Austrómverska ríkið og fall Rómar Í stuttu máli: Hvers vegna hélt Austrómverska ríkið velli þegar hið Vestrómverska féll?

Á myndinni má sjá kort af Rómarveldi, Vestrómverska ríkið hið bláa og hið Austrómverska það rauða, um það leiti er hinn nafntogaði atburður átti sér stað er Róm féll í hendur barbara árið 476 e.kr.

Þegar skipting Rómarveldis varð varanleg undir lok 4. aldar hafði tveim hlutum keisaradæmisins verið stjórnað um nokkurt skeið hvorum í sínu lagi. Á 4. öld var því svo farið að athygli keisaradæmisins var beint að austurhéruðunum þaðan sem Persar ógnuðu landamærunum. Eftir að Konstantínópel, höfuðstaður austurhlutans, var reist um árið 330 færðist þungamiðja Rómarveldis þangað. Austurhlutinn var auk þess í töluverðum uppgangi á þessum tíma; þar var þéttari byggð en í vestrinu sem hélst í hendur við efnahagslegan uppgang en hann var einkum mikill í Egyptalandi. Einnig voru þar virtar menntastofnanir auk þess sem kristnin, sem var orðin að ríkistrú í keisaradæminu öllu, hafði þar fastari rætur.

Í upphafi 5. aldar lenti önnur bylgja þjóðflutninganna miklu á Rómarveldi þar sem gríðarlegur fjöldi germanskra þjóða færði sig inn á rómversk svæði á flótta undan Húnum sem komu til Evrópu frá Mið-Asíu. Barbaraflokkar réðust inn fyrir landamæri Rómarveldis og lögðu Vestrómverska ríkið undir sig á 5. öld. Þar sem stór hluti Austrómverska ríkisins var utan Evrópu sluppu Austrómverjar við mesta skellinn af þjóðflutningunum sem harðast lenti á Vestrómverska ríkinu í Mið-Evrópu. Landamærin sem vestrómversku keisararnir þurftu að verja voru meira en tvisvar sinnum lengri en þau sem keisararnir í austri réðu yfir. Vegna friðarpólitíkur Þeódósíusar II keisara í austri í samskiptinum við Persa (sem voru hvort eð er veikir um þessar mundir) gat hann beint athygli hersins gegn innrásunum í Evrópu auk þess sem hann gat með ríkulegum peningagreiðslum haldið Húnum meira og minna í skefjum. Þetta var mögulegt vegna efnahagslegrar velsældar Austrómverska ríkisins. Þökk sé henni náðu Austrómverjar að halda uppi hernum og borga málaliðum á meðan slíkt reyndist nær ómögulegt í vestrinu þegar leið á 5. öldina. Vestrómverski herinn varð þ.a.l. meira og minna mannaður germönskum hermönnum og var honum í auknu mæli stjórnað af valdamiklum germönskum foringjum. Frá og með útdauða ættar Þeódósíusar I árið 455 voru keisarar Vestrómverska ríkisins valdir af þessum herforingjum og voru þeir hið raunverulega vald keisaranna að baki. Austrómverska ríkið stóð hins vegar betur að veði gagnvart slíkum herforingjum sem aldrei náðu að komast til neinna valda nema í einu undantekningartilfelli. Stjórnsýslulegur stöðugleiki og miðstýring Vestrómverska ríkisins veiklaðist verulega vegna innrásanna á meðan hún viðhélst öflug í austrinu. Á meðan bakland vestursins í Norður-Afríku féll og aðflutningar þaðan stöðvuðust streymdi hráefni og stöðugar skattekjur til Konstantínópel frá miðausturlöndum og Egyptalandi, ósnertum af innrásum.

Í raun hafði fall Vestrómverska ríkisins ekki miklar afleiðingar fyrir pólítíska umgjörð þess Austrómverska. Austrómverski keisarinn Zenó sem var við völd þegar síðasti vestrómverski leppkeisarinn féll frá árið 476 var enn Rómarkeisari og veldi hans enn Rómarveldi. Germönsku konungarnir sem tóku við vestrinu kröfðust ekki keisaratignar og viðurkenndu kröfu Zenós og arftaka hans upp að vissu marki. Ódóvakar, barbarakóngurinn sem hafði öll völd á Ítalíu eftir 476, bað Zenó um að veita sér formlega stjórn landsins sem hann og fékk. Þegar keisarinn svo sendi Þeódóríkus, leiðtoga Ostrógota, til Ítalíu gegn Ódóvakar gerðist sá einnig konungur Ítalíu í nafni keisarans. Þetta náði jafnvel svo langt að íbúar Gallíu viðurkenndu ekki Klóvis Frankakonung sem réttmætan leiðtoga fyrr en Anastasíus I hafði veitt honum valdið formlega. Á 5. öld og í byrjun þeirrar 6. hafði keisarinn í Konstantínópel því hugmyndafræðilegt vald yfir löndunum í vestri og gengdi hann sama hlutverki og vestrómverski keisarinn hafið gert um langa hríð; að veita vald til barbarakonunganna þó ekki væri nema upp á heiðurssakir.

Efnahagslegar afleiðingar hruns Vestrómverska ríkisins fyrir það austrómverska hljóta að hafa verið helst á sviði vöruskipta og verslunar. Framboð á ódýrum vörum frá vestrinu mun eitthvað hafa minnkað en Austrómverska ríkið var sjálfbært um framleiðslu landbúnaðarvara og verslun með slíkar vörur gaf því litla sem enga innkomu til ríkisins. Auk þess hefur verið sýnt fram á það að ekki hafi verið stunduð stórtæk verslun með hversdagsvörur á milli svæða innan síðrómverska ríkisins. Framleiðsla fatnaðar var t.d. iðnaður sem var staðbundin við hvert hérað. Hins vegar var alltaf markaður fyrir- og verslun stunduð með lúxusvarning frá einu horni keisaradæmisins til annars. Miðjarðarhafseiningin rofnaði ekki fyrr en á 7. öld þegar múslímar lögðu Norður-Afríku undir sig og ekkert bendir til þess að verslun með slíkan varning á milli austur- og vesturhluta Miðjarðarhafsins hafi raskast fram að því.

Heimildir
Gregory, Timothy E. A History of Byzantium. 2. útg. [2010].
Vasiliev, A. A. History of the Byzantine Empire: 324-1453. I. bindi. [1952].
Baynes, Norman H. og Moss, H. St. L. B. [Ritstj.] Byzantium: An introduction to East Roman Civilization [1948].
Jones, A. H. M. The Later Roman Empire 284-602: A Social Economic and Administrative Survey. II. bindi. [1964].
Es rasseln die Ketten, es dröhnt der Motor,