Þeir urðu mjög góðir vinir á unglingsárum, en svo lét Hitler sig snögglega hverfa úr hans lífi þegar honum fór að ganga allt í óhag. Kubizek reyndi að hafa uppá honum, án árangurs; Adolf vinur hans hafði horfið eitthvert inn í mannhafið í Vínarborg.
Kubizek hugsaði ekki meira um þennan æskuvin sinn fyrr en nokkrum viðburðaríkum árum seinna, að Fyrri heimsstyrjöld afstaðinni. Þá las hann frétt í dagblaði um óeirðir í München: “…foringi óeirðaseggjanna, Adolf Hitler…” Hann varð hissa, en afgreiddi þetta sem einhverja hálf-skondna tilviljun, enda þótti honum Adolf vinur sinn vera harla ólíklegur foringi óeirðaseggja í Þýskalandi. Þetta hlaut bara að vera einhver nafni hans.
En nokkru seinna kom svo önnur frétt um þennan Adolf Hitler, nú með mynd. Kubizek var sem þrumu lostinn. “Þetta ER HANN!!” Hann fylgdist síðan með honum í fréttum, en reyndi þó ekki að hafa samband við hann fyrr en 1933, þegar skrifaði bréf til hans, án þess að búast við svari. En svar fékk hann, gaman að heyra frá þér aftur, kæri gamli vinur.
Þeir hittust þó ekki aftur fyrr en við innlimum Austurríkis í Þýskaland árið 1938. Kubizek mun í framhaldinu hafa þegið ýmsa greiða hjá Adolf æskuvini sínum, enda líklega erfitt að neita.
Eftir stríðið var Kubizek handtekinn af Bandaríkjamönnum, sem “grilluðu” hann um tengsl hans við Adolf Hitler. Hann var m.a. spurður “Svo þú varst vinur hans? - Hann treysti þér? - Þú varst oft einn með honum, þið sváfuð í sama herbergi? …Afhverju drapstu hann ekki?” (Hann hefði þá líklega átt að útskýra fyrir löggunni og geðlæknum að hann hefði “bara verið að gera mannkyninu greiða, eða hvað?!”)
Kubizek var á endanum sleppt, enda hafði hann ekkert gert af sér. En átti þó eftir að græða á æskuvináttu sinni við Adolf Hitler. Hann gaf árið 1953 út bókina “Adolf Hitler, mein Jugendfreund (Adolf Hitler, Æskuvinur minn)” sem fékk að sjálfsögðu mikla umræðu og góða sölu þegar hún kom út. Sagnfræðingar hafa vefengt margt í þeirri bók, en hún er samt ennþá ein helsta heimildin um margt varðandi unglingsár Hitlers. August Kubizek lést árið 1956, 68 ára að aldri.
_______________________