Prologus
50 milljónir hefur hingað til þótt líkleg tala, þegar rætt er um mannfall í seinni heimsstyrjöldinni, og er það ábyggilega nærri lagi. Það er fullkomlega ómögulegt fyrir menn einsog okkur, sem lifum í þjóðfélagi er rétt skríður yfir fjórðung úr milljón í fjölda, að ímynda sér svo mikið af dánu fólki. Það gæti gefið okkur vísbendingu um, hve gríðarstór atburður styrjöldin var, stríð sögunnar komast ekki í hálfkvisti við þennan mikla hildarleik, þar sem fólki var slátrað skiplega af yfirlögðu ráði.
Hér á eftir mun gerð grein fyrir helstu atburðum stríðsins, en staldrað verður við á einum af þeim mikilvægustu, nefninlega innrásinni í Rússland árið 1941. Þar munum við reyna að kryfja hlutina til mergjar, en annarsstaðar verður stiklað á stóru. Umfjöllun, um það sem átti sér stað fyrir og eftir innrásina, er einna helst hugsuð sem aðstoð við að staðsetja sig í tíma og atburðarás, þegar ritgerðin er lesin yfir.
Aðdragandi styrjaldarinnar
Það sem fyrst ber að nefna sem orsök seinni heimsstyrjaldarinnar, er án efa Versalasamningurinn og sú andstaða sem Þjóðverjar höfðu gegn honum, nánast frá byrjun. Það er svolítil einföldun, en segja má að sigurvegarar fyrri heimsstyrjaldarinnar hafi sest við sama borð í París árið 1919 og búið til frið, sem var í raun bara á yfirborðinu, undir ólgaði heiftin hjá hinum sem biðu lægri hlut; þá aðalega Þjóðverjum (DLS 1985:48).
Nú skapaðist gott pláss í Þýskalandi til að næra hungraðan hefndarhug þjóðarinnar, það rúm troðfylltist af nastistum með Adolf Hitler í broddi fylkingar. En sú þróun tók að sjálfsögðu nokkurn tíma, og á meðan átti sér stað nánast kerfisbundin vinna við að afstýra öðru eins uppþoti og fyrra stríðið hafði verið. Þegar allt kom til alls reyndist sú vinna meira í orði en á borði og fór kannski öll í súginn. En það sem ætti helst að nefna úr þessu forvarnarstarfi væri Locarnósasamningurinn árið 1925 og Briand-Kelloggsáttmálinn árið 1928 (SA 1994:168).
Strax árið 1933 komst Nasistaflokkurinn til valda í Þýskalandi, áróður þeirra var ekki það eina sem kom því í gegn. Vegna þess að í kjölfar rússnesku byltingarinnar gerði almennur ótti við byltingar kommúnista vart við sig, og gaf það öfgasinnuðum þjóðernissinnum byr undir báða vængi. Árið 1936 mynduðu Ítalir og Þjóðverjar svokallað Öxulríkjasamband með Japönum. Um svipað leyti yfirgáfu þessi ríki Þjóðabandalagið sem stofnað var á téðri friðarrástefnu í París. Nú fór Hitler heldur betur að sækja í sig veðrið; innlimar Austurríki og Súdetahéruðin árið 1938; Bæheim og Mæri árið 1939 og gerði Slóvakíu að Þýsku leppríki það sama ár. Önnur stórstyrjöld, með öllu tilheyrandi, nálgaðist nú óðfluga. Helstu tíðindi voru þó þau að Sovétmenn gerðu óvænt griðasáttmála við Þjóðverja þess eðlis að ríkin myndu skipta með sér Finnlandi, Póllandi, Rúmeníu og Eystrasaltsríkjunum (DH 1990:179 & 567).
Upphaf stríðsins og tildrög innrásarinnar
Bretar og Frakkar voru búnir að heita Pólverjum stuðningi, og sögðu því stríð á hendur Þjóðverjum þegar þeir ráðast inn í Pólland án stríðsyfirlýsingar árið 1939; hér er byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar jafnan höfð. Nú unnu Sovétmenn og Þjóðverjar sem samherjar og réðust því Sovétmenn í Pólland að austan, og skiptu svo ríkin landsvæðinu sín á milli (DH 1990:179).
Eftir að Pólland féll, var allt með kyrrum kjörum á meginlandi Evrópu í rúmlega hálft ár. Þessa ládeyðu í stríðinu má rekja til þess, að nokkuð vafðist fyrir styrjaldaraðilum, hvernig áframhaldi stríðsins skyldi háttað. Þá komu vetraveður í veg fyrir allar meiri háttar sóknaraðgerðir (SA 1985:225).
Nú gerðust Sovétmenn einhverra hluta vegna tortryggnir í garð Finna, en þó aðallega vegna þess að Finnar voru taldir hallir undir Þjóðverja. Þeir settu fram beiðni þess efnis að Finnar færðu landamæri sín fjær Leníngrad, og þegar því var neitað réðust Rússar á Finna. Þetta mun hafa verið 30. nóvember árið 1939 (DH 1990:179), og var kallað Finnska vetrarstríðið. Fyrir þetta var Sovétmönnum vikið úr Þjóðabandalaginu (SA 1985:225).
Lögðust Frakkar og Bretar saman undir feld og hófu að brugga ráð, “undirbjuggu þeir að senda herleiðangur frá Narvík í Noregi um Kiruna og allt til Finnlands” (SA 1985:226). En þetta var ekki í raun herleiðangur sem slíkur, heldur vissu þeir að Þjóðverjum var mikilvægt járngrýtið sem unnið var í Kiruna. Talið er að þessi leiðangur hefði getað breytt sköpum fyrir framhald stríðsins, en hann varð aldrei að veruleika.
Í mars 1940 flögguðu Finnar hvítu og báðust vægðar, í þessum ójafna hildarleik. Kom nú að því að Þjóðverjar lögðu til atlögu við Danmörk og Noreg og voru þau að fullu hernumin innan tveggja mánaða, eða í lok maí. Löndin tvö gátu ómögulega rönd við reist, og jafnvel þegar Bretar og Frakkar reyndu hvað þeir gátu, kom allt fyrir ekki vegna þess að Þjóðverjar voru byrjaðir að ráðast inn í Belgíu, og þar þarfnaðist liðsauka. Um þetta leyti gerðust Ítalir bandamenn Þjóðverja í stríðinu og aðstoðuðu þá við að knésetja Frakka seint í júlí. Sátu nú Bretar einir eftir í hildarsúpunni, með öllum “istunum”; fasistunum, nasistunum og kommúnistunum. Nú var Hitler farið að langa til að ráðast inn í Rússland, bauð hann því Bretum frið, því boði vísuðu þeir á bu, þá gerði hann loftárás á Lundúnaborg. Áður en innrásin var hafin, lögðu Þjóðverjar undir sig Júgóslavíu og Grikkland, til að styrkja stöðu sína. En svo, hefja Þjóðverjar stóráhlaup inn í Rússland 22. júní árið 1941 (SA 1985:226).
Innrásin sjálf: olnbogarými Hitlers
Í Mein Kampf, helgiriti þýska nasistaflokksins, hafði Hitler talað um taumlausa löngun sína í olnbogarými eða lífsrými fyrir þýsku þjóðina. Síðar meir talar hann um þarfir þýsku þjóðarinnar fyrir aukið landrými og nefnir Rússland og nágrannaríki þess sem augljósan kost, ekki bara vegna víðáttumikils og gjöfuls lands heldur áleit Hitler Rússa óæðri kynstofn og tilvalinn fyrir Þjóðverja að hagnast á. Því höfðu megináform Hitlers gagnvart Rússum verið augljós í um áratug því bókin kom út á þriðja áratugnum. (BN 1980:21)
Ótal viðvaranir bárust Rússum úr ýmsum áttum. 18. júní 1941 barst stjórnvöldum í Moskvu þýsk skýrsla um hernaðaráætlun sem kallaðist Barbarossa. Í henni fólst að gera átti óvænta árás á Rússland og hertaka allt rússneskt land vestan Úralfjalla. Skýrslan sem sovéski njósnarinn, Alexander Foote sem starfaði í Sviss, var svo stór og ýtarleg að það tók hann fjóra daga að taka hana saman og senda hana örugglega til Moskvu. Annar sovéskur njósnari starfaði í Japan og gekk hann undir nafninu Richard Sorge. Hann starfaði í þágu þýska sendiherrans í Japan og virtist ötull stuðningsmaður nasismans. Í byrjun maí gaf Hitler í skyn við Japani áætlanir sínar um að ráðast á Sovétríkin. Sorge komst að þessu og 12. maí kom hann skilaboðum um að árás væri í aðsigi frá Þjóðverjum. Hann hafði svo samband þrem dögum seinna með nákvæma dagsetningu, 22. júní. (BN 1980:21-22)
Þrátt fyrir þessar viðvaranir frá tveim virtum njósnurum viðhöfðust stjórnvöld ekkert. Í Sovétríkjunum sjálfum voru merki um að eittvað stórt væri í bígerð. Fleiri og fleiri þýskar flugvélar sáust í könnunarflugi dýpra og dýpra inn í Rússland. Í maí hófu konur og börn þýskra stjórnarerindreka að yfirgefa heimil sín og tygja sig heim á leið. 11. júní bárust Stalín til eyrna fréttir um að starfsmenn í þýska sendiráðinu væru að brenna skjöl og gera sig tilbúna til að leggja af stað heimleiðis. Þýskur prentari hafði komið eintaki af þýsk-rússneskri orðtækjabók sem atvinnurekandi hans var að prenta í stóru upplagi til rússneska sendiráðsins kannski vegna andúðar á nasismanum. Sendiráðið kom bókinni svo til Moskvu. (BN 1980:21)
Eins og sjá má þá mátti alveg gera ráð fyrir að Rússar gerðu nú eitthvað í málunum. En þeir sátu sem fastast. Vyatjeslav Molotov, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, taldi það fásinnu að nokkrum manni dytti í hug að ráðast á hið mikla veldi Rússa. En það skrýtnasta við þetta allt saman er að Stalín sjálfur vísaði öllum njósnaskýrslum á bug. Eins og að ofan var nefnt þá höfðu áform Hitlers varðandi Rússland verið augljós í um áratug. Þess vegna var hugsunaháttur Stalíns alveg óskiljanlegur því það var í raun aðeins tímaspursmál hvenær Hitler ætlaði að færa út kvíarnar.
Barbarossa-aðgerðin
Innrásin sjálf hófst kl. 16:00 þann 22. júní 1941. Þýskir hershöfðingjar dulnefndu innrásina í Rússland Barbarossa-aðgerðina eftir viðurnefni Friðriks I en hann var þýskur keisari á 12. öld sem hafði farist í krossferð til landsins helga. 3.000.000 þýskra fótgönguliða í 150 herdeildum ruddust inn í Sovétríkin frá Póllandi og Austur-Prússlandi. Innan herdeildana 150 voru 19 skriðdreka fylki með samanlagt 3.000 skriðdreka. Ofan í þetta bættust svo 7.000 fallbyssur af öllum gerðum og 2.500 flugvélar úr þýska flughernum. Seinna meir bættust svo finnskar og rúmenskar hersveitir sem studdu Þjóðverja, um 30 herfylki. Þetta var stærsta áras sem nokkur hafði gert í hernaðarsögunni. Enn fremur var þetta í hinsta sinn sem þýski herinn sótti svo gríðarlega hratt fram, síðasta leifturstríðið. (WWII: EBO)
Sovéski herinn réð yfir nærri þrefalt fleiri skriðdrekum og flugvélum en þýski herinn, en sovésku hertólin voru flest öll gamaldags og höfðu ekkert í nýju þýsku Panzer-skriðdrekana. Loftárásir Rússa dugðu heldur engan veginn því Þjóðverjar réðust inn á svo stóru svæði. Því urðu þær of strjálar til að hindra framgang þýsku stríðsvélarinnar. Þýski herinn geystist áfram og á fyrsta degi innrásarinnar komust þýsk skriðdrekafylki 80 kílómetra inn í Sovétríkin. Fyrir þeim fór Heinz Guderian hershöfðingi. Hann var ein rómaðasti hershöfðinginn í þýska hernum og forsvarsmaður hinna öflugu leifturstríðsaðferða (BN 1980:50). Hann barðist í fyrri heimsstyrjöldinni en honum misbuðu blóðsúthellingarnar sem fylgdu skotgrafahernaði og taldi hreyfanleika lykilinn að sigri. Hann hvatti þýsk yfirvöld að beita skriðdrekum óspart og fékk loks sínu framgegnt eftir að þýskir skriðdrekar höfðu bókstaflega rústað Póllandi.
„Gerðu steypiflugvélar okkar þetta?” spurði foringin? „Nei, vélahersveitir okkar” svaraði Guderian hreykinn. (BN 1980:50). Með herkænsku Guderians tókst Þjóðverjum að leggja undir sig Pólland á augabragði og seinna meir völtuðu þeir yfir Niðurlönd og Frakkland. Á tveim vikum tókst Guderian það sem öllum þýska hernum tókst ekki á fjórum árum, að sölsa undir sig Frakkland.
Hitler kom Rússum í svo opna skjöldu með svona óvæntri innrás að einu sinni kom þýsk herdeild að rússneska hernum við æfingar. Um miðjan júlí 1942 var þýski herinn kominn 640 kílómetra inn fyrir sovésku landamærin, aðeins 320 kílómetra frá Moskvu. Þrátt fyrir þennan ofsahraða þýska hersins tókst Stalín alltaf að senda nýjar og nýjar hersveitir fram á vígvöllinn því Stalín bjóst ávallt við árás frá Japönum í austri. Hann fékk hins vegar boð frá útsendara sínum í Japan, Richard Sorge, þess efnis að Japanir myndi ekki ráðast á Rússland í bráð. Japanir voru þess í stað að vígbúast á Kyrrahafi gegn Bandaríkjamönnum.
Vegna þessarra aðstæðna náðu Rússar alltaf að halda nægilega mikið aftur af þýsku mulningsvélinni. Samt hörfuði þeir vel og lengi eða allt fram í október 1941 þegar rússneski veturinn skall á. Eitt var athyglisvert við það þegar Rússar hörfuðu. Þeir brenndu allt land og allar brýr sér að baki til að hindra framgang Þjóðverja. Þeir meira að segja tóku heilu verksmiðjurnar með sér, fluttu þær og settu þær aftur upp bak við sína línu. Þetta hjálpaði þeim geysilega því þýski herinn þurfti ávallt að byggja nýjar brýr og þeir gátu ekki sett upp framleitt hergögn innan sovésku landamæranna.
Eins og ofan segir sótti þýski herinn hratt fram þrátt fyrir að Rússar brenndu alla jörð að baki sér. Þjóðverjum gekk allt í haginn og um haustið var Hitler í raun búinn að bóka sigur og farinn að ræða við undirmenn sína hvert skyldi snúa sér þegar Sóvíetríkinn væru fallin. En þá gerði miklar rigningar í Rússlandi og hinn vélvæddi her Þjóðverja sat fastur í for og leðju. Flutningabílar festust í öxulhárri drullu og skriðdrekarnir spóluðu. Og þegar rignigarnar voru afstaðnar hríðféll hitastigið og breytti leðjunni í einn alsherjar ísklump þannig að allt stóð endanlega fast. Þýskir hermenn eyddu dýrmætum tíma og orku í að berja hertólin laus úr klakaböndum með hökum.
Særðir fótgönguliðar gáfu margir upp öndina, þar sem þeir ultu um koll, ekki af benjum sínum, heldur úr taugalosti og kali. Langtum fleiri helkól í sjúkralestum, sem sátu fastar í snjósköflum. Hermennirnir gættu hver um annan að kaleinkennum en allt að einu kól 113.00 manna. (BN 1980:170)
Svona harður vetur var það besta sem gat hugsanlega gerst fyrir Rússa. Herinn var þaulvanur slíkum aðstæðum og flestir fótgönguliðarnir voru menn úr sveitum sem höfðu alist upp við slíkar aðstæður. Ofan á þetta bættist svo að Stalín hafði kallað fram á vígvöllinn hersveitir frá Síberíu sem þóttu vetrarhörkurnar ekkert tiltökumál. Þeir bygðu sér snjóhús, lögðu grenigreinar á jörðina og hituðu svo snjóhúsið upp og höfðu það í raun gott. 17. nóvember réðust Rússar svo til fyrstu gagnsóknar sinnar síðan innrásinn hófst. Rússar hröktu 112. herdeildi Guderians á flótta og ályktaði Guderian að allt bardagaþrek þýsku hermannana væri horfið. 5. desember bárust svo fyrirmæli frá Moskvu um að hefja ætti skipulagðar gagnárásir til að hrekja þjóðverja burt úr Sovétríkjunum. Guderina hafði þá samband við foringjan, útskýrði fyrir honum stöðu mála, og bað um leyfi fyrir sveitir sínar að hefja skipulagt undanhald. Hitler tregaðist við í fyrstu en svo, 8. desember, skipaði hann fyrir að herir sínir skildu hörfa. (BN 1980:187-188)
Lok styrjaldarinnar
Árið 1942 hafði stríðið tekið nýja stefnu, bandamenn hófu að taka virkari þátt í því og tvíefldust í aðgerðum sínum. Til dæmis ráku Bretar Þjóðverja á flótta frá El Alamein, nálægt Kaíró, og sveitir Þjóðverja í Afríku urðu að hörfa til Ítalíu. Litlu síðar gerðu Bretar og Bandaríkjamenn árás á Ítalíu og komu Mússólini bak við lás og slá, Þjóðverjar frelsuðu hann þó fljótlega og hann gat haldið áfram baráttunni í heimalandi sínu. En árið 1945, þegar stríðinu lauk, tóku ítalskir skæruliðar Mússólini af lífi.
Innrás bandamanna í Normandí var þónokkuð lengi í bígerð, en varð loks að veruleika 6ta júní árið 1944, og nú hlaut að fara að koma að því að Þjóðverjar gæfust upp. Fór í kjölfarið að bresta í stjórn Þýskalands; nokkrir herforingjar gerðu sér glaðan dag og reyndu að ganga frá Dolla dauðum. Þegar þetta tilræði gekk ekki upp lét Hitler drepa tilræðismennina og fjölskyldur þeirra einsog þær lögðu sig.
Víglínurnar þrengdu að Þjóðverjum, og Hitler reyndi að beita öllum ráðum; lagði herskyldu á alla 16-59 ára og hóf á ný loftárásir á Bretland, en allt kom fyrir ekki. 30ta apríl féll Adolf fyrir eigin hendi, ásamt öðrum nasistaforingjum. 8da maí var rekinn endahnútur á allt stríð í Evrópu.
Japanir héldu samt uppteknum hætti, og iðkuðu sína útþenslustefnu af miklum móð. Bandaríkjamönnum var nóg boðið og 6ta ágúst vörpuðu þeir kjarnorkusprengju á Hiroshima og þrem dögum síðar á Nagasaki. 2an september 1945 sáu Japanir loks að við ofurefli var við að etja, og gáfust því upp. Þar með lýkur seinni heimsstyrjöldinni (SA 1985:230-231).
Epilogus
Afleiðingar stríðsins voru miklar og víðfaðmar, og ekki sér enn fyrir endann á þeim. Styrjöldin skildi mörg ríki eftir máttlaus og lömuð en uppi stóðu tvö lönd; Bandaríkin og Sovétríkin, átti það eftir að verða afdrifarík þróun, sérstaklega þegar kom að kalda stríðinu.
Erfitt er að ímynda sér með hvaða augum maður liti heiminn ef enginn styrjöld hefði orðið, nokkuð víst er að það væri töluvert frábrugðið því sem við eigum að venjast, en það er gaman að velta sér uppúr svona hlutum.
Heimildaskrá
Bethell, Nicholas. 1980. Innrás í Sovétríkin. Jón Guðnason þýddi. Almenna Bókafélagið, Reykjavík.
Danielsen, Leif Steffen; Kaldhol, Bjarke & Thuesen, Nils Petter. 1985. Saga mannkyns ritröð AB 13da bók: stríð á stríð ofan. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
Dóra Hafsteinssdóttir & Sigríður Harðardóttir. 1990. Íslenska Alfræðiorðabókin p-ö. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík
Sveen, Asle & Aastad, Svein A.. 1985. Mannkynssaga eftir 1850. Sigðurður Ragnarsson þýddi. Mál og menning, Reykjavík.
Sveen, Asle & Aastad, Svein A.. 1994. Heimsbyggðin 2: Mannkynssaga eftir 1850. Sigðurður Ragnarsson þýddi. Mál og menning, Reykjavík.
“World War II” Encyclopædia Britannica Online. (http://search.eb.com/bol/topic?eu=118866&sctn=7&pm=1)
[Var sótt 18da mars 2002]