Sú hætta hefur löngum fylgt valdamiklum mönnum að sóst hefur verið eftir lífi þeirra. Ófáir þjóðhöfðingjar í sögunni, og aðrir valdamenn, hafa hlotið það hlutskipti að hafa verið myrtir eða komið frá völdum á annan hátt. Stundum er haft á orði að tilgangurinn helgi meðalið en sennilega er þó flestum ljóst að þar er á ferðinni full mikil alhæfing. Hitt er svo annað mál að ástæður tilræða í sögunni hafa eðli málsins samkvæmt verið af ýmsum toga þó yfirleitt hafi stjórnmálin verið skammt undan.
Hvað sem annars segja má um tilræðið við Adolf Hitler árið 1944 geta sennilega flestir orðið sammála um að það var framið af hugsjón, þ.e. þeirri hugsjón að bjarga Þýskalandi frá tortímingu á meðan einhverju var bjargandi. Og þó tilræðismennirnir hafi verið hópur manna með ýmsar áherslur að öðru leyti þá sameinaði þá andstaðan við Hitler og nasistastjórnina.
Hvað snýr að heimildaöflun fyrir ritgerðina er ekki yfir skorti á góðum ritum um viðfangsefnið að kvarta. Bendi ég áhugasömum í því sambandi á heimildaskrá ritgerðarinnar. Markmið ritgerðarinnar er að fjalla í meginatriðum um tilræðið við Hitler, framkvæmd þess, aðdraganda og eftirleik. Sú rannsóknarspurning sem reynt verður að svara er hvað varð þess valdandi að samsærið mistókst, en ennfremur verður reynt að gera grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði getað haft ef samsærið hefði gengið upp eins og samsærismenn vonuðust til.
Staðið gegn nasistum
Strax frá upphafi valdatíma nasista í Þýskalandi voru starfandi ýmsir mótspyrnuhópar í Þýskalandi gegn nasistastjórninni. Einn slíkur bar dulnefnið Schwarze Kapelle og var skipuð mörgum af helstu áhrifamönnum í þýsku samfélagi úr röðum verkalýðsfélaga, borgarastéttarinnar og hersins. Hreyfing þessi samanstóð þó í raun af nokkrum laustengdum hópum og var í fyrstu dreifð um allt þýska þjóðfélagið.
Kjarni þessarar hreyfingar var þó að stóru leyti skipaður herforingjum sem sæti áttu, eða átt höfðu sæti, í herforingjaráði þýska hersins. Ýmsir af meðlimir hreyfingarinnar höfðu þegar fyrir stríð verið í sambandi við Winston Churchill, forsætisráðherra Breta, og ýmsa aðra af leiðtogum Bandamanna og jafnvel komið gögnum til þeirra varðandi málefni Þýskalands. Aðstæður fyrir slíka hreyfingu voru þó alls ekki góðar, mjög erfitt var oft að henda reiður á það hverjum var hægt að treysta enda voru útsendarar Gestapo alls staðar.
En þrátt fyrir tilvist og einlægan ásetning hreyfingar þessarar til að koma Hitler frá völdum mættu forvígismenn hennar fullkominni tortryggni af hálfu bandamanna og fengu þau skilaboð að um virka aðstoð við að koma Hitler frá völdum yrði ekki fyrir hendi fyrr en menn í Þýskalandi hefðu stigið ákveðið skref til að gera upp reikningana við nasistastjórnina. Um beina hvatningu var ekki að ræða við menn þá sem hefðu getað stytt síðari heimstyrjöldina um tvö til þrjú ár með byltingu.
Þegar komið var fram á síðari hluta ársins 1944 voru válegar aðstæður fyrir þýska herinn bæði á austurvígstöðvunum og á Ítalíu-vígstöðvunum. Á báðum þessum vígstöðvum voru Þjóðverjar á miklu undanhaldi og í júní höfðu þriðju vígstöðvarnar orðið til með innrás Bandamanna í Normandy í Norður-Frakklandi. Blikur voru á lofti og framtíð Þýskalands í bráðri hættu. Nú var að duga eða drepast. Koma yrði Hitler og nasistum hans úr umferð áður en þeir kölluðu algera tortímingu yfir Þýskaland.
Mennirnir á bak við samsærið
Eins og fyrr segir var innsti hringur mótspyrnuhreyfingarinnar að mestu skipaður þáverandi eða fyrrverandi herráðsforingjum. En eins og allajafna gengur og gerist var aðkoma manna að mótspyrnunni misjöfn. Sumir höfðu verið í andstöðu við nasistastjórnina allt frá því að hún tók völdin í Þýskalandi 1933. Aðrir höfðu komið til liðs við mótspyrnumenn síðar þegar þeim var ljóst hvert stefndi. Enn aðrir hafa án efa komið til liðs við mótspyrnumenn af tækifærismennsku á seinni stigum stríðsins þegar ljóst þótti að Þjóðverjar myndu að öllum líkindum tapa stríðinu. Að sama skapi voru persónulegar ástæður manna fyrir þátttöku í mótspyrnunni með ýmsu móti. Sumir börðust gegn nasistum af trúarlegum ástæðum, aðrir vegna persónulegra grundvallarreglna og enn aðrir af einskærri föðurlandsást. Ennfremur ofbauð mörgum einfaldlega ódæðisverk nasista.
Skiptar skoðanir voru einnig á meðal samsærismanna um það hvernig þjóðfélag ætti að setja á laggirnar eftir að nasistarstjórninni hefði verið komið frá völdum. Íhaldsmenn í mótspyrnunni vildu flestir koma á einhvers konar valdboðsstjórn eins og verið hafði á tímum keisarastjórnarinnar og vildu sumir jafnvel endurreisa keisaradæmið. Aðrir vildu koma á lýðræði aftur og þá einkum vinstrisinnaðri aðilar. En þrátt fyrir það hve ólíkar skoðanir hinir ýmsu hópar sem að samsærinu komu höfðu á ýmsum málum var það hinn sameiginlegi óvinur sem sameinaði þá.
Heilinn að baki hreyfingunni var fyrrverandi yfirborgarstjóri Leipzig, Karl Friedrich Gördeler. Henning von Tresckow hershöfðingi og barón, formaður herráðsins á austurvígstöðvunum, og Fabian von Schlabrendorf hershöfðingi, sem einnig starfaði í herráðinu, höfðu frá upphafi styrjaldarinnar stofnað mörg andnasistafélög meðal liðsforingja.
Ludwig Beck hershöfðingi hætti herþjónustu 1938 og lét þá þegar þau orð falla að Hitler yrði að koma frá völdum. Hann hafði verið formaður herráðsins síðan 1934 en hafði alfarið verið á móti því að farið yrði út í styrjöld. Adam von Trott zu Solz sendiráðunautur var einn þeirra sem voru í sambandi við Churchill og hafði strax árið 1940 komið mikilvægum upplýsingum um Þýskaland til hans og Roosevelts forseta Bandaríkjanna.
Claus Schenck von Stauffenberg ofursti og greifi, og formaður herráðs heimahersins, hafði frá því fyrir stríð verið virkur meðlimur í hreyfingunni og hafði óhræddur lýst yfir skoðun sinni á Hitler að viðstöddum mörgum hershöfðingjum. Von Stauffenberg hafði hlotið glæsilegan frama í hernum, og var t.a.m. þegar orðinn foringi við herráðið 1938. Hann hafði í fyrstu hrifist af Hitler en þegar líða fór á styrjöldina sá hann hve hættulegur hann var fyrir framtíð Þýskalands og fékk takmarkalaust hatur á honum.
Von Stauffenberg gekk til liðs við hina eiginlegu mótspyrnuhreyfingu sumarið 1941 fyrir milligöngu von Tresckows hershöfðingja. Í upphafi stríðsins hafði hann verið staðsettur í Póllandi en var síðan fluttur til starfa hjá yfirherstjórninni í Berlín. Í því starfi hafði hann möguleika á að ferðast víða um hernámssvæði Þjóðverja og notaði þau tækifæri til að mynda og treysta sambönd við andnasiska liðsforingjahópa á ýmsum vígstöðvum.
Í febrúar 1943 var von Stauffenberg sendur til Túnis sem yfirmaður aðgerðadeildarinnar þar. Þar varð hann fyrir árás frá fjandsamlegri orrustuflugvél er hann var á ferð í bifreið sinni og var fluttur mikið sár á sjúkrahús. Hann var metinn sem 50% öryrki. Hann missti hægri handlegginn og hélt aðeins þremur fingrum vinstri handar. Vinstra augað eyðilagðist einnig og lengi óttuðust menn að hann yrði einnig blindur á því hægra.
Á þessum tímapunkti hefði hann getað hætt þjónustu í hernum, en hann vildi það ekki. Eftir að hann var gróinn sára sinna, í lok júlí 1943, var hann fluttur til starfa í Berlín og gerðist þá einn af aðalmönnum mótspyrnuhreyfingarinnar.
Erwin Rommel, marskálkur, hafði gengið til liðs við samsærishópinn snemma á árinu 1944. Hann var hlynntur því að Hitler væri settur af og saminn yrði friður við Vesturveldin þannig að hægt væri að einbeita sér að Rússum. Hins vegar var hann andsnúinn því að Hitler væri drepinn og vildi þess í stað að hann yrði handtekinn, yfir honum réttað og ódæðisverk hans og nasista hans opinberuð.
Aðrir helstu meðlimir hreyfingarinnar voru t.a.m. Friedrich Olbricht hershöfðingi, yfirmaður birgðasveita heimahersins, Erwin von Witzleben marskálkur, yfirmaður setuliðsins í Berlín, Erich Fellgiebel hershöfðingi, yfirmaður merkja- og skeytaþjónustu þýska hersins, Wilhelm Canaris flotaforingi, yfirmaður Abwehr, Hans von Oster hershöfðingi, varayfirmaður Abwehr, Fritz Fromm hershöfðingi, yfirmaður heimahersins, Fritz von der Schulenburg, varaborgarstjóri Berlínarborgar, Günther von Kluge marskálkur, yfirmaður þýska hersins á vesturvígstöðvunum, Alexander von Falkenhausen, hernámsstjóri Belgíu, og Karl Heinrich von Stülpnagel hershöfðingi, hernámsstjóri Frakklands.
Reynt að myrða Hitler
En þrátt fyrir háttsetta og áhrifamikla meðlimi í mótspyrnunni gegn Hitler hafði ekki tekist að vega hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Að minnsta kosti tíu tilræði við Foringjann höfðu farið út um þúfur undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Hitler var sífellt að breyta fyrirætlunum sínum og tímasetningu. Einnig fundu sumir af nánustu samstarfsmönnum hans oft ósjálfrátt á sér ef hætta vofði yfir. Sjálfur trúði Hitler því að forsjónin verndaði hann.
Þann 12. mars 1943 kom von Schlabrendorff sprengju fyrir í kassa sem merktur var sem koníakssending til liðsforingja nokkurs á austurvígstöðvunum. Kassanum var komið fyrir í farangursgeymslu flugvélar sem flytja átti Hitler til vígstöðvanna. Galli í kveikju sprengjunnar olli því að sprengjan sprakk ekki og varð von Schlabrendorff að leggja sig í lífshættu við að ná hanni aftur og gera hana óvirka. Nokkrum dögum síðar hafði ofursti nokkur, von Gersdorff að nafni, ákveðið að deyja píslarvættisdauða með því að bera sprengjur á sér við sýningu sem Hitler átti að vera viðstaddur. En áformin fóru út um þúfur þar sem Hitler breytti snögglega áætlunum sínum.
Í október 1943 gerði Helmuth Stieff hershöfðingi, einn af helstu meðlimum mótspyrnuhreyfingarinnar, enn eina tilraunina til að vega Hitler er hann fór með tvær sprengjur á sér til aðalstöðvar Hitlers. Sprengjurnar, sem faldar voru undir varðturni, sprungu of snemma og það eitt varð Stieff til bjargar að liðsforinginn sem stjórnaði rannsókn tilræðisins var sjálfur einn af samsærismönnunum.
Rúmri viku eftir tilraun Stieff fór ungur liðsforingi með skammbyssu á ráðstefnu hjá Hitler í Berchtesgaden, en hann var svo lágrar tignar að hann gat ekki komist nógu nærri Foringjanum til að geta beitt byssunni. Þegar svo fimmti liðsforinginn ætlaði enn að reyna að drepa Hitler með því að bera sprengju á sér, er Hitler voru sýndir nýir einkennisbúningar í Zossen utan við Berlín, varð það tilræði einnig að engu þegar sýningunni var frestað vegna breskrar loftárásar.
Þegar kom fram á árið 1944 varð mótspyrnuhreyfingunni ljóst að nú yrði að koma Hitler úr umferð og var ákveðið að tilræði og bylting skyldu gerð í október það ár. Vegna tilkomu hinna nýju vígstöðva í Normandy, mikils undanhalds Þjóðverja á öllum vígstöðvum og vaxandi loftárása Bandamanna á þýskar borgir, var dagsetningunni síðar flýtt og ákveðið að hún skyldi framkvæmd í júlí. Í það sinn bauðst von Stauffenberg til að framkvæma tilræðið.
Enn reynt að koma Hitler frá
Rétta stundin virtist komin 11. júlí 1944 þegar von Stauffenberg var boðaður til höfuðstöðva Hitlers í Obersalzberg til að gefa Foringjanum skýrslu um heimaherinn. Samsærismenn gerðu einnig ráð fyrir að fundinn sætu þeir Hermann Göring flugmarskálkur og Heinrich Himmler ríkisforingi SS og þar sem þeir höfðu ætíð talið að nauðsynlegt væri að uppræta þá jafnframt Foringjanum virtist þetta vera einmitt rétta tækifærið. Þegar von Stauffenberg hins vegar kom til fundarins, með sprengju í skjalatösku sinni, varð hann þess var að Himmler sat ekki fundinn. Hann notaði því fundarhlé til að hafa samband við Olbricht hershöfðingja í Berlín og urðu þeir sammála um að fresta tilræðinu.
Enn virtist stundin runnin upp þann 14. júlí þegar von Stauffenberg var aftur boðaður til að gefa Hitler skýrslu, í þetta sinn í nýjum aðalstöðvum Foringjans í Wolfsschanze (Úlfagreninu) við Rastenburg í Austur-Prússlandi. Hann fór aftur með sprengju í töskunni á fundinn. Í þetta sinn voru samsærismenn svo ákafir í að hrinda aðgerðununum í framkvæmd (svokallaðri Operation Valkyrie) að Olbricht hershöfðingi hafði gefið skipanir um að hersveitir þær sem voru stjórn samsærismanna skyldu halda úr herbúðum sínum tveimur stundum áður en fundurinn með Hitler skyldi hefjast. Von Stauffenberg hringdi til Olbrichts og tilkynnti honum á dulmáli að Hitler væri á fundinum, en þegar hann kom úr símanum var Hitler farinn úr herberginu. Von Stauffenberg hraðaði sér í símann og tilkynnti Olbricht þetta sem með mestu erfiðismunum tókst að stöðva þær aðgerðir sem þegar voru hafnar.
Tíminn að verða naumur
Innan samsærishópsins gætti töluverðrar taugaspennu og kvíða vegna þess að þetta tilræði hafði einnig runnið út í sandinn. Sömuleiðis voru menn áhyggjufullir um að herflutningar þeir, sem hafnir höfðu verið vegna tilræðisins, hefðu vakið grunsemdir Gestapo. Vildu sumir samsærismanna, þ.á.m. Gördeler, sem alltaf hafði verið hlynntur byltingu en vildi ekki láta myrða Hitler, að hætt yrði við samsærið en þess í stað látið þá marskálka og hershöfðingja á vesturvígstöðvunum sem voru í sambandi við samsærismenn, s.s. von Kluge, Rommel, von Falkenhausen og von Stülpnagel, reyna að semja frið.
Að kvöldi 16. júlí kom lítill hópur vina saman á heimili Claus von Stauffenberg og Bertholds bróður hans. Viðstaddir voru m.a. von Hofacker undirofursti, náfrændi bræðranna, Fritz von der Schulenburg og Adam von Trott zu Solz. Margt var rætt á þessum fundi. Menn óttuðust að hugsanlega væri að verða of seint að grípa í taumana. E.t.v. yrði ekki komist hjá skilyrðislausri uppgjöf. Menn voru þó sammála um að það myndi hafa úrslitaþýðingu ef það væru Þjóðverjar sem losuðu Þýskaland við Hitler en ekki óvinahersveitir. Það var því bráðnauðsynlegt að hraða öllum áformum sem allra mest. Sérstaklega þar sem menn voru farnir að finnast þrengt að sér. Hinir dularfullu herflutningar 14. júlí höfðu ekki farið framhjá mönnum. Einnig höfðu nokkrir þeirra foringja sem voru í samsærinu verið reknir eða fluttir milli starfa, t.a.m. von Falkenhorst hershöfðingi sem settur hafði verið af sem setuliðsforingi í Belgíu.
Daginn eftir þennan fund, þann 17. júlí, særðist Rommel marskálkur lífshættulega í Frakklandi af völdum árásar óvinaorrustuflugvélar. Þar með var gerður óstarfhæfur maðurinn sem átti að vera hin siðferðislega trygging byltingarinnar og eini maðurinn sem hefði getað orðið foringi hennar og veitt henni þann styrk föðurlandsástar sem hana skorti svo sorglega þegar upp var staðið.
Að duga eða drepast
Enn kom tækifæri til að ráða Hitler af dögum þegar von Stauffenberg var boðaður í Úlfagrenið, þann 20. júlí, til að gefa Foringjanum skýrslu um hinar nýju þjóðarhersveitir sem senda átti á austurvígstöðvarnar. Von Stauffenberg lagði af stað snemma um morguninn til þessa örlagaríka fundar. Með honum var aðstoðarforingi hans, Werner von Hälften liðsforingi. Þeir héldu til Rangdorf-flugvallar í útjaðri Berlínar þar sem einkaflugvél aðalbirgðastjóra hersins, Eduards Wagners beið, en hann var einnig í samsærinu.
Kvöldið áður hafði Stieff hershöfðingi afhent von Stauffenberg tímasprengju þá sem vega átti Hitler. Sprengjan hafði verið útveguð af einum samsærismönnunum, Freytag von Loringhoven hershöfðingja, yfirmanni skemmdaverkadeildar hersins. Sprengjuna geymdi von Stauffenberg í skjalatösku sinni sem fyrr.
Skömmu eftir flugtak gaf von Stauffenberg flugmanninum skipun um að vera tilbúinn til heimferðarinnar frá Rastenburg á hádegi. Úlfagreni Foringjans var í eyðilegu, afskekktu héraði Austur-Prússlands, umlukt háum dimmum trjám. Öryggisgæsla var ströng og þurftu von Stauffenberg og von Hälften þrisvar að framvísa sérstökum vegabréfum sínum áður en þeim var hleypt í gegn á foringjabifreið þeirri sem sótt hafði þá á flugvöllinn.
Eftir að inn fyrir var komið hitti von Stauffenberg þá Wilhelm Keitel hershöfðingja, formann þýska herforingjaráðsins, og Erich Fellgiebel hershöfðingja, sem var einn af aðalmönnum samsærisins. Strax og tilræðið hafði verið gert var það verk þess síðarnefnda að hraðsíma tilkynningu um það til samsærismannanna í Berlín og slíta síðan öll sambönd Úlfagrenisins við umheiminn. Keitel tilkynnti von Stauffenberg að fundurinn yrði ekki í steinsteyptu neðanjarðarbyrgi aðalstöðvanna heldur í timburskála ofanjarðar. Von Stauffenberg brá við þetta enda vissi hann að þetta gat þýtt að áhrifin af sprengingunni yrðu e.t.v. ekki þau sömu og í steinsteyptu neðanjarðarbyrginu þar sem sprengikrafturinn myndi endurkastast til baka.
Stuttu eftir að von Stauffenberg lagði af stað til fundarins kveikti hann á sprengjunni í skjalatösku sinni. Þegar hann kom síðan í anddyri timburskálans, þar sem fundurinn átti að fara fram, bað hann liðþjálfa við skiptiborð skálans að láta sig strax vita ef haft yrði samband við hann frá Berlín.
Von Stauffenberg sat við ráðstefnuborðið aðeins örfáum skrefum frá Hitler. Hann kom skjalatöskunni fyrir á gólfinu þeim megin við borðfótinn sem sneri að Hitler. Stuttu síðar fékk hann tilkynningu um skilaboð frá Berlín. Hann hvarf því af fundinum. Þegar sprengingin varð hraðaði von Stauffenberg sér í bíl sinn þar sem von Hälften beið hans og óku þeir rakleiðis til flugvallarins þar sem flugvél þeirra beið til að flytja þá til Berlínar. Þeir sluppu í gegn um öryggishlið höfuðstöðvanna með því að beita blekkingum og á flugvellinum höfðu menn ekki verið aðvaraðir.
Þegar von Stauffenberg kom til Berlínar tilkynnti hann félögum sínum að Hitler væri dauður. Staðreyndin var þó sú að Hitler lifði tilræðið af með skaddaðar hljóðhimnur, rifinn einkennisbúning og laskaðan handlegg. Enn er ráðgáta hvernig hann lifði af enda voru dauðir menn allt í kring um hann. Helst komast menn að þeirri niðurstöðu að annað hvort hafi hann fært sig nógu tímanlega frá sprengjunni eða að einhver af ráðstefnugestum hafi fært skjalatösku von Stauffenbergs bak við þykkan eikarfót ráðstefnuborðsins. Einnig má telja líklegt að bæði atriðin eigi við rök að styðjast. Ennfremur spilaði margt annað inni í svo sem sú ákvörðun að halda fundinn í bjálkakofanum í stað neðanjarðarbyrgisins sem áður hefur verið nefnt.
Í Berlín höfðu menn ekkert aðhafst þrátt fyrir tilkynningar Fellgiebels um að tilræðið hefði verið framkvæmt, sennilega vegna þess sem gerst hafði þegar tilræði var reynt þann 15. júlí þegar aðgerðir höfðu verið hafnar áður en ljóst var hvort tilræðið hefði verið framkvæmt og að það hefði heppnast. Menn voru því rólegir í Berlín. Stuttu eftir tilræðið fékk Olbricht síðan skilaboð frá Fellgiebel um að Hitler væri sennilega ekki dauður heldur aðeins sár. Afréð þá Olbricht að aðhafast ekkert.
Þegar von Stauffenberg kom til Berlínar, og sá að ekkert hafði verið gert, var hann ævareiður og fyrirskipaði að áætlanir yrðu framkvæmdar eins og ráð hefði verið fyrir gert. Sendar voru út skipanir um að hertaka mikilvægar byggingar í borginni og handtaka starfsmenn SS og Gestapo. Sama var gert í París og voru 1.200 starfsmenn SS og leyniþjónustu SS, Sicherheits Dienst (SD), handteknir þar í borg samkvæmt skipun von Stülpnagels hershöfðingja.
Samsærismenn hefðu átt að hafa öll spil á hendi ef eðlilega hefði verið staðið að málum þar sem ringulreiðin var alger í höfuðstöðvum Hitlers í Rastenburg eftur tilræðið og fyrstu klukkustundirnar eftir tilræðið vissu menn í Berlín, sem hliðhollir voru nasistum, ekkert hvað gerst hafði. Samsærið rann þó út í sandinn er mönnum varð ljóst að Hitler hefði ekki látið lífið í samsærinu.
Eftirleikurinn
Þúsundir manna voru teknar af lífi í kjölfar tilræðisins og enn fleiri handteknir og yfirheyrðir með tilheyrandi hótunum og hryllilegum pyntingum. Hitler heimtaði miskunnarlausar hefndir gegn öllum þeim sem á einhvern hátt tengdust tilræðinu eða tilræðismönnunum, þ.á.m. konum og börnum. Nasistastjórnin fyrirskipaði öldu handtaka með tilheyrandi pyntingum, sýndarréttarhöldum, og fjölda aftaka. Mikill fjöldi ættingja samsærismannanna var handtekinn á grundvelli þess að vera viðriðinn samsærið og sendur í einangrunarbúðir.
Von Stauffenberg var skotinn “í samræmi við herlög” án dóms og laga í bakgarði Bendlerstrasse-höfuðstöðvanna í Berlín, ásamt þremur öðrum lykilmönnum, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að sprengjan sprakk. Sá sem fyrirskipaði aftökuna var Fritz Fromm hershöfðingi sem reyndi þannig að leyna eigin aðild að samsærinu. Hann var þó að lokum einnig hengdur fyrir aðild sína.
Wilhelm Burgsdorf hershöfðingi, einn af gæðingum Hitlers, var sendur á fund Rommels í því skyni að bjóða honum tvo kosti; að fremja sjálfsmorð og að það yrði opinberlega sagt að hann hefði látist af sárum sínum vegna loftárásarinnar sem hann varð fyrir í Frakklandi, eða opinber réttarhöld, smánun og hefndarráðstafanir gegn fjölskyldu hans. Hann tók fyrri kostinn.
Günther von Kluge marskálkur svipti sig lífi þegar ljóst var að tilræðið hafði farið út um þúfur. Sama reyndi Karl Heinrich von Stülpnagel hershöfðingi í skógi í Verdun í Frakklandi en tókst ekki. Var hann að lokum kyrktur af Gestapo. Fellgiebel og von Witzleben voru teknir af lífi samkvæmt skipun nasistastjórnarinnar. Sannanir gegn Canaris flotaforingja reyndust ófullnægjandi og var honum því varpað í fangelsi. Hann var síðan tekinn af lífi í Flossenburg fangabúðunum 9. Apríl 1945 , kyrktur hægt með grannri vírlykkju.
Foringjar sem þátt höfðu tekið í tilræðinu voru sviptir tignum sínum og þeim útskúfað úr hernum svo hægt væri að dæma þá af Þjóðardómstólnum í stað herréttar. Þjóðardómstóllinn gengdi sínu stærsta hlutverki í tengslum við samsærið, menn voru kallaðir fyrir réttinn, ekki leyft að svara fyrir sig, þeir smánaðir og svívirtir. Því lauk þó með loftárás á Berlín sem m.a. lenti á byggingu Þjóðardómstólsins. Fabian von Schlabrendorf var þá fyrir réttinum. Vegna loftárásarinnar voru hinir ákærðu fluttir niður í kjallara byggingarinnar. Aðalákærandi nasista, Roland Freisler, lést í loftárásinni og sömuleiðis eyðilögðust í henni fjölmörg gögn gegn samsærismönnunum.
Vitað er annars að Heinrich Himmler, ríkisforingi SS og æðsti yfirmaður Gestapo, vissi sitthvað um tilræðið og þá einkum Walther Schellenberg, undirmaður Himmlers og yfirmaður leyniþjónustu SS, Sicherheit Dienst (SD). Himmler var þó tvístígandi um það hvernig hann ætti að beita sér gagnvart samsærismönnum og var m.a. með ýmsar hugmyndir um það hvernig hann gæti sjálfur grætt á því. Eftir samsærið var Himmler alltaf í ákveðinni ónáð hjá Hitler og naut aldrei upp frá því sama trausts og áður.
Lokaorð
Máltækið segir að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Það hefur svo sannarlega átt við um fyrri tilræði samsærismanna við Hitler þar sem allajafna lítil atriði urðu þess valdandi að tilræðin mistókust. Í tilfelli tilræðisins 20. júlí 1944 er annað uppi á teningnum. Þar má með góðri samvisku segja að röð óheppilegra atburða hafi valdið því að tilræðið og eftirleikur þess mistókst fyrir samsærismenn. Hitler og nasistar hans trúðu því að forsjónin verndaði Foringjann. Á slíka skýringu er vissulega ekki hægt að fallast frá fræðilegu sjónarmiði. Þar verður matið að stjórnast af staðreyndum og rökum.
Svo vikið sé að rannsóknarspuringu ritgerðarinnar, hvað varð þess valdandi að samsærið gegn Hitler mistókst, er ljóst að þar koma ýmsir þættir til sögunnar. Nokkuð hefur verið farið í ákveðin atriði hér á undan sem talin eru að hafi skipt sköpum varðandi það að tilræðið sjálft mistókst. Þar kemur helst til álita sú ákvörðun að halda fundinn í bjálkahúsinu í stað neðanjarðarbyrgisins og að skjalataska von Stauffenbergs hefur að öllum líkindum verið færð til.
Hvað byltinguna varðar er nokkuð ljóst að aðalástæðan fyrir því að hún fór algerlega út um þúfur var sú staðreynd að tilræðið mistókst. Það að hægt var að færa sönnur á að Hitler væri enn á lífi varð greinilega til þess að draga allan kraft úr fjölmörgum þeim sem hafist höfðu handa við Operation Valkyrie, fullvissir um að Hitler væri dauður. Jafnvel þó aðgerðaleysi það, sem einkenndi allt of marga samsærismenn eftir tilræðið, hefði átt sér stað verður að segja að hugsanlegt sé að byltingin hefði heppnast ef Hitler hefði farist.
Menn hafa lengi velt fyrir sér spurningunni vinsælu “hvað ef”. Menn geta leitt að líkum hvernig hefði getað farið ef samsærið hefði heppnast en spurningunni verður þó sennilega aldrei svarað. Ef Hitler hefði látist í tilræðinu hefði að öllum líkindum hafist einhver átök víða á yfirráðasvæði Þjóðverja á milli hersins og SS. Sennilegast verður að telja að þessi átök hefðu ekki staðið lengi og SS orðið að gefa fljótlega eftir vegna talsvert minni mannafla, auk þess að vera óundirbúið slíkum átökum. Forskriftina höfum við t.d. frá París þar sem allur mannafli SS og Gestapo var fljótlega tekinn úr umferð án mikilla árekstra.
Aðstaða Þjóðverja var orðin mjög slæm á þessum tíma á öllum vígstöðvum. Það er erfitt að segja til um hvernig bandamenn hefðu tekið á því ef bylting hefði verið gerð í Þýskalandi og stjórn, andsnúin nasistastjórninni, hefði tekið völdin og farið fram á friðarsamninga. Bandamenn hefðu í það minnsta orðið að taka þann möguleika mjög alvarlega. Bandamenn höfðu samþykkt sín á milli að ekkert ríki innan þeirra mætti semja sérfrið við Þýskaland og að þeir yrði að samþykkja slíkt í heild.
Vel má vera að Vesturveldin hefðu verið líkleg til að taka vel í slíka friðarsamninga við Þjóðverja. Fyrir því liggja ýmis þung rök. Í fyrsta lagi höfðu margir af samsærismönnum staðið í sambandi við ýmsa ráðamenn Bandamanna frá því fyrir stríð. Í annan stað hefði með þessu verið hægt að stytta styrjöldina um marga mánuði og hindra mikið mannfall, enda héldu Þjóðverjar enn mjög miklu landsvæði; Noregi, Danmörku, stórum hluta Niðurlanda, mest öllu Frakklandi, Norður-Ítalíu og stórum hlutum Austur-Evrópu. Í þriðja lagi var styrjöldinni við Japani enn ólokið. Í fjórða lagi voru Bandamenn svo að segja nýbúnir að gera innrás í Normandy, einum og hálfum mánuði áður. Þetta hefði óneitanlega gert vægi innrásarinnar enn meira, a.m.k. í augum Vesturlanda. Í fimmta lagi voru fjöldi öflugra hægri klíka og auðhringa á Vesturlöndum, sérstaklega í Bretlandi, sem voru miklum mun áhugasamari um að heyja stríð við Sovétríkin en nokkurn tímann Þýskaland.
Hins vegar er ekki gott að segja hvernig Sovétmenn hefðu tekið slíku tilboði. E.t.v. hefðu þeir verið tilbúnir að hefja samninga, hugsanlega m.a. vegna þrýstings frá bandamönnum sínum. Þannig er vel hugsanlegt að ef tilræðið hefði heppnast hefði Þýskalandi verið forðað frá mörgu, eyðileggingu borga og dauða tugþúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda manna.
Sömuleiðis má ætla að saga eftirstríðsáranna hefði orðið í mörgu öðruvísi en hún varð. Vel má vera að Þýskaland hefði ekki verið hernumið þó líklegast sé að einhvers konar eftirlit hefði verið haft með því af hálfu sigurvegaranna. Kalda stríðið hefði þó sennilega átt sér stað, m.a. vegna spennunnar á milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna sem hafði skapast strax við byltinguna í Rússlandi 1917.
Ætla má að Sovétríkin hefðu líka haft, a.m.k. að einhverju leyti, þau áhrif sem þau höfðu í Austur-Evrópu eftirstríðsáranna. Stór hluti Austur-Þýskalands hefði hugsanlega ekki verið innlimaður í Pólland, og mikilvægir forystumenn, sem hefðu getað verið í forsvari fyrir Þýskaland eftirstríðsáranna, hefðu ekki látið lífið í eftirleik tilræðisins.
Hjörtur J.
Heimildaskrá
Albert Speer: Inside the Third Reich. Memoirs by Albert Speer. London. 1971.
Cornelius Ryan: Lengstur dagur. Reykjavík. 1959.
Cornelius Ryan: The Last Battle. New York. 1966.
Eigil Steinmetz: Tilræði og pólitísk morð. Reykjavík. 1969.
Fabian von Schlabrendorf: The Secret War Against Hitler. London. 1966.
Gerhard L. Weinberg: Germany, Hitler and World War II. Essays in Modern German
and World History. New York. 1996.
H.R. Trevor-Roper: Síðustu dagar Hitlers. Reykjavík. 1972.
Ingo Müller: Hitler's Justice. Cambridge. 1991.
Johannes Steinhoff o.fl.: Voices From the Third Reich. An Oral History. London. 1991.
John Weitz: Hitler's Diplomat. Joachim von Ribbentrop. London. 1992.
Klemens von Klemperer: German Resistance Against Hitler. The Search for Allies
Abroad, 1938-1945. Oxford. 1993.
Larry Collins og Dominique Lapierre: Brennur París? Reykjavík. 1967.
Martyn Housden: Resistance and Comformity in the Third Reich. London. 1997.
Michael Geyer og John W. Boyer (ritstj.): Resistance Against the Third Reich. 1933-
1990. Chicago. 1994.
William B. Breuer: Hoodwinking Hitler. The Normandy Deception. Westport, CT. 1993.
Með kveðju,