Hálfri öld síðar eða svo voru múslímar aftur farnir að þrengja að kristnum í Sýrlandi. Þá var farin önnur krossferð en hún varð sneypuför, krossfararnir biðu mikinn ósigur fyrir herjum múslíma.
Múslímar sóttu í sig veðrið undir lok 12. aldar, Saladín soldán lagði undir sig Jerúsalem árið 1187. Evrópubúar vildu ekki við slíkt búa og þrír voldugustu konungar í álfunni tóku krossinn, Friðrik barbarossa Þýskalandskeisari, Filipus Ágústus Frakklandskonungur og Ríkharður ljónshjarta Englandskonungur. Friðrik skoraði árið 1188 á Saladín að yfirgefa Jerúsalem, afhenda kross Krists, sem talinn var varðveittur í borginni, og bæta mönnum þjáningar, sem þeir höfðu orðið fyrir. Saladín hafnaði þessu en hét því að láta krossinn af hendi, afhenda kristnum mönnum nokkur svæði sem hann hafði hertekið og leyfa kristnum mönnum að vitja hinnar heilögu grafar. Þetta töldu hinir kristnu ekki nægilegt. Konungarnir þrír hófu krossferð en hún gekk ekki að óskum. Friðrik drukknaði þegar hann fékk sér bað í einu fljóti í Litlu-Asíu og þeir Filipus og Ríkharður gátu ekki unnið þegar til kastanna kom. Ríkharður hélt hernaðaraðgerðum sínum áfram. Hann fékk að lokum fyrirheit um að kristnir menn skyldu hafa yfirráð yfir meginhluta Palestínustrandarinnar næstu 3 árin og að kristnir pílagrímar mættu heimsækja hina helgu gröf ef þeir væru í smáhópum og vopnlausir.
Fleiri krossferðir voru farnar eða sjö alls eftir því sem yfirleitt er talið. Fjórða krossferðin varð einna áhrifaríkust. Hún var farin á árunum 1202-1204 og beindist gegn Miklagarði sem var kristin borg en höfuðstaður grísk-kaþólskra. Krossfararnir tóku borgina og unnu þar gríðarleg hermdarverk, rændu kirkjur, hallir og verslanir, jafnvel grafir. Grísk-kaþólska kirkjan og sú rómversk-kaþólska höfðu skilið að skiptum árið 1054.
Barnakrossferðin er líklegast sú þekktasta af öllum krossferðunum. Hún var farin árið 1228. Flest voru þetta þýsk börn og munu þáttakendur hafa verið allt að 30-40000. Hluti þeirra komst til Ítalíu en ekki tókst betur til en svo að eigendur skipanna seldu börnin í þrældóm til Egyptalands. Þessir menn náðust í krossferð árið 1228 og var þeim refsað grimmilega.
“There is no need for torture, hell is other people.”