Smá yfirlit um Húna og hlutskipti þeirra í sögunni.
Gerði þetta fyrir þó nokkru í sambandi við skólaverkefni.
Heimildir fengnar úr ýmsum mannkynssögubókum.



Húnar komu frá Mið-Asíu eða Mongólíu, en fræðimenn hafa lengi deilt um nákvæman uppruna þeirra. Þeir hafa varla verið ein stök þjóð, en líklega hefur verið um að ræða bandalag ýmissa gresjuþjóða.
Þeir voru mongólskir í útliti, þ.e. lágvaxnir og skáeygir, og þeir voru töluvert ófrýnilegir því þeir skáru sig í andlitið af trúarlegum ástæðum. Þær óljósu fornu heimildir, sem til eru um þá, eru samdóma um að þeir hafi verið mjög grimmir.
Töluverðrar hylli nýtur sú kenning að Húnar hafi upphaflega verið herská hirðingjaþjóð sem Kínverjar nefndu Xiong-nú og bjó öldum saman á mótum Kína og Mongólíu. Kínverjar reistu múrinn sinn mikla til þess að verjast þeim og hröktu þá endanlega burt.
Húnarnir hurfu út á sléttur Mongólíu og Mið-Asíu en birtust tæpum tveim öldum síðar í Rússlandi og Úkraínu. Það litla sem er vitað um tungu Húna bendir til að þeir hafi talað tyrkneskt mál.


Húnar lögðu undir sig ríki Gota í Úkraínu og ríktu síðan yfir Austur-Gotum og ýmsum öðrum germönskum þjóðum í þrjá áratugi án þess að drægi til tíðinda.
Árið 400 fóru þeir að leita lengra í vesturátt og vöktu mikla skelfingu germanskra þjóða.
Þessi innrás Húna er oft talin marka upphaf þjóðflutninganna miklu, mikilla búferlaflutninga germanskra þjóða sem æddu yfir vesturhluta Rómaveldis næstu tvær aldirnar.
Þeir ættbálkar Gota sem bjuggu vestast flýðu niður á Balkanskaga og enduðu á því að ræna Róm árið 410. Fljótlega fóru fleiri germanskar þjóðir að ásælast rómversk lönd og má segja að þá hafi vesturrómverska ríkið aðeins samanstaðið af Ítalíu og norðurhluta Gallíu.

Húnar sjálfir höfðu staðnæmst á frjósamri sléttu sem þá hét Pannonía en er núna Ungverjaland. Segja má að þeir hafi ráðið öllum norður- og miðhluta meginlands Evrópu um þær mundir. Fjöldi germanskra þjóða var þeim skattskyldur og germanskir herflokkar þjónuðu í herjum Húna.

Árið 434 lést Húnakonungurinn Rugila og við konungstigninni tóku tveir bróðursynir hans, Bleda og Attila, eða Atli. Hann var þá tæplega þrítugur.
Í Vestur-Evrópu hefur Atla verið minnst fyrir miskunarleysi en sumar sögur lýsa honum þó sem heiðvirðum konungi. Nafn Atla hefur orðið tákn fyrir grimmd og villimennsku.


Fyrst fréttist af Atla þegar Húnakonungarnir gerðu samning við Þeódósíus II, keisara austurrómverska ríkisins. Samkvæmt honum fengu Húnar mikið magn af gulli fyrir að láta þá í friði. Þeódósíus treysti þeim þó alls ekki og byrjaði að styrkja múra höfuðborgar sinnar, Konstantínópel, sem heitir nú Istanbúl.
Atli og Bleda eyddu hins vegar næstu fimm árum í að ráðast gegnum Armeníu inn í Persaveldi en gekk ekki vel og voru fljótlega komnir aftur til Evrópu. Þá héldu þeir því fram að Þeódósíus hefði brotið samninginn milli þeirra og fóru með her sinn niður á Balkanskaga.
Herferðin tók þrjú ár, og hvarvetna unnu Húnar sigur.
Þeir réðu samt ekki við múra höfuðborgarinnar, Konstantínópel, en Þeódósíus vildi ekki taka áhættu af löngu umsátri og borgaði Húnum tvö tonn af gulli og árlegan skatt. Þetta dugði til að Húnar drógu sig í hlé.
Um 445 dó Bleda og rómverskar heimildir herma að Atli hafi myrt hann til að geta verið einráður, en það er ekki vitað fyrir víst.
Þeódósíus keisari hafði nú styrkt her sinn og neitaði að borga Atla skattinn, þá fór Atli með her sinn suður og komst alla leið í Laugaskörð þar sem Leonídas Spörtukonungur hafði fyrrum varist Persum. Þeódósíus varð að gefa Húnum stór landsvæði sunnan Dónár og borga þeim skatt.


Nú tók Atli að beina athygli sinni í vesturátt. Árið 451 réðst hann inn í Gallíu. Germanir sýndu honum engan mótþróa og borgir þeirra voru ekki snertar. Borgir annarra þjóða, sem sýndu mótspyrnu, voru jafnaðar við jörðu.
Þegar Húnarnir höfðu setið um borgina Orleans í tvo mánuði og veggirnir voru farnir að rifna sáust rómverskar hersveitir stefna að þeim. Aetius, foringi rómverska hersins, og Þjóðrekur, konungur Vestur-Gota, voru á leið gegn Húnum. Á leiðinni hafði Aetius safnað að sér mörgum herflokkum frá bandamönnum.
Atli hætti umsátrinu um leið og beið Rómverja og bandamanna þeirra á Katalánsvöllum, nokkuð austan við París og þar mættust þeir 20. júní 451.

Í ritum sumra seinni tíma sagnaritara öðlaðist orrustan við Katalánsvelli gífurlegt mikilvægi. Menn fullyrtu að þar hefði “framtíð vestrænnar menningar” verið að veði. Margir fræðimenn telja þó að þetta séu ýkjur.

Talið er að herirnir hafi verið nokkuð svipaðir að stærð, 30-50 þúsund manns hvor.
Barist var um lága hæð á miðri sléttu og í fyrstu var ekki hægt að sjá hvorir hefðu betur. Þegar hersveitir Húna gerðu tilraun til að ná hæðinni fóru menn Aetiusar til varnar og náðu að hrekja Húnana á flótta.
Flýjandi hermenn hleyptu öllu í uppnám og menn Þjóðreks brutust þá í gegn á hægri vængnum og ráku flóttann. Þjóðrekur sjálfur féll þá en lát hans fréttist ekki strax. Í stað fór sonur hans fyrir Vestur-Gotum sem ruddust framhjá búðum Húna þar sem Atli króaðist inni.
Þegar nóttin skall á vissu fáir í raun hver staðan var. Aetius var hreint ekki viss um að hann hefði unnið, en það varð ljóst næsta morgun.

Atli var núna innikróaður.
Þegar lík Þjóðreks konungs fannst vildi sonur hans ráðast strax á búðir Atla en Aetius sannfærði hann um að hann þyrfti að fara til heimaborgar sinnar og krýna sig konung. Eftir að Vestur-Gotar voru farnir sendi Aetius einnig burt frankneskar hersveitir sínar og þá var leiðin greið fyrir Atla að komast burt og sneri hann aftur til Pannoníu.
Ástæðan fyrir gerðum Aetiusar er sú að hann óttaðist Vestur-Gota ekki síður en Húna. Hann var smeykur um að ef ógnin af Húnum yrði skyndilega úr sögunni myndu Vestur-Gotar dreifa sér um allar leifar vesturrómverska ríkisins.
Við Katalánsvelli vann vesturrómverska ríkið síðasta sigur sinn í orrustu.



En einungis einu ári eftir orrustuna á Katalánsvöllum hélt Atli af stað til Ítalíu og Rómaborgar. Hann réðst á Aquiliu, best víggirtu borg á landamærunum, gáttina að Ítalíu. Umsátrið dróst á langinn en Húnarnir náðu loks að brjótast í gegn og rústa borginni gjörsamlega. Innrásin á N-Ítalíu hrakti íbúa þar m.a. út á fenjasvæði en sú flóttamannabyggð markaði upphafið að Feneyjum.
Nú sótti Atli fram en mætti einungis yfirgefnum borgum og eyðilagri uppskeru. Sumar borgir tóku á móti honum með fagnaðarlátum en hvergi var mótspyrna og vegurinn að Róm virtist greiður.
Loks fréttist þó af her sem kom á móti þeim og Atli gladdist mjög. Þegar það sem hafði virst vera her nálgaðist þá, kom í ljós að þetta var ekki venjulegur her. Fremst var maður í hvítum klæðum og í fylgd með honum voru menn í gylltum klæðum og þeir sungu.
Þessi söfnuður nam staðar á árbakka og maðurinn fremst sagðist vera Leó páfi. Atli reið einn fram og talaði við hann í smá stund.
Svo sneri Atli skyndilega við og fór með herinn aftur til Pannoníu. Enginn veit hvað Leó sagði við Atla eða hvaða brögðum hann beitti. Heimildir segja að Atli hafi verið hjátrúarfullur, og Leó gæti hafa nýtt sér það. Leó var fyrsti páfinn sem hefur verið kallaður “hinn mikli”.




Fljótlega bárust þó fréttir um að Atli væri að búa sig undir þriðju árásina, en áður en fréttin náði til Róm var Atli dauður, árið 453.


Hann hafði komið við í germönskum herbúðum þar sem ung stúlka sem hét Ildico kastaði sér fyrir framan hann og bað hann að þyrma föður sínum og bræðrum. Atli lét þá sækja föður hennar og bræður og drepa þá fyrir framan hana, en ákvað að giftast henni. Þá var haldin mikil veisla þegar hann giftist eins og hann hafði margoft gert.
Veislan stóð allan daginn og Atli át og drakk án afláts. Um hádegi næsta dag fóru hershöfðingjar hans að vekja hann en hann svaraði ekki. Þeir brutust inn og sáu Ildico grátandi yfir líki hans.

Til eru nokkrar kenningar um dauða hans en helst virðist að hann hafi fengið miklar blóðnasir í svefni, vegna drykkju og ofáts, og kafnað á blóðinu.

Gröf Atla var geysistór, og í hana voru settir ýmsir dýrgripir. Fjórir af hermönnum hans, sem höfðu krafist þess heiðurs að fylgja honum í dauðann, grófu gröfina og settu Atla í hana. Þeir voru síðan drepnir til að engin gæti nokkurn tíman fundið gröfina.

Eftir lát Atla tóku synir hans við en þeir rifust um völd sín á milli. Þeir voru sagðir hafa komið fram við hinar germönsku bandalagsþjóðir Húna eins og þræla. Germönsku þjóðirnar gerðu uppreisn gegn Húnum árið 455 og þar voru Húnarnir sigraðir. Eftir þetta gufuðu Húnarnir nánast upp og þeirra er varla getið í sögu Mið-Evrópu eftir þetta.
[i] "Snúinn aftur!" ...aftur[/i] - [b] ip tölu bann er sori..[/b] <[why, hello thar]