Eitthvað stöff sem ég fann í tölvunni minni, ágætlega gömul grein sem ég skrifaði í menntaskóla. Vonandi er eitthvað varið í þetta :]

Tíberíus Claudius Nero var fæddur árið 42 f. Kr. Hann var stjúpsonur Ágústusar og var keisari í Róm á árunum 14-37 e. Kr. Það var mikið skrifað um valdatíma hans í Róm og sérstaklega voru það Tacitus og Suetonius sem skrásettu valdatíma hans (Bunson,Matthew. 1994:416-17). Þeir skrifuðu um hann sem vondan einvald og hann væri ávallt tilbúinn til þess að spilla blóði.
Tíberíus var fyrstur keisara af ætt þeirri sem kennd er við Júlíus og Cládíus, en Neró síðastur. Tíberíus hlaut af erfðum ákaflegt ættardramb, einsýni og viljastyrk. Hann var hár vexti, sterkur að afli og fríður sýnum, feiminn, klunnalegur í fasi, einurðarlaus, þunglyndur og einrænn. Hann fékk þá bestu menntun sem Rómaborg og Grikkland gátu veitt og auðgaðist af fjölbreyttri lífsreynslu. Hann varð lærður vel í bókmenntum, orti ljóð, sýslaði við stjörnuspeki og ,,afrækti guðina”. Hann unni Drúsusi bróður sínum, þótt Drúsus nyti miklu meiri vinsælda. Hann var Vipsaníu góður eiginmaður og launaði vinum sínum margfaldlega allar gjafir. Hann var strangasti og slyngasti hershöfðingi sinnar tíðar og hlaut ást og aðdáun hermanna sinna, af því að hann vakti yfir heill þeirra í hvívetna og sigraði í orrustum með herkænsku en ekki mannfórnum.(Durant, Will, 1993:300) Tíberíus var mjög góður hershöfðingi og hann sannaði það með sigrum sínum við Pannonia, Illyricum, Rhaetiu og Germaníu og lagði þar með grunninn að norðanverðum landamærum Rómaveldis. Tíberíus varð að valdamiklum manni í Róm og var heiðraður með því að gera hann að konsúl árið 13 f. Kr., sama ár og Drúsus sonur hans fæddist.
Það er stundum sagt að Tíberíus hafi ávallt þjáðst af þeirri byrði að ná jafnmiklum árangri og hinn mikli Ágústus gerði. Sem keisari þá var hann tryggur því sem Ágústus gerði í sínum valdatíma og þannig urðu þær aðgerðir sem Ágústus gerði, lög. Hann jók við völd keisaraveldisins því að hann sá það að þingið væri ekki tilbúið til að fara með þau völd og þær skyldur sem það átti að fara með. Þetta vantraust til þingsins átti eftir að leiða hann í hendur Sejanus.
Tíberíus var giftur tveimur konum yfir ævi sína, Vipsaníu Agrippinu og Julíu dóttur Ágústusar. Vipsanía var fyrri konan hans og hann átti eitt barn með henni, Nero Claudius Drusus. Hann giftist henni árið 20 f. Kr. og var neyddur árið 12 f. Kr. að skilja við Vipsaníu gegn hans vilja. Það var Ágústus sem stóð fyrir því að neyða hann til að skilja og giftast Júlíu dóttur Ágústusar. Tíberíus elskaði Vipsaníu og varð mjög sorgmæddur eftir skilnaðinn, Vipsanía missti einnig barn þeirra sem hún bar undir belti við skilnaðinn. Hann giftist Júlíu árið 11 f. Kr. og var það hjónaband eiginlega dauðadæmt frá byrjun. Júlía varð ófrísk eftir Tíberíus en missti barnið rétt eftir fæðingu. Árið 6 f.Kr. flúði Tíberíus til eyjunnar Rhódos og dró sig algjörlega til hlés og lifði á Rhodes í næstum því átta ár í rólegheitunum. Árið 2 f.Kr. var svo Júlia gerð útlægð til Pandateríu fyrir hjúskaparbrot og þar með var hjónabandi þeirra formlega lokið.
Það var í ágúst árið 2 e.Kr. sem Tíberíus mátti snúa aftur til Rómar, honum var bannaður aðgangur í smá tíma, en hann mátti ekki taka þátt í neinu sem tengdist almenningsmálum, hann var bara eins og hver annar Rómverji. Það var ekki fyrr en Lucius og Gaius barnabörn Ágústusar létust að það opnaðist leið fyrir Tíberíus inn í veldi Rómar. Ágústust ætlaðist til þess að Lucius eða Gaius myndi verða næsti keisari en þegar þeir deyja þá kom upp sá möguleiki að Tíberíus yrði keisari því Ágústus var giftur móður Tíberíusar, Livíu. Ágústus ættleiddi Tíberíus 27. júní árið 4 e.Kr. Þar með var ljóst að Tíberíus yrði næsti keisari. Fljótlega eftir ættleiðinguna var Tíberíus kominn til herdeildanna sem voru við Rín í Þýskalandi og átti hann eftir að fagna sigri. Tíberíus varð svo keisari eftir dauða Ágústusar 19. ágúst árið 14 e.Kr.
Fyrstu ár Tíberíusar sem keisara spiluðu synir hans stórt hlutverk hjá honum. Germanicus sem var ættleiddur sonur hans var fyrir hans hönd með hernum við Rín þar sem hann náði miklum árangri áður en hann var kallaður til Rómar þar sem hann var verðlaunaður og meðal annars varð hann konsúll hjá Tíberíusi og þar með var hann eyrnamerktur sem næsti keisarinn. Tíberíus sendi hann síðan til héraða austur Rómaveldis þar sem hann lenti í deilum við landsstjóra Sýrlands, Gnaeus Piso. Deilurnar enduðu með því að Germanicus varð veikur og á endanum dó 10. október árið 19 e. Kr. Piso var ákærður fyrir að hafa eitrað fyrir Germanicus og var dæmdur til að fremja sjálfsmorð, sumir hafa haldið því fram að Piso hafi verið að fara eftir skipunum Tíberíusar en það var bara grunur.
Drúsus var gerður að landstjóra í Pannoniu, sem var mikilvægt hérað í Rómaveldi, og gekk honum vel þar. Þegar hann snéri aftur til Rómar árið 20 þá var honum fagnað og var gefin konsúlsnafnbótin sem Germanicus hafði en þar sem hann var dáinn var Drúsus næstur í röð til að verða keisari og því við hæfi að gefa honum konsúlsnafnbótina. Drúsus lést árið 23 og kom í ljós átta árum eftir dauða hans að eiginkona hans Livilla hafði eitrað fyrir honum í samráði við leynilegan elskhuga sinn Lucius Aelius Sejanus.
Tíberíus leit á Sejanus sem góðvin sinn og mjög tryggan sér. Sejanus hafði þjónað keisarafjölskyldunni í næstum 20 ár þegar hann varð yfirmaður keisaravarðanna árið 15. Tíberíus byrjaði með tímanum að treysta sérstaklega mikið á Sejanus og menn hans því hann byrjaði jafnframt að vantreysta þingmönnunum. Árið 17 eða 18, það er ekki vitað með fullri vissu, gerði hann keisaraverðina ábyrga fyrir vörnum Rómar og þannig fékk Sejanus 6000-9000 hermenn undir hans stjórn inní Róm (Wikipedia. Tiberius) Þegar synir Tíberíusar voru fallnir frá þá hækkaði álit Tíberíusar á Sejanusi til muna. Tíberíus byrjaði að tala um hann sem félaga sinn og styttur af Sejanusi voru reistar víða í Róm. Sejanus varð mjög sýnilegur og þegar Tíberíus flutti sig frá Róm til eyjunnar Caprí þá varð Sejanus sá sem var settur við stjórnvölinn í Róm. Árið 31 byrjaði Sejanus á einhverju ráðabruggi og ætlaði sér að reyna fá meiri völd, hugsanlega sem einhvers konar landsstjóri. Tíberíus tók að gruna Sejanus um að vera að seilast eftir völdum og hann varð sannfærður eftir að Antónía, mágkona hans, sendi honum bréf þar sem hún varaði hann við Sejanusi. Tíberíus lét handtaka Sejanus með mjög skipulagðri aðgerð þar sem að hann réði yfir stórum her. Sejanus var færður í dýflissu þar sem hann var tekinn af lífi og allir sem tengdust honum, börnin hans, konan, vinir og stuðningsmenn.
Tíberíus hafði aldrei neinn mikinn áhuga á því að vera keisari og sést það bara vel á því að hann flutti frá Róm, höfuðborginni. Tíberíus var aldrei vinsæll hjá þinginu því hann efaðist alltaf um þingmennina. Á seinustu árum hans stóð hann líka fyrir mörgum réttarhöldum yfir mönnum sem áttu að hafa framið landráð. Þessi réttarhöld voru bara sjúkleg taugaveiklun og tortryggni hjá Tíberíusi enda varð hann mjög illa liðinn keisari. Málið með Sejanus og þessi réttarhöld sköðuðu orðstír hans mjög illa og mörgum sögum um hann var t.d. komið á kreik eins og að hann væri samkynhneigður.
Tíberíus dó 16. mars árið 37, 77 ára gamall. Mikið af fólki fagnaði dauða hans og vildi að líki hans yrði kastað í ánna Tíber en þar var kastað líkum af glæpamönnum. Það var Caligula, einkabarn Germanicusar, næsti keisari Rómaveldis sem kom í veg fyrir að hann fengi útför sem ekki væri sæmandi fyrir venjulegan þegn hvað þá keisara. Tíberíus var brenndur og aska hans geymd í grafhýsi Ágústusar.

Heimildaskrá
Bunson, Matthew. 1994. Encyclopedia of the Roman Empire. Facts on File, NY.
Durant, Will. 1993. Rómaveldi fyrra bindi. Mál og Menning, Reykjavík
Gibbon, Edward. 1979. Gibbon‘s Decline and Fall of the Roman Empire. Saturn Books, London.
Scarre, Chris. 1995. Chronicles of the Roman Emperors. Thames and Hudson, London.
Shotter, David. 1992. Tiberius Caesar. Routledge, London og NY.
Tiberius. http://en.wikipedia.org/wiki/Tiberius
|| Andmann