Saga vestrænna bókmennta hefst í Grikklandi hinu forna þegar Hómerskviðurnar voru samdar. Talið er að höfundur kviðanna hafi verið Hómer og hafa þær verið kenndar við hann. Kviðurnar tvær, Ilíonskviða og Oddyseifskviða hafa veitt mörgum mönnum og konum innblástur við gerð listaverka, leikrita, höggmynda og fleiri hluta í um 2700 ár.
Eins og fram kom áðan er talið að höfundur kviðanna hafi verið Hómer. En hver var Hómer? Þessari spurningu er ekki auðsvarað. Það er ekki á hreinu hvaðan hann er, hvenær hann var upp eða hvort hann hafi jafnvel verið til. Alls voru 7 staðir á Grikklandi hinu forna sem sögðust vera fæðingarborg hans. Það er samt sem áður ein sem er talin vera líklegust til þess að vera fæðingarborg Hómers og það er Smyrna, borg í Jóníu austan Ægishafs. Það er einnig mjög óljóst hvenær Hómer á að hafa verið uppi. Það má telja að hann hafi verið uppi allt frá 1200-500 f.Kr. Hómer á að hafa samið kviðurnar á 8. öld f.Kr og svo á hann einnig að hafa samið Hómerssálmana á 6. öld f.Kr. Þetta leiðir í ljós að Hómer hafi kannski ekki verið til. Margir fræðimenn hallast að þeirri skoðun að kviðurnar séu saman safn margra ljóða sem koma frá hinum og þessum höfundum. En svo eru aðrir fræðimenn sem hallast að þeirri skoðun að Hómer hafi samið Ilíonskviðu á æskuárum sínum og Odysseifskviðu á eldri árum sínum. Það má svo hafa verið að einhverju hafi verið breytt lítillega eftir að Hómer var uppi en það beytir þó ekki heildarsvip kviðanna.
Hómer var blindur og það voru gerðar margar höggmyndir af honum sem höggnar voru í dýrasta marmara. Þetta sýnir að Forn-Grikkir tignuðu Hómer og virtu hann. Hann er gjarnan sýndur sem svipmikill skeggjaður öldungur.
Það var á 2. árþúsundi fyrir Krists burð að þjóðflokkur sá, er nenfdist Akkear, bjó á Grikklandi og nálægum eyjum þess. Akkear sátu um borgina Tróju um 1200 f.Kr. Þetta umsátur stóð yfir í um 10 ár og varð til þess að Ilíonskviða varð til. Ilíonskviða er önnur Hómerskviðnanna og er talin hafa verið rituð á undan Oddyseifskviðu. Ilíonskviða er 15700 ljóðlínur og segir frá atburðum á 51 degi á 10. ári umsátursins.
Ef söguþráður Ilíonsviðu er rakinn í stuttu máli var það þannig að yfirhershöfðingi Akkea, Agamemnon hafði tekið ambáttina Brísesdóttur af Akkillesi. Akkilles reiddist Agamemmnoni svo að hann og menn hans hættu að berjast. Af því leiddi að Trójumenn höfðu brátt betur í bardögunum og fóru að þrengja að flota Akkea, en Akkear voru þá farnir að íhuga heimferð eftir 9 ára útivist. Akkilles stóðst ekki mátið og leyfði nánasta vini sínum og fósturbróður, Patróklesi, að fara út í bardagann, en því miður vó Hektor Tróju foringi Patrókles. Patrókles hafði fengið lánuð herklæði Akkilesar og héldu því Trójumenn að sjálfur Akkilles væri mættur á vígvöllinn. Akkilles lamaðist að fyrstu í hryggð sinni en hryggðin breyttist svo í máttugan hefndarhug. Kviðunni lýkur svo á því að Akkilles vegur Hektor eftir að hafa elt hann í þrjá hringi í kringum borgarmúra Tróju og misþyrmir líki hans með því að draga það eftir vagni sínum. Príamos Trójukonungur leysir svo út lík sonar síns.
Odysseifskviða er aðeins styttri en Ilíonskviða, eða um 12000 ljóðlínur. Kviðan er hrein ævintýrasaga, hún er dýrkun friðarins, fjölskyldunnar og heimþrárinnar en inniheldur grimmd og miskunnarleysi því hvar sem Odysseifur kom, framdi hann margvísleg dráp og glæpi.
Ódysseifskviða segir frá heimferð Odysseifs, en hann var einn mesti kappi Akkea og var einn af þeim sem földu sig inn í Trójuhestinum víðfræga. Odysseifur lendir í margvíslegum ævintýrum á heimleið sinni. Eftir að hafa dvalið í 7 ár hjá dísinni Kalypsó ákveða guðirnir á Ólymstindi að leyfa Oddyseifi að halda heim á leið. Oddyseifur og floti hans lenda í óviðri og Oddyseifi skolar nöktum að landi Feaka. Þar hittir hann konung Feaka og segir honum frá ævintýrum sínum. Hann segir honum frá þegar hann blindaði risann Polýfemus, son Poseidons, er menn hans opnuðu vindapokann sem var gjöf frá Eólusi vindakonungi og þegar hann komst fram hjá sírenunum. Kviðunni lýkur svo á því að Odysseifur kemst heim til eyjarinnar Íþöku þar sem Penelópa, konan hans, hefur beðið hans í 20 ár. Á meðan Odyseifur var í stríðinu og á leiðinni heim höfðu margir biðlar sest í bú hennar og Odysseifs vegna þess að hann var talinn af. Penelópa sagðist ætla að velja einn af biðlunum þegar hún væri búin að vefa vef sinn, sem hún óf á daginn en rakti upp á nóttunni. Odysseifur sigraðist á biðlunum með hjálp Aþenu og tók aftur við ríki sínu.
Nú halda margir að það hafi gleymst að segja frá aðalatburðunum Trójustríðsins s.s. þegar París rændi Helenu fögru og þegar Trójuborg var tekin með herbragði Trójuhestsins. Það er aðeins minnst á þessa atburði í Hómerskviðunum sem liðna atburði í samtölum. Fall Akkillesar fyrir Parísi er ekki heldur getið í kviðunum heldur í öðrum sögnum.
Kviðurnar tvær nutu mikilla vinsælda í hinum gríska heimi. Menn byrjuðu strax á 6. öld f.Kr. að sækja efni í kviðurnar. Sumir fóru að semja ný kvæði upp úr heilum og hálfum ljóðlínum úr Hómerskviðunum. Listamenn máluðu málverk af atburðum sem áttu sér stað í Hómerskviðunum og seinna meir voru samin leikrit upp úr Hómerskviðunum. Kviðurnar voru einnig notaðar sem skólabók til að stuðla að því að kviðurnar gleymdust ekki. Það var einnig, á 6. öld f.Kr. sem byrjað var að lesa upp úr kviðunum í Aþenu og varð þetta svo að venju að lesa upp úr kviðunum við ákveðin tækifæri. Þessi venja breyddist út frá Aþenu til fleirri staða.
Hómerskviðurnar eru í heild sinni eitt meistaraverk. Þær höfðu gríðarmikil áhrif á allt grískt menningarlíf og nutu hvarvetna vinsælda í hinum gríska heimi. Þó að það sé ekki vitað með vissu hvort Hómer hafi verið til er það staðreynd að Hómerskviðurnar hafa og eiga eflaust eftir að hafa áhrif á menningarlíf ýmissa þjóða og gjörðir ýmissa manna.
Aðalheimildirnar sem ég notaði í þessa grein eru eftirfarandi:
Árni Sigurjónsson. 1991. Bókmennta kenningar fyrri alda. Háskólaforlag Máls og menningar. Reykjavík.
Durant, Will. 1967. Grikkland hið forna I. Bókaútgáfa menningarsjóðs. Reykjavík.
Helgi Ingólfsson. 1995. Grikkland hið forna. Menntaskólinn í Reykjavík. Reykjavík.
Kviður Hómers II, Odysseifskviða. 1948. Bókaútgáfa menningarsjóðs. Reykjavík.
Veraldarsaga Fjölva. 1975. Fjölvi. Reykjavík.
Passaðu þrýstinginn maður!!