Glasnost og perestrojka
Mikael Gorbatjov komst til valda í Sovétríkjunum árið 1985. Hann var fljótur að innleiða breytingar á skipulagi kommúnismans, og gengu þær breytingar undir nafninu Glasnost og Perestrojka. Breytingarnar fólu í sér afnám ritskoðunar og hvatt var til opinskárrar umræðu – en öll gagnrýni á stjórnvöld hafði þangað til verið bæld niður í Sovétríkjunum. Einnig vildi Gorbatjov koma á endurskipulagningu, umbótum og nýsköpun í efnahagslífinu. Hann reyndi einnig að milda samskiptin við Bandaríkin og hitti hann leiðtoga þeirra, meðal annars til að ræða afvopnunarmál. Sá leiðtogafundur sem Íslendingar kannast best við var leiðtogafundurinn í Reykjavík árið 1986. Fundurinn fór fram í Höfða, og sumir vilja meina að þessi fundur hafi verið upphafið að endalokum kalda stríðsins.
Gorbatjov sagði að hann gæti ekki staðið lengur í vegi fyrir því ef eitthvert ríki vildi segja skilið við kommúnismann. Það gerðist svo fljótlega að ríki í Austur Evrópu létu á þetta reyna. Aðstæður í Austrinu voru mun verri en á vesturlöndum, efnahagur landanna var bágur, fólk lifði við skort og kúgun og mengun var mikil. Með tilkomu glasnost gafst fólki loks leyfi til að gagnrýna það sem miður fór, og menn sáu að kommúnisminn var ekki að virka eins og lagt var upp með. Fólk í Austur Evrópu sagði því hingað og ekki lengra, og mótmælti stjórnum landa sinna.
Því hefur verið fleygt um endalok kommúnismann í Austur Evrópu að þau hafi tekið tíu ár í Póllandi, tíu mánuði í Ungverjalandi, tíu vikur í Austur-Þýskalandi, tíu daga í Tékkóslóvakíu og loks tíu klukkustundir í Rúmeníu. Þetta á nokkurn veginn við rök að styðjast. Ekki gefst rúm til að fara nákvæmlega í fall kommúnismans í einstökum löndum, en þau voru með ólíkum hætti. Umbreytingarnar eiga það þó flestar sameiginlegt að litlu blóði var úthellt og fóru umskiptin víðast hvar friðsamlega fram og á stuttum tíma.
Það var árið 1989 sem þessi bylgja fór af stað fyrir alvöru. Það var seint á því ári sem Berlínarmúrinn féll – en hann höfðu Sovétmenn byggt til að hindra flutning fólks frá Austur Þýskalandi og yfir til vesturs. Múrinn var nokkurs konar tákn kalda stríðsins. Fall hans í nóvember 1989 var því táknrænt fyrir fall kommúnismans. Þessari bylgju lauk endanlega með falli Sovétríkjanna árið 1991. Öll ríki Evrópu höfðu þá sagt sagt skilið við kommúnismann, og þar mep þá sú stjórnmálastefnu sem setti einna mest mark á 20. öldina.
Ástæður fallsins og breytt heimsmynd
Nokkrir þættir áttu þátt í því að Sovétríkin liðuðust í sundur og má skipta þeim í langtíma og skammtímaorsakir. Langtímaorsakirnar voru meðal annars þær að efnahagsvandi var langvarandi og áætlunarbúskapurinn gekk ekki eftir. Sovétríkin voru vanþróað land í upphafi, og það gekk ekki að byggja nýtt þjóðskipulag í fjandsamlegu alþjóðaumhverfi. Sovétríkin einangruðu sig á alþjóðavettvangi og leiddi það til stöðnunar þeirra. Viðreisn Sovétríkjanna eftir heimstyrjaldirnar var dýr og mjög dýrt var að halda uppi þeim mikla vígbúnaði sem þau viðhöfðu á tímum kalda stríðsins. Illa gekk að hafa Sovétríkin sem fjölþjóðaríki, áhersla var lögð á sérstöðu ríkja á sama tíma og fólk taldi að “sovésk þjóðvitund” myndi vakna – í þessu fólst ákveðin mótsögn. Það var svo skortur á opinberri gagnrýni á því sem miður fór varð þeim svo að falli, enda er stjórnarandstaða nauðsynleg til að veita ríkisstjórnum aðhald.
Skammtímaorsakirnar voru m.a. þær að efnahagsumbætur Gorbatjovs skiluðu sér ekki. Framleiðsla dróst saman, verðbólga jókst, vöruskortur var viðvarandi og lífskjör fóru sífellt versnandi. Perestrojka og glasnost orsakaði það að fólk fór að spyrja sig hvort kommúnisminn ætti rétt á sér og það varð ofan á í flestum ríkjum að segja ætti skilið við kommúnismann. Upplausn ríkja breiddi úr sér, Eystrarsaltslöndin lýstu fyrst yfir sjálfstæði og önnur ríki fylgdu fljótt á eftir.
Gorbatjov reyndi að stöðva þetta með því að leyfa meiri sjálfstæði ríkja gagnvart Moskvu. Þessu hafnaði höfuðandstæðingur hans, Boris Jeltsín. Hann hafði meiri áhuga á að stjórna Rússlandi en að tryggja hagsmuni Gorbatjovs og Sovétríkjanna. Gorbatjov var svo neyddur til að segja af sér sem aðalritari kommúnistaflokksins árið 1991. Borís Jeltsín tók við af honum, Sovétríkin voru lögð niður og Rússland og fjölmörg önnur ríki mynduðust í kjölfarið
Eftir fall Sovétríkjanna og kommúnismans var landakort Evrópu stórbreytt. Ríki sem áður höfðu verið í ríkjasambandi, eða undir hæl Sovétmanna fengu sjálfstæði í upphafi 10. áratugarins. Í kjölfarið vænkaðist hagur bæði Evrópusambandsins og Sameinuðu Þjóðanna, en alþjóðastofnanir höfðu verið í nokkurs konar krísu í 50 ár. Valdajafnvægi heimsins var gjörbreytt og Bandaríkjamenn stóðu eftir sem eina risaveldið í heiminum.
Evrópusambandið hefur hug á að fylla út í þetta tómarúm og hefur stækkað mikið eftir fall Sovétríkjanna. 27 þjóðir eru í dag meðlimir Evrópusambandsins og fleiri Evrópuþjóðir eru að bíða eftir að fá inngöngu. Eftir fall kommúnismans hafa átök átt sér stað í fyrrum kommúnistaríkjunum og enn eru nokkur stór mál óútkljáð. Það er fyrirséð að landakort eigi eftir að breytast enn á komandi árum með tilkomum nýrra ríkja sem heimta sjálfstæði.
Niðurstöður:
Samandregnar eru niðurstöður mínar þessar um upphaf, lok og tilvist kalda stríðsins milli ausurs og vesturs:
Eftir byltingar í Rússlandi í byrjun 20.aldarinnar, þar sem bolsévikar komust til valda, tók kommúnisminn við sem þjóðskipulag. Kommúnískar hugmyndir bolsévika byggðu á ræðum og ritum Karls Marx. Með kommúnismanum átti að nást algert jafnræði meðal þegna landsins. Framleiðslutækin áttu að vera sameign allra íbúanna, og enginn átti að stjórna auðmagninu. Vladimir Lenín var fyrsti leiðtogi kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum. Hann var það þó ekki lengi og lést hann árið 1924 vegna heilsubrests.
Við tóku mikil átök í flokknum og fór það svo að Jósef Stalín tók við stjórnartaumunum. Undir stjórn hans voru Sovétríkin komin ansi langt frá sínum kommúníska uppruna.Alræði flokksins og einveldi Stalíns tók yfir stjórnina. Stalín hélt fólki sífellt hræddu, og losaði sig við sína helstu óvini raunverulega og ímyndaða með því að láta myrða þá eða senda í útlegð. Hann hvarf einnig frá jafnlaunastefnu og verkamannaráðin höfðu minna vægi. Til að reyna að ná jafnræði meðal fólks tók hann til bragðs að sameina jarðir bænda og búa til svokölluð samyrkjubú. Þetta fór mjög illa í bændur og með mótmælum sínum sköpuðu þeir mikla hungursneyð í landinu og milljónir létu lífið.
Sovétmenn töldust til sigurvegara seinni heimsstyrjaldarinnar og fengu að launum hluta af Þýskalandi. Hlutann nefndu þeir Austur-Þýskaland, og breyttu honum í kommúnískt ríki. Kjör þar voru mun lakari en í Vestur-Þýskalandi og flúði fólk þangað í hrönnum. Til að hindra flóttann var eins og áður sagði reistur múr sem skipti landinu í tvennt, og fjölmargar fjölskyldur voru sundraðar. Sovétmenn fjarlægðust vesturlönd sífellt meira og ríkti mikil spenna milli austurs og vesturs. Ástandið var kallað kalda stríðið og aðalleikararnir í því voru Bandaríkjamenn og Sovétríkin. Deilurnar voru hernaðarlegar, hugmyndafræðilegar og efnahagslegar og voru ríkin algjörlega andstæðir pólar. Bandaríkjamenn voru hræddir um aukin umsvif Sovétmanna í Evrópu og reyndu að gera allt til að stöðva útbreiðslu þeirra. Valdagrundvöllur ríkjanna var þó gjörólíkur í byrjun kalda stríðsins, og stóðu Bandaríkjamenn þar mun framar á flestum sviðum. Bæði ríkin hófu mikið vígbúnaðarkapphlaup og mikill metingur var á milli landanna. Kjarnorkuógnin hélt fólki hræddu í þau 50 ár sem kalda stríðið ríkti og var hún eitt megineinkenni kalda stríðsins, en sem betur fer kom ekki til þess að kjarnorkuvopnin væru notuð.
Undir lok níunda áratugarins komst Mikael Gorbatjov til valda í Sovétríkjunum. Hann vildi gera breytingar á kommúnismanum og þær kallaði hann glasnost og perestrojka. Breytingarnar fólu í sér afnám ritskoðunar og opnar umræður, en skoðanafrelsi hafði verið mjög lítið í Sovétríkjunum. Hann vildi einnig nútímavæða landið, en það var langt á eftir Vesturlöndum hvað lífskjör varðar og fátækt var mikil. Því vildi Gorbatjov gera breytingar á efnahagskerfinu og peningastjórninni. Þessar breytingar sem Gorbatjov taldi vera til bóta fyrir Sovétríkin voru þeim raunar að falli. Fólk fór að spyrja sig um tilvist kommúnismans og hvert landið á fætur öðru sagði skilið við hann. Umskiptin fóru oftast friðsamlega fram og gengu fljótt yfir. Á tveimur árum, milli 1989 og 1991, gjörbreyttist landakort Evrópu. Sovétríkin liðu undir lok og ekkert kommúnískt ríki varð eftir í álfunni.
Ástæður hrunsins voru margvíslegar. Viðvarandi efnagagsvandamál, hungursneyð, skortur á opinni umræðu og einangrun á alþjóðavettvangi voru meðal þeirra. Breytingar Gorbatjov voru ekki nægilega miklar og upprisa ríkja gegn kommúnismanum breiddi úr sér. Gorbatjov var látinn segja af sér og við stjórnartaumunum tók Boris Jeltsín. Sovétríkin voru lögð niður og Rússland byggði á grunni þeirra. Eftir fall kommúnismans hefur verið mikið um átök í fyrrum kommúnistaríkjunum og miklar deilur hafa staðið milli þjóðernishópa. Alþjóðasamfélagið er einnig af lifna við af værum blundi, sem hafði stafað af deilum milli austurs og vesturs í kalda stríðinu. Evrópusambandið og Sameinuðu Þjóðirnar eru orðin mun öflugri stofnanir en þær voru undir lok níunda áratugarins. Fall kommúnismans hefur haft bæði góða og slæma hluti í för með sér og mörg ríki eru enn að rétta úr kútnum eftir áratugi undir hæl Sovétríkjanna.
Heimildir:
Soviet. Britannica Concise Encyclopedia. Answers.com. Vefslóð: http://www.answers.com/topic/soviet (Skoðað 20 mars, 2008)
Garðar Gíslason. 2000. Félagsfræði 2 – Kenningar og samfélag. Mál og menning, Reykjavík.
Hildingson, Kaj. 1994. Austur Evrópa. Mál og menning, Reykjavík.
Ragnheiður Kristjánsdóttir. 4.8.2000. „Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma?“. Vísindavefurinn. http://visindavefur.is/?id=730. (Skoðað 25.mars 2008).
Sigurður Ragnarsson. 2007. 20. öldin – Svipmyndir frá öld andstæðna. Mál og menning, Reykjavík.
Sagan öll. 2007. „Rússneska byltingin“. 9.2007 : 21-29.