Örlög norrænar byggðar á Grænlandi Þetta er ritgerð sem ég skrifaði í áfanganum Íslandssaga fyrir 1815. Birtist hér alveg óbreytt.

Norrænu íbúar Grænlands verða kallaðir Grænlendingar og frumbyggjar norðurskautssvæðisins verða kallaðir Inúítar til auðkenningar í þessari ritgerð. Vandamálið um örlög Grænlendinga er og verður líklega um næstu ár eitt af þeim allra skemmtilegustu vandamálum sem sagnfræðingar glíma við. Hvað gerðist er breytti blómlegu lífi í Grænlandi til eyðibyggðar við lok 15. aldar? Hvað varð um fólkið þegar ljóst varð að það gat ekki haldið hefðbundnum lifnaðarháttum áfram? Þessar tvær spurningar eru grundvallarspurningar og meginmarkmið þessarar ritgerðar er að svara þeim.

Sögulegur aðdragandi
Grænland var numið af Íslendingum árið 985 eð 986. Þar var Eiríkur rauði Þorvaldsson á ferð með myndarlegan flota, á þriðja tug skipa. Giskað er á að fjöldi landnema í þessari fyrstu ferð sem farin var til Grænlands til að setjast að hafi verið um 500. Næstu árin komu fleiri landnemar og eftir nokkur ár voru tvær byggðir í Grænlandi, Eystribyggð og Vestribyggð. Eystribyggð var þar sem bærinn Qaqortoq er núna og Vestribyggð var þar sem höfuðstaðurinn Nuuk stendur núna. Þegar fjölmennast var er talið að fjöldi Grænlendinga hafi verið um 3000 en 1400 að meðaltali. Fleiri voru í Eystribyggð. Kristni var innleidd um svipað leyti á Íslandi og Grænlendingar gengu á hönd Noregskonungi einu ári á undan Íslendingum eða 1261. Við byrjun 15. aldar eru engin merki sem vitað er um að Grænlenska byggðin hafi verið í hættu en við lok aldarinnar var hún horfin. Ekkert var eftir nema rústir. Síðasta örugga heimild um siglingu til Grænlands var ferð Þorsteins Ólafssonar og föruneytis frá Noregi. Skip þetta átti að fara til Íslands en lenti í hrakningum á leiðinni og rak til Grænlands, eitthvað sem var ekki sjaldgæft. Þorsteinn Ólafsson giftist Sigríði Björnsdóttir á Grænlandi og eftir þetta héldu þau heim til Íslands. Þessir atburðir áttu sér stað á árunum 1406-10

Hvers vegna lagðist byggðin í eyði?
Ein kenning er sú að Grænlendingar hefðu dáið út vegna skorti á réttum næringarefnum. Þessi kenning kom upp um svipað leyti og vítamínin voru uppgötvuð. Það er mikill skortur á sólskini á Grænlandi og beinkröm, sem orsakast af skorti á D vítamíni var ásamt skyrbjúgi talin vera mikið vandamál. Paul Nørlund taldi sig hafa fundið sönnur á þessu á beinagrindum sem hann gróf upp á Herjólfsnesi í Eystribyggð. Seinna kom þó í ljós að beinin voru ekki varðveitt nógu vel og sýndu þessvegna einkennin. Líklegt er að Grænlendingar hafi ekki fengið öll þau næringarefni sem æskilegt er en að sjúkdómar tengdir næringu hafi valdið eyðileggingu byggðarinnar er mjög hæpið. Ísland liggur yfir sömu breiddargráður og svæðið þar sem Vestribyggð var og sex breiddargráðum norðar en þar sem Eystribyggð og mataræði Íslendinga var á þessum tíma mjög svipað og Grænlendinga og byggð á Íslandi var ekki í hættu vegna þessa.

Einangrun hefur oft verið fleygt fram sem stórri orsök í hnignun grænlensku byggðarinnar. Þetta á sér hliðstæðu í sögu Íslands þegar leti Norðmanna siglingarlega séð var kennt um hnignun Íslands úr gullöld í fátækt og ósjálfstæði. Þessi kenning stendur ekki jafn föstum fótum núna því að sagnfræðingar sjá ekki hnignunarmerki í hverju horni eins og venjan var heldur kalla það aðlögun að hörðu landi. Saga Grænlands endaði, annað en saga Íslands, í eyðingu allrar byggðar norrænna manna. Má þá telja ferlið fram að því hnignun? Að öllum líkindum, nema að einhver einn atburður hafi skyndilega leitt að sér brottflutning þúsundir manna. Norðmenn hættu að sigla til Grænlands skömmu fyrir aldamótin 1400 en aðrir hafa greinilega gert það. Það sést á húfu sem upprunnin er í Burgúnd í kring um 1450 sem grafin var upp í kirkjugarðinum á Herjólfsnesi. Gátu þó Grænlendingar ekki verið sjálfum sér nægir? Þeir höfðu búskap, tækni til að byggja steinhús, frábært kléberg, eitthvað af rekavið, sjóinn og dýr til veiðar. Það helsta sem hefur vantað er járn. Kannski hefur einangrun haft einhver áhrif en erfitt er að fullyrða að hún hafi verið nægilega mikil og skipt nógu máli fyrir byggðina til að hún sé höfuðorsök.

Lengi vel töldu margir að Inúítar hafi lagt byggðirnar í eyði. Þessi kenning er byggð á tveimur staðreyndum. Ívar Bárðarson var norskur klerkur sem skrifaði Grænlandslýsingu og var biskup í Görðum á árunum 1348 til um það bil 1360. Þessi Grænlandsslýsing er aðeins til í danskri þýðingu og mögulegt er að eitthvað hafi ruglast við þýðinguna og einnig gæti verið að einhverju hafi verið bætt við seinna. Því er Grænlandslýsingin ekki pottþétt heimild þó að hún sé ekkert sérstaklega slæm heldur. Í Grænlandsslýsingunni er sagt að íbúar Eystribyggðar hafi sent könnunarflokka norður til að kanna aðstæður. Þeir hafi fundið byggðina og búfé en enga íbúa og ályktað að Inúítar hafi drepið þá alla. Jafnvel þó að Grænlandslýsingunni væri hægt að treysta er engin leið að þessi könnunarflokkur hafi örugglega haft rétt fyrir sér. Inúítarnir voru veiðimenn og það stemmir alls ekki að þeir hafi drepið alla íbúa byggðarinnar en skilið síðan búfénaðinn eftir. Líklegra er að þeir hefðu drepið skepnurnar en látið fólkið í friði og ef þeir hefðu á annað borð drepið fólkið þá hefðu þeir aldrei látið skepnurnar vera í friði. Líkleg ástæða fyrir því að aðstæðurnar hafi verið svona þegar könnunarflokkinn bar að garði er sú að íbúarnir hafi verið að aðlagast og breytt um lífstíl. Þeir hafi áttað sig á að til að lifa svona norðarlega hafi þeir þurft að treysta meira á veiði en ekki einungis búskap. Bestu veiðilendurnar voru norðarlega og því er mögulegt að allir íbúarnir hafi verið þar á veiðum en hafi svo ætlað að koma og lifa á búfénaðinum um veturinn. Ívar viðurkennir meira að segja að hann hafi ekki þorað að fara í land heldur hafi hann bara siglt framhjá og séð búfénaðinn. Seinni staðreyndin kemur frá trúboða nokkrum, Hans Egede. Hann fór 1721 til vesturstrandar Grænlands, haldandi að Vesturbyggð væri vestan megin á Grænlandi og Eystribyggð væri austan megin, en í raun voru þær báðar á vesturströndinni. Því hélt hann sjálfan sig vera í Vestribyggð þegar hann lenti í raun í Eystribyggð. Hann bjóst við að hinir norrænu Grænlendingar væru fallnir til heiðni eða að minnst kosti ennþá kaþólskir og vildi því koma þeim undir hinn lúterska sið. Hann vissi af tilgátu Ívars Bárðarsonar um að Inúítar hafi eyðilagt Vestribyggð og tók hana sem gilda. Þrátt fyrir að hafa ekki hitt neina norræna menn til að kristna var ferð hans ekki algjör fýluferð því að hann fann Inúíta sem hann gat kristnað. Hann lagði sig fram til að læra tungumálið, skírði börnin, þýddi kristna texta á mál Inúíta og spurðist fyrir um örlög norrænu byggðarinnar. Mannfræðingar vita að þegar frumstætt fólk er spurt leiðandi spurninga svarar það játandi, þó að það viti ekki endilega svarið. Egede sagðist sjálfur hafa spurt hvort það sé rétt að forfeður Inúítana hafi útrýmt Grænlendingunum og Inúítarnir svöruðu játandi. Þannig var siður þeirra, í stað þess að segja sannleikann þá voru þeir sammála spyrjanda til að hann yrði ekki fyrir vonbrigðum. Egede styrktist enn betur í trúnni á að Inúítar hafi verið orsökin fyrir eyðingu norrænu byggðarinnar. Þó að bæði Ívar og Egede hafi ekki haft nægilega sterkar heimildir til að styðja kenninguna um að eyðingu byggðarinnar af völdum Inúítum þá er sú kenning langt frá því að vera afsönnuð. Þó að Inúítar hafi ekki gert árás og lagt Vestribyggð í eyði þegar Ívar sigldi framhjá gæti það vel verið að þeir hafi gert árás einhvern tíman á næstu árum og þó að Inúítarnir sem Egede talaði við hafi ekki vitað hvað varð um norrænu byggðirnar sannar það ekki að þeir hafi verið að ljúga. Samt sem áður er sú hugmynd að Inúítarnir hafi farið með stríði á hendur Grænlendingum og gjörsigrað þá frekar langstótt, jafnvel þó að einungis sé átt við Vestribyggð. Grænlendingarnir voru í kring um 500 talsins í Vestribyggð með fasta búsetu og nógu stutt milli bæja til að hjálp gæti auðveldlega borist. Inúítar voru um 1500 og dreifðust um alla vesturströnd Grænlands, að Vestribyggð. Vitað er að Inúítarnir hafi ekki átt járnvopn heldur spjót og boga úr beini og tré á meðan norrænu mennirnir hafa átt vopn úr járni þó að járnskortur hafi reyndar verið einhver. Því er mjög ólíklegt að Inúítarnir hafi haft áhuga á eða möguleika á að sigra norrænu mennina í stríði. Þá hafa verið lagðar fram tillögur um að plágan, sem geisaði í Noregi á svipuðum tíma og stríðið við Inúítana átti að eiga sér stað, hafi veikt Grænlendinga nóg til að gera þá að auðveldum andstæðingum. En hvers vegna eru þá ekki til neinar heimildir eða fornleifar sem styðja skæða plágu og ættu Inúítarnir ekki að vera viðkvæmari fyrir plágunni eins og aðrir íbúar nýja heimsins sem komust í kynni við evrópubúa? Líklegra er að einhver átök hafi brotist út milli þeirra eins og oft gerist þegar tvær þjóðir sem vita lítið eða ekkert um hvor aðra hittast í fyrsta skiptið.

Fyrsti maðurinn til að efast stórlega um kenninguna um eyðingu norrænu byggðarinnar af völdum Inúíta var Íslendingur að nafni Egill Þórhallason. Hann var fór til Grænlands til að kanna aðstæður, án þess að ákveða fyrirfram niðurstöður sínar eins og Egede, og gaf 1776 út bókina Rudera með niðurstöðum sínum. Þar efast hann um þær sögusagnir að Inúítar hafi ráðist af afli á norrænu byggðirnar, líklegra fannst honum að enskir sjóræningjar væru á ferðinni.

Grænlendingar hugsuðu ekki sérstaklega um komandi kynslóðir þegar þeir beitt landið. Þegar loftslagið kólnaði hafði það slæmar afleiðingar því svo norðarlega þarf ekki að kólna um margar gráður til áhrifin verði mikil. Landið er lengi að ná sér eftir hörð ár og lífsviðurværi Grænlendinga hefur líklega borið skaðann af. Mesta kuldaskeið frá landnámi Norrænna manna var um miðja 14. öld og það gæti verið höfuðorsök í eyðingu Vestribyggðar. Erfiðara er að fullyrða það sama um Eystribyggð því að þegar hún fór í eyði var þetta kuldaskeið gengið yfir, þó að meðalhitinn væri lægri en við landnám. Landeyðing gæti aftur á móti verið höfuðorsökin þar.

Hvað varð um Grænlendinga?
Þegar hefðbundin byggð Grænlendinga fór að verða ómöguleg er vandamálið hvað hafi orðið um fólkið? Dó það smám saman úr hungri eða fór það eitthvert í leit að betra lífi? Ekkert er til sem bendir til að Grænlendingar hafi skyndilega fallið frá og það er líklegra að fólkið hafi reynt að komast eitthvert þar sem vænlegra var að búa en að bíða dauðans undankomulaust á Grænlandi.

Fridtjof Nansen er höfundur þeirrar kenningar að Grænlendingar hafi tekið upp lifnaðarhætti Inúíta og blandast þeim, að menning þeirra hafi horfið en ekki blóð þeirra. Þessa kenningu studdi Vilhjálmur Stefánsson heils hugar. Nansen hafði ýmislegt máli sínu til stuðnings. Sú hugmynd um að aðrir en evrópumenn séu siðlausir barbarar og þurfi að læra kristna siði til að vera húsum hæfir var ekki orðin til og var allavega ekki komin til Grænlands þegar þessir atburðir áttu að hafa átt sér stað. Eftir að Grænland einangraðist frá Evrópu um miðbik 14. Aldar fór að skorta járn og biskupar komu ekki. Verslunin var mikilvæg fyrir Grænlendinga og þeir hafa komist að því að lifnaðarhættir Inúíta voru mun betur fallnir til að lifa af í erfiðu landi heldur en hinar hefðbundnu evrópsku landbúnaðaraðferðir. Mögulegt er að Grænlendingar hafi talið sig vera hafnir yfir Inúítana á menningarlegum forsendum en ekki kynþáttalegum. Þessar forsendur brustu þó þegar kom í ljós að menning Inúítana var heppilegri á Grænlandi. Hér verður þó að gera mun á Eystribyggð og Vestribyggð. Sú síðarnefnda var mun norðar og var fámennari. Líklegra er að hinn hefðbundni búskapur hafi gengið verr þar og það í bland við fámenan byggð eykur líkurnar á samblöndum við Inúíta. Áhugavert er að athuga álit Poul Nørlund annars vegar og Vilhjálms Vilhjálmssonar hins vegar á þessu. Poul var danskur fræðimaður sem ólst upp við stjórn fæðingarlands hans yfir Grænlandi en Vilhjálmur var kanadískur mannfræðingur sem rannsakaði viðfangsefni sín með því að sökkva sér djúpt í þau og sjá þau með sjónarhorni frumbyggja. Poul telur líklegt að Inúítarnir hafi tekið við áhrifum frá Grænlendingum og það eina sem Inúítarnir hafi gefið þeim hafi verið skrautmunir sem hafa verið þegnir af forvitni og vináttu en ekki vegna gagnsemi. Vilhjálmur er aftur á móti á þeirri skoðun að lifnaðarhættir Inúíta hafi verið mun þróaðri miðað við aðstæður og norrænu mennirnir hafi þurft að læra mikið af Inúítunum til af.

Vilhjálmur telur að öll Vestribyggð og hluti Eystribyggðar hafi orðið þessum breytingum að bráð. Hann telur að þeir sem voru haldnir ævintýraþrá í Eystribyggð og farið langt norður í vetursetu hafi að lokum blandast við Inúítana en hinir sem töldu sig öruggari í landbúnaði hafi orðið eftir. Fundist hafa ýmsar norrænar leifar það norðarlega í Grænlandi að ef þær eru eftir Grænlendinga miðalda hljóta þeir að hafa rekist oft á Inúíta. Á Norman Lockyer eyju fannst æðafuglaskýli. Það samanstóð af nokkrum steinum sem var raðað til að mynda skjól sem æðakollan velur sér síðan til að verpa í. Þessi aðferð var víða notuð á Norðurlöndunum til að fá æðafuglinn til að setjast að í nálægt híbýlum manna því að dúnninn var mun verðmætari heldur en kjötið. Norman Lockyer eyja er lítil eyja á 79° norðlægri breiddargráðu og loftleiðin þangað er rúmlega 1800 kílómetrar að lengd frá Vestribyggð. Svona æðafuglaskýli hafa einnig fundist við Jones sund sem er einnig á 79° norðlægðar breiddar en lengra til vesturs eða 89° vestlægrar breiddar á meðan Norman Lockyer eyja er á 74° vestlægrar breiddar. Bæði þessi svæði tilheyra Kanada nútímans. Það gæti þó verið að Inúítarnir, eftir samskipti við þá norrænu, hafi lært þessa aðferð og hún hafi síðan verið notuð af þeim svo norðarlega. Það er því ólíklegt því að Inúítar eru ekki þekktir fyrir að hafa átt nein húsdýr nema hunda og því þyrfti þetta að vera mjög einangrað atvik og ekki verið endurtekið svo þekkt sé.

Þó er vitað að árið 1333 voru Erlingur Sighvatsson, Bjarni Þórðarson og Eindriði Oddson á ferð um 30 kílómetrum fyrir norðan þar sem núna er bærinn Upernivik. Það er næstum því á 73° norðlægri breiddargráðu. Upplýsingar um þetta fundust á rúnasteini árið 1824. Á honum stendur að þeir hafi verið á ferð þarna laugardaginn fyrir 25 apríl. Það er harla ólíklegt að þeir hafi verið svo snemma á ferðinni og líklegra er að þeir hafi neyðst til að hafa vetursetu svona norðarlega. Ef þetta hafa verið menn sem hafa gefist uppa á hefðbundnum búskap og tekið upp lifnaðarhætti Inúíta er þó mögulegt að þeir hafi bara verið á flakki í kringum þetta svæði í leit að veiðibráð. Hvað sem raunin er í málum þessum er það augljóst að menning Grænlendinga hefur borist gífurlegar vegalengdir norður í svæði sem voru ein af þeim síðustu á jörðinni til að vera könnuð. Hvort sem Grænlendingar hafa farið alla þessa leið með menningu sína eða Inúítar hafi tekið upp aðferðir þeirra er erfitt að segja en það er víst að samneyti Inúíta og Grænlendinga hlýtur að hafa verið töluvert.

Árið 1658 kom út bók sem innihélt nákvæma lýsingu á Inúítum á Vesturströnd Grænlands, aðeins sunnar en Upernivik. Þetta var fyrsta bókin sem innihélt nákvæmar og góðar lýsingar á þeim. Þar er talað um tvær gerðir fólks, ein er hávaxin og kraftaleg en hin er lágvaxnari með ólívulitaða húð. Vilhjálmur tekur þessa heimild sem sterka vísbendingu um samlögunarkenningu Nansen sem hann sjálfur studdi svo dyggilega. Líkamleg einkenni hinna norrænu manna hafi aldrei horfið með menningu þeirra og byggð.

Í leiðangri á árunum 1908 – 12 fór Vilhjálmur Stefánsson í ferð langt norður í Kanada til að kanna Inúíta sem bjuggu við Coronation flóa, sem er milli meginlands Kanada og Viktoríueyjar. Koparinúítar kallast sá hópur Inúíta sem byggir þetta svæði. Sumir þeirra voru þó frábrugðnir fjöldanum. Þeir voru með blá augu, ljóst hár og minntu Vilhjálm mjög á evrópskt fólk. Þarna var Vilhjálmur viss um að hafa fundið afkomendur Grænlendingana sem hurfu. Þessi fundur Vilhjálms var mikið umtalsefni um allan heim og varð hann mjög frægur af. Sumir tóku þessum fundi ekki jafn sjálfsagt og fjölmiðlar. Norski heimskautafarinn og landkönnuðurinn Roald Amudsen gagnrýndi Vilhjálm harðlega og fannst þetta léleg vísindi hjá honum. Nú þegar hægt er að rekja uppruna fólks með genarannsóknum hefur þetta verið kannað af íslenskum mannfræðingum. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að Vilhjálmur hafi haft rangt fyrir sér, uppruni Koparinúíta sé ekki tengdur norrænum íbúum Grænlands frá því á miðöldum. Hins vegar sýna niðurstöðurnar að á Grænlandi hafi blöndun átt sér stað meðal Inúíta og Grænlendinga. Skyldleiki í karllegg var fundinn en ekki kvenlegg. Það þýðir að norrænir menn hafa átt börn með inúítakonum en inúítakarlar hafa ekki átt börn með norrænum konum. Þessi staðreynd hefur verið notuð til að afsanna þá kenningu endanlega að Inúítar hafi lagt norrænu byggðina í eyði því þá hefðu karlar í hópi Inúíta tekið sér norrænar konur.

Sturla Friðriksson er viss um hvað varð um Grænlendingana eða nánar tiltekið, hvert þeir fóru. Við byrjun 15. aldar höfðu Portúgalir skip og færni til að sigla langt suður með vesturströnd Afríku. Medeira eyjarnar voru uppgötvaðar 1418 og Azoreyjar 1427. Portúgalir námu land á þessum eyjum 1432. Strax þegar Vilhjálmur Stefánsson skrifar bók sína Greenland árið 1944 er talið líklegt að Portúgalir, ásamt Hansamönnum og Böskum hafi siglt til Grænlands. Í Tordesilla samningnum sem skipti öllum þekktum löndum milli Spánverja og Portúgala fengu hinir síðarnefndu Grænland og á Cantino heimskortinu frá 1502 eru Portúgölsk hermerki á Grænlandi. Sturla telur að Portúgalir hafi gefið Grænlendingum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað. Lífið á Grænlandi var farið að vera erfitt fyrir alla nema Inúíta og Portúgölum vantaði mannafla til að byggja upp nýlendur sínar Medeira og Azoreyjum sem höfðu verið óbyggðar af mönnum þegar þær fundust. Báðir aðilar græddu, Portúgalir fengu mannafla og Grænlendingar fengu frelsun frá kuldanum og fátæktinni.

Ýmisleg hefur verið uppgötvað sem styður þessa kenningu. Kaupmaður einn flutti bláeygða þræla frá Medeira til Tenerife. Mörgum þeirra tókst að vinna sér frelsi og verða labradors, heiti sem sumir telja vera gamalt Portugalskt heiti yfir Grænland. Á Kanaríeyjum er staðarnafnið Galdar sem gæti verið afbökun á Grænlenska biskupssetrinu, Garðar, tilkomið af erfiðleikum við að bera fram r-ið. Á Los Realejos, Tenerife, má sjá drekahöfuð útskorin í þakskeggin sem svipar til drekahöfða sem voru á langskipum.
Var mögulegt að flytja heila þjóð milli landa? Á 15. öld var siglingartæknin orðin það góð og Grænlendingar voru ekki margir að það ætti vel hafa verið mögulegt ef hvatinn fyrir því var fyrir hendi.

Niðurstöður
Augljóst er að vandamálið um örlög norrænu byggðarinnar á Grænlandi er flókið og hefur ekkert einfald svar. Hins vegar erum við komin mörg svör og sum þeirra virðast vera mjög sennileg. Ekkert hefur verið fullsannað en margt er líklegt. Nútíma genatækni hefur hjálpað til í leitinni að Grænlendingunum. Þeir voru ekki á Viktoríueyju eins og Vilhjálmur Stefánsson gat sér til um en eitthvað af þeim var á Grænlandi. Kannski verða framkvæmdar rannsóknir á Medeira og Azoreyjum sem varpa ljósi á hugmyndir þess efnis að Grænlensku genin leynist þar.

Tækniframfarir hafa líka gert okkur kleyft að skoða loftslag mörg hundruð ár aftur í tímann með því að bora í Grænlandsjökul. Niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til þess að á svipuðum tíma og hluti Grænlandsbyggðar fór í eyði var sérstaklega slæmt kuldaskeið. Það er því líklega mjög stór orsök. Það í bland við óvægar landbúnaðaraðferðir hafa gert það að verkum að Grænlendingar hafa einfaldlega ekki getað lifað sínu hefðbundna lífi áfram. Sumir aðlöguðust og gengu inní samfélög Inúíta en sumir hafa flutt í burtu, líklega með Portúgölum.

Heimildir:
Guðmundur J. Guðmundsson, Á hjara veraldar. Saga norrænna manna á Grænlandi. Smárit Sögufélags. Reykjavík, 2005.

Nørlund, Poul, Fornar byggðir á hjara veraldar. Lýsingar frá miðaldarbyggðum á Grænlandi, Reykjavík, 1972.

Stefansson, Vilhjalmur Greenland. New York.

Jón Jóhannesson, Íslendinga saga. II. Fyrirlestrar og ritgerðir um tímabilið 1262 – 1550, Reykjavík, 1958.

Björn Þorsteinsson og Guðrún Ása Grímsdóttir, Saga Íslands V. Þjóðhátíðarútgáfa. Ritstjóri Sigurður Líndal. Reykjavík, 1973.

Gísli Pálsson, Frægð og firnindi. Ævisaga Vilhjálms Stefánssonar. Reykjavík, 2003.

Sturla Friðriksson, „Vangaveltur um íslenskar fornsögur og fornminjar.“ Skjöldur – tímarit um menningarmál. 15:5(2006).

Páll Skúlason, „Um síðustu Íslendingana á Grænlandi.“ Skjöldur – tímarit um menningarmál. 15:5(2006).