Florenz á tímum Medici - ættarinnar
Nú ætla ég að segja ykkur frá, líkt og nafn greinarinnar bendir til, Flórens á tímum Medici – ættarinnar. Þó mun ég ekki einskorða tímamörkin við valdatíma hennar. Ég mun rekja í stuttu máli stjórn Ítalíu og þá sérstaklega Flórens á þessum tíma og segja ykkur frá mörgum helstu listamönnum og listaverkum sem þá komu fram, en þar er víst af nógu að taka. Helstu heimildir sem ég notaði eru Lista saga Fjölva, Saga mannkyns ritröð AB, Mannkynssaga eftir Jón Thor Haraldsson og Saga mannsandans eftir Ágúst H. Bjarnason.
Á 15. öld var Ítalía klofin í mörg smáríki sem hvert og eitt laut einræðisstjórn eða fámennisstjórn ríkustu ætta. Þau ríki sem helst ber að nefna eru Feneyjar, Flórens, Neapel, Mílanó og Kirkjuríkin en þau lutu að nafninu til stjórn páfa þótt þau væru mjög sjálfstæð. Viðkvæmt valdajafnvægi ríkti og því þurfti ekki mikið út af að bregða til að þau færu í hár saman. Þau voru öll mjög auðug enda var Ítalía ríkasta land álfunnar á þessum tíma. Voldugar ættir þeirra höfðu oft áhrif á gang sögunnar með pólitískum ákvörðunum sínum. Ættirnar kepptu um völd og mikilfengleika. Medici – ættin, sem hafði auðgast af bankaviðskiptum og verslun, komst til valda í Flórens um 1430. Upphaflega hafði hún þó verið þekkt fyrir lækningar og af nafni hennar er orðið medicine dregið. Blómatími hennar og borgarinnar fer að mestu saman en það er á árunum 1430 – 1490, þegar Endurreisnin hófst í Flórens. Sá meðlimur Medici - ættarinnar sem fyrstur komst til valda, eftir mikil pólitísk átök við aðra volduga fjölskyldu, var Cosimo. Hann réði öllu sem hann vildi í borginni en lét lýðræðið halda sér að nafninu til. Hann lét byggja bókasafn sem er kallað eftir honum. Þar voru “allar bækur sem þurfa að vera í bókasafni, enga vantaði” eins og einn starfsmaður safnsins orðaði það. Sagnfræði, ljóð, heimspeki og náttúruspeki fornaldarinnar, bækur St. Thomas Aquinas og svo mætti lengi telja. Með þessu ætlaði Cosimo sér að laða alla helstu andans menn þessa tíma að Flórens og tókst vel upp. Í þessu kemur fram hin dæmigerða hugsun Endurreisnarmannsins, viðleitni til framfara og ást á list og vísindum. Fyrir að vera svo ötull stuðningsmaður þessa ávann hann sér virðingarheitið “pater patriae” eða “faðir fósturjarðarinnar”. Hann sat að völdum fram til 1462 og eftir það tók sonur hans, Piero, við völdum. Hann sat einungis í stuttan tíma við stjórnvöllinn og sonur hans, Lorenzo, tók næstur við völdum. Með honum skein frægðarsól Medici – ættarinnar og borgarinnar sem hæst. Hann fékk viðurnefnið “il magnifico” sem hefur ýmist verið þýtt sem hinn örvi, prúði eða glæsilegi. Tímar Lorenzos hins “glæsilega” í Flórens voru , líkt og Vasari, “faðir listasögunnar”, segir, “sannkölluð gullöld hæfileikamanna”. Lorenzo var mikill gleðimaður, gott skáld og studdi vel við bakið á listamönnum. Sem sagt, Lorenzo var sannur endurreisnarmaður líkt og Cosimo, afi sinn. Hann hélt ótal skemmtanir fyrir borgarbúa: skrúðgöngur, skógarferðir, burteiðar og margt annað þvíumlíkt. Ólga og óreiða Endurreisnartímans var einkennandi fyrir mannlífið. Óstýrilæti Endurreisnarmannana í Flórens í nautnum og breytni hlaut að lokum að vekja upp rödd hins guðhrædda manns. Menn sem enn aðhylltust hina gömlu heimsmynd héldu stundum að Endurreisnarmenn hefðu gjörsamlega sleppt beislinu fram af sér. Svartmunkur að nafni Girolamo Savonarola tók nú að mótmæla þessu gjálífi. Hann þóttist sjá spillingu í hverju horni, jafnt hjá veraldlegu sem andlegu yfirvaldi. Með eldheitum predikunum sínum tókst honum að hrífa hugi hinna glaðværu Flórensbúa. Vald hans varð svo mikið að hann gat neitað Lorenzo um blessun á banabeði árið 1492. En Savanorola megnaði ekki einn að stöðva allt straumfall samtíðar sinnar og tími siðbóta innan kirkjunnar var ekki runninn upp og íbúar Flórens brenndu hann á báli á ráðhústorginu í Flórens.
Endurreisnin var andleg hreyfing í allri Evrópu þar sem mismunandi menningarstraumar mættust. Hún fæddist á Ítalíu þar sem hraðinn og lífsfjörið var mest. Hún er oft bendluð óþarflega mikið við fornöldina þar sem Endurreisnarmenn sækja hugsunarheim sinn að verulegu leyti til hennar. En menn verða að skilja Endurreisnina út frá viðhorfi miðaldamanna til fornaldarinnar yfirleitt. Segja mætti að list Endurreisnarinnar sé mótuð af klassík fornaldarinnar og þeirri hugsun Endurreisnarmanna að maðurinn sé mælikvarði alls. Hún er því algjörlega einstakt fyrirbæri. Margbreytileikinn í listum var gífurlegur og hugsun fræðimanna mjög frjó. Víkjum nú aftur að valdatíma Lorenzo. Hann setti á fót e.k. listaskóla í aldingarði við höll sína undir forystu helstu listamanna þess tíma, Botticellis, Verocchios o.fl. Í höllinni sjálfri höfðu skáld og menntamenn aðsetur. Allir lifðu þessir menn í fríu húsnæði og mat hjá honum og gátu því einbeitt sér að list sinni af heilum hug. Fjöldi þeirra listamanna sem nam og þroskaðist eða starfaði í Flórens er nánast ótölulegur. Til skálda má telja Poliziano, sem þýddi Hómerskviður frá grísku yfir á latínu og gleðiskáldið Luigi Pulci. Til menntamanna má telja hinn aldna fóstra Lorenzos, Marsilio Ficino, sem fyrstur manna á Ítalíu nam grísk fræði og sökkti sér niður í heimspeki Platons. Hinn unga afburðamann og greifa Pico della Mirandola sem er eignuð hina fleyga setning: “Heimspekin leitar sannleikans, guðfræðin finnur hann, en trúin á hann.” Sagnfræðinginn Guicciardini sem skrifaði sögu Flórens á árunum 1494 – 1534. Niccolo Machiavelli sem samdi hið umdeilda rit “Furstann” og varð heimsfrægur fyrir og svo mætti lengi lengi telja.
Að lokum mun ég gefa nokkrum helstu forsvarsmönnum málaralistar, höggmyndalistar, byggingarlistar og fræðimennsku nokkra umfjöllun til að freista þess gefa örlitla innsýn í þessar greinar og hugsun manna á tímum Endureisnarinnar.
Leonardo da Vinci hefur verið talinn einn fjölhæfasti lista- og fræðimaður allra tíma og er kannski eitt besta dæmið um hugsunarhátt Endurreisnarmanna . Alheimssnillingurinn hefur hann verið kallaður, hann var allt í senn: frábær málari, myndhöggvari, arkitekt, verkfræðingur, hljómlistarmaður, náttúrufræðingur, stærðfræðingur, eðlisfræðingur og jafnvel leynilögreglumaður. Hann fæddist árið 1452 og var sonur virðulegs manns og 16 ára sveitastelpu. 15 ára gamall var hann sendur í listaskóla Lorenzos í Flórens. Leonardo var, líkt og aðrir samtímamálarar hans, meistari smáatriðanna í myndgerð og kemur það vel fram í verki hans Mónu Lísu. Skrifa mætti langt mál um hughrif frá mildri dulúðugri sálrænni túlkun, um hlutfallaprýði, hvernig fjarhvörf eru markvisst brotin í bakgrunni til að mynda dulda spennu, hvernig ljósi er varpað og töfrabrögðum blædreifingar beitt í skuggaskilum í fingrum, munnvikum og augnhvörmum, samt taldi da Vinci myndina ekki fullkláraða. Svo gríðarleg vinna og hugsun voru lögð í málverk á þessum tíma, Endurreisnarmenn voru orðnir svo hárnæmir fyrir óteljandi tilbrigðum listkenndarinnar að nútímamenn geta varla skilið það til hlítar. Listmálarar studdust jafnvel við stærðfræðilega útreikninga um hlutföll, fjarhvörf og aðra þannig hluti. Og enn kemur hugsun hins sanna endurreisnarmanns fram í orðum hans: “Það er aumur meistari ef hugmynd hans stendur að baki verki hans. En hinn er á leið til fullkomnunar sem á þá hugsun sem er víðfeðmari verkinu og fer fram úr því”. Verk da Vinci eru stórfengleg ekki síst þegar er haft í huga að hann var með smá lömun, ef svo mætti að orði komast, í hægri handleggnum.
Michelangelo Buonarotti var síðan annar snillingurinn, sem einnig nam í Flórens. Hann taldi sig fyrst og fremst myndhöggvara þó hann væri líka málari, ljóðskáld og arkitekt. “Fegurð er afl” áleit hann og fegurð og afl karlmannsins eru frá upphafi meginviðfangsefni hans. Enda var það Michelangelo sem skóp Davíð. Styttan er hrikastór í glæsilegri fagurfágun. Með henni sló listgöfgi nakins mannslíkama í gegn og varð óaðskiljanlegur þáttur evrópskrar listar. Ekki er unnt að lýsa stíl höggmyndarlistar Endurreisnarinnar í fáum orðum þar sem fjölbreytileikinn var mikill en þó mætti segja að mikil nákvæmni sé í verkunum og þau séu tignarleg. Síðar tók Michelangelo sér fyrir hendur, að vísu hálftilneyddur, að mála loft Sixtínsku kapellunnar. Til að byrja með þóttist hann taka lífinu létt sem framkvæmdarstjóri verksins og lét sér í léttu rúmi liggja hver árangurinn yrði í þessu verki sem hafði verið þröngvað upp á hann. En skyndilega er eins og hann verði heltekinn af verkinu. Hann sendir allt starfslið í burtu og lokaði sig inni liggjandi aleinan uppi á efsta palli og vann svo að segja sleitulaust í eitt og hálft ár. Og útkoman var ekki til að kvarta yfir. Það væri ekki orðum ofaukið að segja að Sixtínska hvelfingin er eitt stórbrotnasta sköpunarverk sögunnar. Því bera orð listamannsins: “Guð, gefðu að ég megi alltaf þrá meira en ég get áorkað” vitni um hversu sterk ást hans var á listum. Til gamans mætti síðan geta þess að meistararnir miklu, da Vinci og Michelangelo, mættust í eins konar “einvígi”. Þeir skyldu báðir gera risastór orustumálverk á borgarráðsvegg Gömlu hallar í Flórens. Frumdrög þeirra beggja vöktu mikla athygli sem meistaraverk teiknunar. Leónardó ætlaði síðan að slá Michelangelo út af laginu með tæknibragði, að nota olíuliti. En honum urðu á mistök, hrærði ullarfeiti í litina, sem storknuðu ekki. Í sumarhitum þegar hann var langt kominn með verkið tók það að leika niður vegginn og varð að aðhlátursefni. Svo sigurinn féll í skaut Michelangelos.
Brautryðjandi í byggingarlist var Filippo Brunelleschi. Hann á að hafa farið 18 ára að aldri með félaga sínum, myndhöggvaranum Donatello, til Rómar til að mæla út og teikna forn minnismerki borgarinnar. Hvort sem hann hefur farið með Donatello eða ekki er það deginum ljósara að e-n tímann hefur hann farið til Rómar og rannsakað rækilega fornar rústir og byggingar, svo sem Pantheon. Fyrsta tækifæri sitt til að sýna hæfileika sína sem arkitekt fékk hann fyrir tilstilli Medici – ættarinnar. Hún gaf honum færi á að endurbyggja fjölskyldukirkju þeirra og honum fór það verk vel úr hendi. Þriðja verkefni hans varð kapella Pazzi – ættarinnar. Í henni koma skýrt fram stíleinkenni fornaldarinnar. Bogadregnir drættir, kórinþskar súlur og notkun gullinsniðs. Ekki má gleyma því að þetta var alls ekki hugsunarlaus “stæling” fornaldarinnar. Stefna Brunelleschi náði fljótlega sterkum tökum á Flórensbúum og olli straumhvörfum í listhorfum manna. Fjöldi nýrra stílbrigða þróaðist út frá hugmyndum Brunelleschi. Og nú fékk hann stærsta og erfiðasta verkefni sitt, að reisa miðhvolf á volduga gotneska dómkirkju borgarinnar. Hann leysti það verkefni snilldarlega. Hann var staðráðinn í að láta hvolfið vera ekki í sama stíl og kirkjuna sjálfa og tókst það án þess að stílbrot kæmi fram. Þar fetaði hann milliveg sem kom meistaralega út. Hvolfið í Flórens telst meðal mestu listaverka sögunnar. Það er 45 metra hátt og 100 metra breitt. Burðarþolsvandamál leysti hann með reikningslegum formúlum sem hann setti fram og á meðan smíð hvolfsins stóð fann hann upp ýmis tæki og tól sem gerðu smíðina mögulega. Þegar hvolfþakið var loks komið upp krýndi það borgina tignarlega.
Menningarlíf í Flórens á tímum Endurreisnarinnar er því nánast ólýsanlegt. Fjölmargir listamenn þaðan höfðu áhrif á söguna og listaverk sem litu dagsins ljós voru hreint og beint ótrúleg. En ætli listfræðingnum Bernard Berenson hafi ekki tekist að orða þetta betur en mér þegar hann sagði: “Þegar málaralistinni sleppir, falla þeir Feneyjarbúar í gleymsku og dá. Öðru máli gegnir um þá í Flórens. Gleymum því að þeir voru miklir málarar, samt eru þeir miklir myndhöggvarar; gleymum því að þeir voru myndhöggvarar, og eftir sem áður eru þeir arkitektar, skáld og jafnvel vísindamenn”.
Heimildaskrá
Jón Thor Haraldsson. 1980. Mannkynssaga 1492 – 1648, bls. 22 –31 og 52 – 60. Mál og menning, Reykjavík
Ágúst H. Bjarnason. 1954. Saga mannsandans, bls.34 – 39. Hlaðbúð, Reykjavík.
Wirtz, Rolf C.1999. Florence. Art & Architecture, bls. 50 – 57. Könemann, Bonner Straße.
Þorsteinn Thorarensen og Ginu Pischel. 1976. ,,Miðaldir” . Listasaga (II. Bindi), bls. 348 – 413. Fjölfaútgáfan, Reykjavík.
Kåre Lunden. 1985. ,,Evrópa við tímamót”. Saga mannkyns (Ritröð AB), bls. 248 – 262. Snæbjörn Jóhannsson íslenskaði. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
Vefsíðan http://www.geocities.com/Paris/Gallery/2892/