Gústav II Adolf - Konungur Svía Þetta er ritgerð sem ég skrifaði í áfanganum Saga 103.

Gústav II Adolf, einnig þekktur undir latneska nafninu Gustavus Adolphus, var konungur Svíþjóðar á árunum 1611 - 32. Hann fæddist 19. desember á því herrans ári 1594 og var elsti sonur Karls IX og Kristínar drottningar. Þátttaka hans í 30 ára stríðinu varð til þess að Svíþjóð varð að leiðandi ríki í álfunni. Einnig er hann kallaður faðir nútíma stríðstækni, þar sem hann gjörbylti hernaði þess tíma, og má einna helst þakka þessum byltingarkenndu aðferðum fyrir sigra hans í 30 ára stríðinu.

Gústav fæddist ekki sem prins heldur sonur hertoga. Konungur Svíþjóðar hét þá Sigmund og var einnig konungur í Póllandi. Það átti ekki eftir að vara lengi þar sem að faðir Gústavs var staðráðinn í að verða konungur einn daginn. Þann tíma sem Sigmund þurfti að verja í Póllandi nýtti Karl faðir Gústavs vel til að grafa undan trausti landa sinna á konungnum. Karl skákaði undirmönnum Sigmunds, sem hann hafði skilið eftir í Svíþjóð til að stjórna landinu í fjarveru sinni, með því að halda þing sem gerði hann að staðgengli konungs. Þetta orsakaði stríð á milli Karls sem naut aðstoðar lágstéttarinnar og var mótmælandi, og Sigmunds konungs sem var kaþólikki og hafði aðalinn á bak við sig. Þetta stríð vann Karl og var krýndur konungur í kjölfarið. Gústav varð nú prins og síðan konungi árið 1611 en þó ekki krýndur fyrr en 12. nóvember 1617. Gústav fékk mörg erfið deilumál í arf eftir föður sinn. Svíþjóð átti enn í útistöðum við Pólland og Karl faðir hans hafði ráðist inní Rússland til að hindra það að Pólland næði yfirráðum þar. Auk þess hafði Karl lent í átökum við Dani um yfirráð yfir norðurhluta Noregs. Öll þessi átök þurfti Gústav nú að kljást við. Hann laut reyndar í lægri haldi gegn Dönunum en hafði aftur á móti stór landsvæði af Rússum og sem leiddi til þess að Svíþjóð náði stórum hluta Eystrasaltsins undir sig.

Árið 1630 blandaði Gústav sér, fyrir hönd Svíþjóðar, inn í 30 ára stríðið. Ástæður þess hafa löngum verið umdeildar. Margir mótmælendur töldu Gústav vera nokkurs konar „Ljón Norðursins“, kominn til að berjast við hlið annarra mótmælenda. Síðar töldu menn ástæður fyrir þátttöku hans vera þær að hann hafi viljað sölsa undir sig meira landsvæði til þess að styrkja efnahag landsins. Nú á dögum telja sagnfræðingar hins vegar að hann hafi einungis haft það að markmiði að tryggja stöðu Svíþjóðar í Evrópu. Ákvörðunin var þó tekin af vel ígrunduðu máli enda var það mikið mál að Svíþjóð, ásamt Finnlandi og löndunum við Eystrasaltið, ætluðu í stríð við þjóðir með tugi milljóna íbúa, þegar þau sjálf höfðu ekki nema um eina og hálfa miljón íbúa samanlagt. Þann 11. júní sigldi Gústav frá Svíþjóð, ásamt 14 000 manna herliði og átti ekki afturkvæmt.

Gústav tók land í Þýskalandi 26. júní og það ár fór herinn um og náði undir sig miklu landsvæði án þess að mæta teljandi mótspyrnu. Menn reyndu eftir fremstu getu að komast hjá stórum bardögum þar sem að í þeim var allt lagt undir, annaðhvort sigruðu menn eða létu lífið. Að lokum fór það þó svo að þann 7. september (samkvæmt Júlíönsku tímatali en 17. september samkvæmt Gregoríönsku ) mættu Svíar miklum þýskum herafla en yfirmaður hans Jean Tilly, hafði látið herinn fara um varnarlítil svæði mótmælenda ruplandi og rænandi og nú kom Gústav trúbræðrum sínum til hjálpar og mætti Tilly í bardaga þann 7. nóvember 1631. Herir þeirra voru svipaðir að mannfjölda, þar sem að Gústav hafði ráðið til sín leiguliða ásamt því að hafa her hinna niðurbældu mótmælenda við hlið sér. Gústav hafði aldrei tekið þátt í bardaga af þessari stærðargráðu en það hafði Tilly sem var 72 ára að aldri og hafði tekið þátt í fjölda orrusta og alltaf snúið frá þeim sem sigurvegari. Það breyttist þó þennan afdrifaríka dag þar sem ný stríðshugsun sigraði gamlar bardagahefðir, ef svo má að orði komast. Svíar unnu afgerandi sigur þar sem nýjar hernaðaraðgerðir Gústavs komu Þjóðverjunum algerlega í opna skjöldu. Nú hefði Gústav getað snúið aftur heim þar sem her hins þýska keisara var í molum og ríki mótmælenda í norðri gátu nú um frjálst höfuð strokið. Einnig var staða Svíþjóðar sterkari nú en nokkurn tíma fyrr. Gústav ákvað þó að herja áfram á kaþólikka í Þýskalandi og ræna þá vistum á komandi vetri í stað þess að þurfa að lifa á byrgðum samherja. Gústav hélt því lengra inn í Þýskaland og tók fleiri bæi í leiðinni, flestir veittu enga mótstöðu þar sem að það mundi einungis enda í blóðbaði heimamanna. Um jólin 1632 höfðu því Svíar breytt úr sér á svæði sem náði frá Koblenz, við bakka Rínar, að Prag við Moldá.

Veturinn sem fylgdi átti eftir að verða afdrifaríkur. Gústav var nú á miklum þönum með herafla sinn. Hann byrjaði á því að fara inní Bæjaraland, síðar fór hann að Nürnberg þar sem hann mætti Wallenstein nýjum yfirmanni þýska heraflans. Gústav gerði misheppnað áhlaup á Wallenstein og missti marga af yfirmönnum sínum. Þá fór hann frá Nürnberg og stefndi á Austurríki. Nú sá Wallenstein sér leik á borði og náði með skjótum viðbrögðum að skera á birgðalínu Svía. Wallenstein hafði ætlað sér að bíða eftir að Gústav réðist á hann en tók að leiðast þófið og sendi hluta af her sínum í burtu. Það frétti Gústav og ákvað að nú væri hans besta tækifæri til árásar og lét her sinn þramma að bænum Lützen, þar sem Wallenstein beið fyrir innan múrana. Blautt var í veðri og yfirferð Gústavs gekk hægt og nóttina fyrir yfirvofandi bardaga sváfu menn Gústavs á blautri jörðinni en menn Wallensteins á þurru. Morguninn eftir höfðu Þjóðverjarnir kveikt í Lützen og stillt sér upp við hlið hins brennandi bæjar ofan á hæð þar sem fallbyssur þeirra voru í kjöraðstæðum. Bardaginn hófst með framrás sænska riddaraliðsins og þaðan var ekki aftur snúið. Það lá mikil þoka yfir stríðsvellinum ásamt því að fallbyssur beggja hliða skutu í sífellu sem jók á huluna yfir stríðsvellinum. Í bardaganum varð Gústav konungur, ásamt hans nánustu fylgdarmönnum, viðskila við herinn og beið bana. Bardaginn gekk á allan daginn og endaði með því að Wallenstein gaf skipun um að hörfa. Engin eftirför var veitt og Svíar því taldir sigurvegarar þar sem þeir stóðu eftir á vígvellinum, þrátt fyrir andlát konungsins.

Hér endar saga eins merkasta konungs Svíþjóðar en hann hafði gífurleg áhrif á evrópupólitík á þessum tímum jafnframt gerði hann Svíþjóð að ráðandi ríki í álfunni. Auk þessa er Gustav talinn vera einn merkasti hershöfðingi síns tíma.

Megin ástæður þess að honum gekk svo vel á stríðsvellinum voru þær að hann notaðist við aðferðir sem byggðust á auknum hreyfanleika hersveita, hann minnkaði stærð hverrar sveitar og fjölgaði skotliðum á kostnaði þeirra sem báru spjót. Gústav áttaði sig líka á möguleikum og getu fallbyssa og gerði þær að mikilvægum hlekk í her sínum. Hann lét gera léttari fallbyssur svo að hægt var að færa þær til í miðjum bardaga. Hingað til höfðu fallbyssurnar verið svo stórar og þungar að einungis var hægt að nota þær í upphafi bardagans en urðu gagnslausar þegar andstæðingurinn var kominn úr skotmáli. Einnig stytti hann spjót fótgönguliða, létti öll herklæði sinna manna og gerði framhlaðning að stöðluðum hlut. Gústav stofnaði líka fyrsta ríkisrekna herinn þar sem hver hermaður fékk borgað fyrir vinnu sína auk þess að fá þjálfun í meðferð vopna og mismunandi hernaðaraðgerðum. Þakka má þessum breytingum einna helst fyrir sigrana í ofangreindum stríðsátökum.

Gústav II Adolf var því mikill hershöfðingi sem stóð allt sitt líf í átökum. Fyrst í heimalandi sínu en síðar í allri álfunni þegar að hann blandaði sér inní 30 ára stríðið þar sem hann hafði gríðarleg áhrif á framvindu mála. Þá skráði hann einnig nafn sitt á spjöld sögunnar fyrir að koma með nýjar áherslur í hernaði og gera Svíþjóð að fyrsta ríkinu með ríkisrekinn her.

Það væri yndislegt að fá ábendingar um villur eða annað sem betur mætti fara.
omglolwutfail