Gerði þessa ritgerð í SAG203 fyrir stuttu og vildi bara prófa að setja hana hingað inn eftir að ég sá tilkynningu DutyCalls. Fékk 9 fyrir hana og er já frekar ánægð, enda lagði ég hellings vinnu í hana. Og já ég tala pínu öðruvísi þegar ég er að gera ritgerðir en venjulega.

Inngangur
Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um Japan í seinni heimsstyrjöldinni; útþenslu, kynþáttahyggju og sjálfsmorðssveitir. Ég ætla að leggja áherslu á útþenslu Japana í Kína og aðdraganda þess, og sjálfsmorðssveitirnar. Ég ætla að reyna að segja frá skipulega og með hlutlausu sjónahorni. Ég vissi mjög lítið um Japana í seinni heimsstyrjöldinni, enda er aðallega fjallað og talað um Hitler og Nasistana, og því valdi ég mér þetta verkefni.
Útþensla Japana í Kína
Þegar við tölum um seinni heimsstyrjöldina mörkum við upphaf hennar þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland þann 1. september árið 1939. En það sem margir vita ekki, er að stríðið hófst fyr í Asíu. Styrjöldin þar er miðuð við innrás Japana í Kína árið 1937 eða innrás þeirra í Mansjúríu árið 1931.
Í fyrri heimsstyrjöldinni náðu Japanir að yfirvinna nýlendur Þjóðverja í Kína og nokkrar af eyjum þeirra á Suður-Kyrrahafi. Á Parísarráðstefnunni var sjálfstæði Kína viðurkennt þó að Japanir vildu halda nýlendum sínum þar, en Vesturveldin voru á móti því. Japanir fylgdu sáttastefnu á árunum 1921 – 28 þar sem þeir vildu komast að samningum og viðhalda forréttindum sínum. Á fyrstu samningaviðræðunum, ráðstefnu níu-velda í Washington árin 1921 – 1922, urðu Japanir að viðurkenna pólitískt sjálfstæði Kína vegna þrýstings frá Vesturveldunum og voru neyddir til að afhenda þýsku nýlendurnar. Bandaríkjamenn komu á fót Opingáttar-stefnunni, sem í fólst jafnræði allra erlendra þjóða í Kína. Þrátt fyrir ósætti Japana við þessa stefnu héldu þeir áfram sáttastefnunni.
Árið 1928 mótmæltu Kínverjar útþenslustefnu Japana þar í landi og hófst þar mikill áróður, almenningur hætti að kaupa japanskar vörur og fleira þess háttar. Bandaríkjamenn studdu Kínverja vegna Opingáttarstefnunnar því hún verndaði viðskiptahagsmuni þeirra. Japanskir herforingjar ákváðu að myrða stríðshöfðingjann í Mansjúríu, þar sem löndin tvö höfðu svæði. Þetta leiddi til óróa í Mansjúríu og árið 1931 sprengdu kínverskir hermenn járnbrautarteina þar til að hindra viðskipti við Japana. Þá tóku Japanir tækifærið og lögðu undir sig alla Mansjúríu á stuttum tíma. Kínverjar kærðu þá fyrir Þjóðabandalaginu sem skipaði Lytton-nefndina, rannsóknarnefnd til að semja skýrslu sem var tilbúin 2 árum síðar. Þá var herstyrkur Japana í Mansjúríu svo mikill að ekkert var gert. Japanir sögðu sig úr Þjóðabandalaginu en þegar Kínverjar mótmæltu hjálpuðu Vesturveldin þeim ekki, nema Bandaríkin. Þeir sendu Kyrrahafsflota sinn um Asíuhöfin og utanríkisráðherra þeirra talaði illa um framferði Japana. Þetta gerði þó lítið annað en að reita Japana til reiði.
Fram að árinu 1938 voru Japanir tilbúnir til að fara sáttaleið við Vesturveldin ef þau vildu viðurkenna yfirráð Japana yfir Mansjúríu. Japanir byrjuðu að þróa hugmynd sína um að þeir skyldu verða forrystuþjóð Asíu og hrekja vestræn áhrif burt. Þessi hugmynd varð formleg árið 1938: „..en sýndu það í verki með sívaxandi ágengni og áróðri að Asía ætti að vera fyrir Asíubúa.“
Þjóðernissinnar Kína voru stöðugt að eflast með hjálp Bandaríkjamanna og voru Kínverjar með hroka við Japani. Árið 1937 lenti herflokkum landanna saman á Marco Polo brúnni, og eftir það hófu Japanir innrás í Kína. Kínverjar veittu mótspyrnu við hernámi þeirra eins og þeir gátu, en drógu sig án uppgjafar inn í fjallahéruðin þar sem þeir stofnuðu nýja höfuðborg. Bandaríkjamenn ákváðu þá að takmarka flutninga með mikilvægum efnum fyrir Japana, sem þeir notuðu til innrásarinnar, eins og olía, brotajárn og fleira.
Hlutur Bandaríkjamanna og Ástralíu
Japanar réðust á höfuðstöðvar bandaríska herflotans, Pearl Harbor á eyjunni Oahu árið 1941. Sú árás var gerð fyrirvaralaust og án formlegrar stríðsyfirlýsingar. Alls fórust um 2390 Bandaríkjamenn í árásinni og nokkur mikilvæg skip eyðilögðust. Fyrir þessa árás höfðu Bandaríkjamenn þessa aðstöðu ef til kæmi að grípa til vopna, en þetta gerbreytti öllu. Daginn eftir lýstu Bandaríkjamenn stríði gegn Japönum og þá byrjaði fjögurra ára stríð sem endaði með kjarnorkusprengjunum tveimur sem höfnuðu á Nagasaki og Hiroshima, og keisari Japans ákvað að gefast upp.
Ástralir voru skíthræddir við útþenslu Japana og töldu að ekki yrði langt þangað til þeir myndu hernema landið. Þeir voru það hræddir við innrás Japana, að þeir kölluðu heim hersveitir úr Mið-Austurlöndunum. En Bandaríkjamenn og Ástralir sameinuðust gegn þeim, og börðust einkum eftir að Japanir hernámu Filippseyjar.

Sjálfsmorðsárásirnar
Við lok heimsstyrjaldarinnar, eða frá október 1944 til stríðsloka, gripu Japanir til örþrifaráða til að breyta gangi stríðsins. Þeir þjálfuðu svokallaða sjálfsmorðsflugmenn, Kamikaze-flugmenn. Þeirra starf var að fljúga sprengjuflugvélum sínum á bandarísk herskip til að valda eins miklum skaða og hægt var.
Fram til haustsins 1944 hafði fjöldinn allur af japönskum hersveitum gert árásir á Bandaríkjamenn en án árangurs, þær ollu miklu mannfalli úr þeirra eigin sveitum. Þeir hófu að nota þessar sjálfsmorðsárásir þegar þeim var farið að ganga illa í stríðinu og voru ekki langt frá ósigri. Japan skorti reynda flugmenn því þeim gekk einnig illa í loftárásum, og ekki bætti úr að þeir óreyndu voru oftar sigraðir í einvígum við bandarísku flugvélarnar. Skortur á flugvélaeldsneyti spilaði líka inn í vegna kafbátahernaðar Bandaríkjamanna. Á seinni hluta árs 1944 voru herskip þeirra með miklu betri loftvarnir og sterkari, og ratsjárbúnaði sem varaði þá við flugvélum Japana í návígi. „Loftvarnirnar voru svo sterkar að venjulegar sprengjuárásir lukkuðust nær aldrei.“
Þá fyrst steig hugmyndin um sjálfsmorðsárás í flugvél fram á sjónarborðið. Þeir
kölluðu hana kamikaze, sem þýðir vindur guðs. Sjálfsmorðsmennina kölluðu þeir tokkotai, eða sérstakt árásarlið. Sá sem kom fram með þessa hugmynd var aðstoðaraðmírállinn Onishi Takejiro. Hann taldi þessar árásir nauðsynlegar til að vernda yfirráð Japana yfir Filippseyjum, en Bandaríkjamenn gerðu innrás þar í október árið 1944.
Að neita að taka þátt í sjálfsmorðsárás þótti mikil skömm, þó að flugmaður hafði rétt á því. Þeir gerðu þetta fyrir heiðurinn og fyrir keisarann, og fyrir árásir fengu flugmenn sér gjarnan sake og bundu hvítan klút um ennið, oft vopnaðir Samúræjasverðum. Oft buðu yfirmenn flugsveitanna sjálfa sig og flugmenn sína í árásirnar en flugmenn voru með skiptar skoðanir um þær. Margir voru þakkátir ef foringjar þeirra ákváðu að hlífa þeim en aðrir örvæntuðu þegar flugvélar til vantaði. Til þess að lokka fólk að og fá sem flesta var þjálfun þeirra stytt, aðeins tveggja vikna löng. Flestir flugmannanna voru nýkomnir úr skóla og höfðu enga reynslu, en þar sem þeir þurftu að fara í aðeins eina flugferð var námið stytt til muna.

Fyrsta sjálfsmorðsárásin var gerð þann 21. Október árið 1944 þegar flugvél Japanna flaug á ástralskt orrustubeitiskip í Filippseyjaklasanum. Þrír tugir sjóliða fórust og skipið skemmdist illa. Nokkrum dögum seinna var gerð önnur árás sem olli gríðarlegum skaða. Í janúar árinu eftir réðust hundruðir þessara véla á bandarísk herskip, margar vélanna voru skotnar niður og fáum skipum sökkt, en mörg urðu fyrir skemmdum. Á þessum mánuðum flugu 378 kamikaze-flugvélar að bandaríska flotanum, auk 102 flugvéla sem voru sendar til fylgdar kamikaze-vélunum. Vélarnar sökktu 16 bandarískum herskipum og 87 skip voru skemmd. Mesti skaðinn sem bandaríski flotinn varð fyrir var í apríl til júlí árið 1945, þegar orrustan á Iwo-jima var. Bandaríkjamenn lentu í 10 kamakaze-árásum með 1500 flugvélum, 21 skipi var sökkt og 43 skemmdust algerlega, 174 skip urðu fyrir minniháttar skemmdum. Talið er að a.m.k. 4300 bandarískir hermenn dóu og 5400 slösuðust. Alls dóu um 9500 Japanir í sjálfsmorðsárásum.
Kamikaze-árásirnar fóru fljótt að þróast, menn fóru að sækja að bandarískum skipum í fylktu liði, þar sem þær nálguðust þau úr mörgum áttum á sama tíma á meðan aðrar flugvélar hlífðu kamikaze-vélunum. Þetta tíðkaðist á Okinawa svæðinu og voru u.þ.b. 150 flugvélar sem fóru að skipunum í senn, hæst voru þær 350. Kamikaze-árásirnar ollu meira tjóni og mannfalli en talið hafði verið mögulegt með flugárás. Sjálfsmorðsárásirnar voru samt ekki aðeins í formi loftárása, litlir bátar fylltir sprengiefni og kafbátar sem sigldu á bandarísku herskipin voru einnig mikil hætta.
Óttinn við þessar árásir var mikill hjá bandarísku hermönnunum og reiði í garð Japana ríkti meðal þeirra. Þess vegna þorðu Bandaríkjamenn ekki að hefja innrás í Japan þegar þeir nálguðust það, þeir reiknuðu með nokkrum þúsundum sjálfsmorðsflugmanna sem biðu á flugvöllnum og hafði þetta áhrif á ákvörðun þeirra um að sleppa við landgöngu. ,,Þannig tengjast kamikaze árásirnar sögunni á bak við kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki, 6. Og 9. Ágúst 1945.“



Kynþáttahyggja Japana
Líkt og gyðingahatur og aría-dýrkun Nasista höfðu Japanir kynþáttahyggju. Þeir höfðu mikla óbeit á innfæddum, Kínverjum og á „hvíta manninum“, eða fólki frá Vesturveldunum. Eftir fall Singapore smöluðu þeir öllum kínverskum íbúum eyjunnar saman til skoðunar, og drápu marga. Þetta fjöldamorð var kallað grimmdarverkið. Valið á þeim sem myrtir voru var tilviljanakennt; þeir sem Japanir töldu vera á móti sér, fyrrverandi starfsmenn bresku nýlendustjórnarinnar og stuðningsmenn kínverskra kommúnista. Einnig þeir sem báru einhvers konar húðflúr, en Kínverjar báru þau margir sér til gamans, voru drepnir því það vísaði í þáttöku í einhverju leynifélagi. Herlögregla Japans, Kempeitai, stjórnaði þessum aftökum og voru þeir „seku“ hálshöggnir, skotnir eða reknir í gegn með byssusting.
Japanir ráku 300 stríðsfangabúðir á sigruðu svæðunum og heimaeyjum sínum. Þeir brutu Genfarsamninginn um meðferð fanganna og leyfðu þeim ekki að hafa samband við fjölskyldur sínar. Fangabúðirnar voru mjög mismunandi, í sumum þeirra var farið vel með fanganna og aginn lítill. T.d. máttu fangar í Zentsuji klæðast notuðum einkennisbúningum japanskra hermanna og þeir fengu 30 sígarettur á viku. Í Bandung var þeim leyft að opna mötuneyti þar sem hægt var að fá kjötrétti. Annars staðar var ástandið hræðilegt. Í Makassar var venja að lemja menninna reglulega með járnpípum, stundum 200 högg í einu. Fangarnir voru sumstaðar drepnir án nokkurra skýringa. Sums staðar var hundruðum manna troðið inn á lítið svæði þar sem þeir sváfu á steingólfi og hreinlætisaðstaða og matarskammtar voru í lágmarki. Margir voru látnir strita við að smíða járnbrautarteina með berum höndum og undir barsmíðum japönsku varðanna.
Óbreyttir borgarar voru valdir til að sjá um vændisbúðir innan japanskra herstöðva en japanski herinn taldi að þá væri hægt að fylgjast betur með kynsjúkdómum, bæta liðsanda innan hersins og hermenn þyrftu minna frí. Þegar vændiskonur fengust ekki með auglýsingum var þeim rænt og eru frásagnir þeim sem eftir lifa hræðilegar, en japanski herinn eða ríkistjórnin vilja ekki viðurkenna aðild þeirra í uppsetningu vændisbúðanna.
Lokaorð
Mér fannst mjög skemmtilegt og fræðandi að vinna þetta verkefni, en jafnframt mjög krefjandi. Ég komst að mörgu forvitnilegu um hlut Japana í seinni heimsstyrjöldinni, hversu mikið þeir áttu sameiginlegt með Nasistum Þýskalands.
Það sem mér fannst forvitnilegast voru sjálfsmorðssveitirnar. Ég hafði aldrei heyrt um þær áður og finnst skrýtið hvernig svona margir vildu fórna lífi sínu fyrir landið, og kaldhæðnislegt er að sá sem kom fram með hugmyndina um þessar sveitir framdi sjálfsmorð sjálfur þegar ljóst var að Japanir væru að tapa stríðinu, í staðinn fyrir að taka þátt í þessum árásum sjálfur. Hann uppgötvaði þær en lét aðra sjá um skítverkin. Þessar sjálfsmorðsárásir minna mig á allar þær sjálfsmorðsárásir sem gerðar hafa verið í Írak síðan Bandaríkin hófu innrás þar árið 2003. Þær eru að vísu ekki beinar að bandaríkjamönnum sjálfum, en hryllilegar engu að síður. En, ef maður hugsar aðeins út í það, þá gætu allir hermenn í seinni heimsstyrjöldinni kallast sjálfsmorðshermenn. Þeir voru hálfpartinn að fremja sjálfsmorð með því að taka þátt í svona stríði, reyndar drápu þeir sig ekki sjálfir, ef þeir dóu yfir höfuð en auðvitað voru margir sem lifðu af. Reyndar kusu þeir ekki alltaf sjálfir að ganga í herinn, í mörgum eða flestum löndum var herskylda.
Ég er fegin að í dag ríkir friður milli Bandaríkjanna og Japans, miðað við hvernig sambandi þeirra var háttað á stríðsárunum. Ég er líka fegin að það ríki nokkurn veginn friður, þó það verði örugglega aldrei alheimsfriður. Það er alltaf eitthvað stríð í heiminum, því miður.







Heimildaskrá


Heiferman, Roland. 1978. Seinni heimsstyrjöld. Reykjavík.
Skúli Sæland. http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=3727 Sótt 29. október 2009.
Skúli Sæland. http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6987 Sótt 29. október 2009.
Zich, Arthur. 1980. Sókn Japana – Heimsstyrjöldin 1939 – 1945. Reykjavík.
Wikipedia. http://is.wikipedia.org/wiki/Seinni_heimsstyrj%C3%B6ldin Sótt 28. október 2009.
Wolke, Lars Ericson. 2008. „Kamikaze – Ógnvænlegir sjálfsmorðsflugmenn keisarans.“
Sagan öll 3 (mars):22-29.
Seinni heimsstyrjöld. Reykjavík, 1978.