler and Nazism, 1.
22 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 106.
23 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 109.
24 Geary, Dick: Hitler and Nazism, 5.
25 Carr, William: Hitler, 5.
26 Geary, Dick: Hitler and Nazism, 7-8.
27 Hitler, Adolf: Mein Kampf, 13.
28 Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany, 67.
29 Carr, William: Hitler, 27.
30 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 58.
** Dawes-áætlunin (nefnd eftir Charles G. Dawes) gerði ráð fyrir að með utanaðkomandi hjálp yrði þýska markið gert stöðugt á ný. Þjóðverjar skyldu greiða árlega upp í skaðabæturnar, 1 miljarð gullmarka fyrsta árið og færi upphæðin svo hækkandi upp í 2.5 miljarða fimmta árið og svo koll af kolli. Ekki var þó heildarfjárhæðinni breytt. Þjóðverjum var veitt bandarískt lán að upphæð 800 milljónum marka. Mikilvægur hluti áætlunarinnar var að Frakkar drægju herlið sitt í Ruhr-héruðunum til baka svo þýskur iðnaður gæti rétt úr kútnum.
*** Young-áætlunin (nefnd eftir Owen D. Young) gerði m.a. ráð fyrir að Stríðsskaðabótaráðið yrði afnumið og heildarfjárhæð bótanna lækkuð un einn fjórða. Einnig var í áætluninni í fyrsta skipti sett ákveðin tímamörk á greiðslulok og var ákveðið að það skyldi vera árið 1988.
31 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 65.
32 Carr, William: Hitler, 28.
33 Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany, 72.
34 Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany, 82-83.
35 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 70.
36 Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945, 73.
37 Carr, William: Hitler, 32.
38 Geary, Dick: Hitler and Nazism, 34-37.
39 Henig, Ruth B.: The Origins of the Second World War 1933-1939, 13.
40 Bell, P. M. H.: The Origins of the Second World War in Europe, 73.
**** Ernst Röhm var foringi SA sveitanna þegar nasistar komust til valda og Hitler þótti þær vera of valdamiklar og sýna
Röhm heldur mikla hollustu. Hitler greip því til þess ráðs að láta myrða fjölda SA-manna og foringja þeirra til að bæla niður alla andspyrnu gegn sér innan flokksins.


Heimildir:

Bell, P. M. H.: The Origins of the Second World War in Europe; Longman, London, 1986.

Broszat, Martin: Hitler and the Collapse of Weimar Germany; Berg Publishers, New York, 1987.

Carr, William: Hitler: A Study in Personality and Politics; Edward Arnold, London, 1978.

Fest, Joachim C.: The Face of the Third Reich; Penguin Books, London, 1972.

Geary, Dick: Hitler and Nazism; Routledge, London, 1993.

Henig, Ruth B.: The Origins of the Second World War 1933-1939; Routledge, London, 1992.

Hitler, Adolf: Mein Kampf; Hurst and Blackett Ltd., London, 1942.

Íslensk orðabók; Mál og menning, Reykjavík, 1993.

Mussolini, Benito: The Doctrine of Fascism; Vallecchi Publisher, Firenze, 1938.

Noakes, J. og Pridham, G.: Nazism 1919-1945: The Rise to Power 1919-1934; University of Exeter Press, Exeter, 1994.




Ef einhverjir eru ennþá að lesa þá þakka ég fyrir þolinmæðina… :)

obsidian