Fyrir einhverju síðan tók ritstjórn Fréttablaðsins upp á því að hafa smá söguhorn í blaðinu þar sem sagt er frá allajafna þremur sögulegum atburðum sem gerðust þann dag sem viðkomandi eintak blaðsins kemur út. Er það auðvitað vel að slíkt sé gert en þetta framtak á sér þó ákveðnar neikvæðar hliðar líka.
Það virðist nefnilega ekki ekki hafa verið lögð allt of mikla vinnu í þessar frásagnir hingað til og hafa söguglöggir menn, sem fylgst hafa með þessu, eflaust séð ýmsar einkennilegar söguumfjallanir í umræddu söguhorni. Ein slík fannst mér persónulega þó vera svo mikil snilld að ég tók mig til og klippti hana út. Hún birtist í blaðinu þann 11. mars sl. og hljóðar svo:
“Litháar lýstu yfir sjálfstæði sínu 11. mars 1990 eftir að hafa þurft að þola yfirráð Sovétríkjanna síðan 1795. Sovétmenn svöruðu yfirlýsingunni með því að senda inn herlið í janúar 1991. Átta mánuðum síðar, 6. september árið 1991, viðurkenndu Sovétmenn loksins sjálfstæði Litháena.”
Já, það er ekkert annað. Ég sem stóð endilega í þeirri meiningu að Sovétríkin hefðu fyrst orðið til við byltingu bolsévika árið 1917 en þarna er annað uppi á teningnum enda fullyrt að Sovétríkin hafi a.m.k. verið til síðan 1795.
Auðvitað er þarna verið að skella saman í eitt Sovétríkjunum og rússneska keisaradæminu, en að auki gleymir sá aðili, sem þessa sögufrásögn reit, því að Litháen endurheimti sjálfstæði sitt eftir fyrri heimstyrjöld skv. Versala-samningunum en tapaði því aftur þegar Sovétmenn innlimuðu landið í kjölfar Molotov-Ribbentrop-samningsins milli Sovétríkjanna og Þýskalands 1940.
Það er þó vonandi að hér sé aðeins um að ræða einhverja byrjunarerfiðleika og að úr þessu fari að rætast enda sem fyrr segir hið ágætasta framtak út af fyrir sig. Það er þó eðlilega lítið varið í sögulegar umfjallanir sem ekki eru réttar.
Kv.
Hjörtur J.
Með kveðju,