Þetta er ritgerð sem ég gerði í áfanganum Alþjóðastjórnmál og fjallar hún um sögu Sovétríkjanna. Ritgerðinni er skipt í þrjá hluta og mun ég setja heimildaskrána í seinasta hlutann.

Inngangur:
Í þessari ritgerð er ætlunin að reyna að varpa örlitlu ljósi á Sovétríkin, hvernig þau urðu til, hvers vegna og á hverju þau byggðu. Ég mun fara yfir sögu Sovétríkjanna og Rússlands frá árinu 1905 og til ársins 1991 en þá liðu Sovétríkin og kommúnisminn undir lok. Farið verður ítarlega yfir kalda stríðið sem ríkti milli Sovétríkjanna og vestrænna ríkja. Ég mun svo að lokum fara yfir ástæður þess að kommúnisminn féll í Austur Evrópu og hvaða afleiðingar það hafði.

Bolsévikar náðu völdum í Rússlandi eftir að hafa steypt keisarastjórninni af stóli með byltingu. . Þeir ákváðu að innleiða kommúnisma og breyttu nafni landsins í Sovétríkin. En hvað einkenndi Sovétríkin, og breytti þessi bylting einhverju fyrir hag íbúa landsins? Tókst að uppfylla þær breytingar sem kommúnisminn boðaði? Hvers vegna skiptist heimurinn í tvennt á tímum kalda stríðsins og í hverju fólust deilurnar milli austurs og vesturs? Hvað var það svo við stjórn Sovétmanna sem varð þess valdandi að kommúnisminn hrundi gjörsamlega undir lok níunda áratugarins?

Þessum spurningum mun ég reyna eftir fremsta megni að svara leitast við að gera þessum atriðum eins góð skil og hægt er á svona fáum blaðsíðum.

Ástæða uppreisnar:
Bolsévikar náðu völdum í Rússlandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar og með valdatöku þeirra var ljóst að heimurinn yrði ekki samur eftir. Kommúnistar voru nú í fyrsta skipti komnir til valda, en kommúnisminn var sú pólitíska hugsjón sem hafði einna mest áhrif á líf fólks á tuttugustu öldinni. Til að skilja ástæður byltingar Bolsévika verður að líta aðeins aftur í tímann. Rússneska byltingin, þar sem keisaranum var steypt af stóli og nýir valdhafar tóku við völdum, stóð yfir með hléum í rúm 12 ár. Allt frá árinu 1905 til ársins 1917 höfðu deilur milli lægstu stétta rússnesks samfélags og keisarafjölskyldunnar sett sinn svip á samfélagið.

Fólk var afar óánægt með stjórnarhætti Nikulásar II keisara og konu hans Alexöndru Fjodorovna. Nikulás hafði lítinn áhuga á þeim gífurlegu völdum sem hann hafði og kunni lítið að beita þeim og engan sérstakan áhuga hafði hann heldur á rússnesku þjóðinni. Alexandra var ásamt ráðgjöfum sínum afar íhaldssöm og hún barðist gegn öllum breytingum og málamiðlunum sem stjórnarandstaðan vildi fá framgengt. Landið mátti vel við breytingum, enda auðnum mjög misskipt og meirihluti þjóðarinnar bjó í mikilli fátækt. Keisarinn og hans stjórn virtist engan áhuga hafa á stöðu þjóðarinnar. Iðnvæðingin hófst, líkt og í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu, á 19. öldinni. Keisarastjórnin óttaðist hins vegar mikið að breytingar af völdum iðnvæðingarinnar hefðu einnig í för með sér breytingar á valdstjórn þeirra, en hún byggði á kúgun bændastéttarinnar. Á endanum tókst þó að sannfæra valdastéttina um að ef ekki yrði ráðist í iðnvæðingu yrði landið eftirbátur annarra ríkja og myndi missa stórveldastöðu sína. En áhrif iðnvæðingarinnar voru ekki alls staðar góð. Verkamenn liðu fyrir slæman aðbúnað í verksmiðjum þar sem öryggi var af skornum skammti. Sjúkdómar herjuðu einnig á fólk sem oftar en ekki bjó í hörmulegum húsakynnum.

Óánægjan blossar upp:
Það hlaut að koma að því að óánægjan brytist upp á yfirborðið í Rússlandi. Í friðsamlegum mótmælum þann 22. janúar 1905 flykktust þúsundir verkamanna að Vetrarhöllinni í Sankti Pétursborg. Tilgangurinn var að afhenda keisaranum skýrslu um erfiðleika og aðbúnað verkalýðsins og færa keisaranum bænaskrá. Varðsveitir keisarans brugðust illa við þessu og svöruðu með skothríð. Hundruðir verkamanna lágu í valnum. Óánægja fólks var ekki einungis tilkomin vegna mikillar vosbúðar heldur hafði stríð við Japani á árunum 1904-1905 einnig aukið óánægju fólks með valdamenn landsins. Rússneski herinn beið afhroð og í lok stríðsins höfðu ítök og landssvæði Rússa í Austurlöndum fjær minnkað til muna. Eftir ófarirnar gegn Japönum tóku verkamenn í Rússlandi upp á því að mynda sovét – eða ráð verkamanna Sovétin voru fyrst stofnuð árið 1905 en voru skömmu síðar bæld niður. Í sovétunum voru skipulögð allsherjarverkföll og bylgja mótmæla reið yfir landið Keisarinn náði með innantómum loforðum að draga úr krafti verkamanna og ekkert varð úr þeirri byltingu sem boðuð var fyrr en 12 árum síðar

Fyrri heimsstyrjöldin reyndist Rússum erfið. Rússneski herinn var illa búinn og hermenn neyddust oft á tíðum til þess að halda í orrustur utan Rússlands, vopnlausir. Mannfallið var því gríðarlegt í þeirra röðum. Samgöngur lágu niðri, og íbúar landsins þurftu að hafa mikið fyrir því að fá næringu og húsaskjól.

Bolsévikinn og leiðtoginnVladimir Lenín sem hafði verið sendur í útlegð árið 1905 sneri til baka árið 1917, um mánuði eftir að febrúarbyltingin hófst með verkfalli kvenna í vefnaðariðnaði. Hann gekk til liðs við hina bolsévísku félaga sína. Keisarinn afsalaði sér völdum vegna megnrar óánægju landsmanna og við tók bráðabirgðastjórn sósíalista og frjálslyndra undir forystu Alexanders Kerenskís. Sovétin spruttu nú upp eins og gorkúlur, rétt eins og árið 1905 og nutu þau stuðnings Kerenskís.

En ástandið í landinu versnaði stöðugt, en það má einna helst rekja til þess að Kerenskí neitaði að draga herinn úr heimsstyrjöldinni. Sósíalistar áttuðu sig á hvað fólkið í landinu vildi og lofuðu þeir friði, mat, jarðarbótum og því að minnihlutahópar fengju sjálfstæði. Bolsévikar höfðu mest ítök innan stjórnarinnar þó fáliðaðir væru. Þessum litla flokki tókst svo að bylta bráðabirgðastjórninni í Októberbyltingunni árið 1917, en Kerenskí hafði reynt að draga kraft úr Bolsévíkunum með því að fangelsa Trotskí, sem var í forystu Bolsévika ásamt Lenín. Bolsévíkar náðu völdum um haustið 1917, en völd þeirra voru ekki traust. Það má meðal annars rekja til þeirra friðarsamninga sem þeir gerðu við Þjóðverja árið 1918, en með þeim skuldbundu þeir sig til að láta stór landsvæði af hendi. Heima í Rússlandi þurftu þeir svo að berjast við hvítliða. Þeir komu úr borgarastétt og nutu stuðnings Bandaríkjamanna, Japana og landa í Vestur Evrópu sem óttuðust valdatöku kommúnista. Barist var allt til ársins 1922, en þá komst lokst á jafnvægi, en milljónir manna lágu í valnum. Sovétríkin voru formlega stofnuð sama ár.

Marxismi:
Sovétríkin byggðu á hugmyndum Karls Marx um kommúnisma, en hann var ötull talsmaður þess að samfélög ættu að vera stéttlaus og auðnum ætti að vera skipt jafnt milli allra. Þessar hugmyndir viðraði hann í Kommúnistaávarpinu, sem hann skrifaði ásamt félaga sínum Fredrich Engels. Marx hélt því fram að þeir sem stjórnuðu framleiðslutækjunum stjórni í raun samfélaginu í heild. Með eignarhaldi á framleiðslutækjunum gat fámennur hópur manna stjórnað, skipað fyrir og notið afraksturs vinnu meirihluta íbúa samfélagsins. Marx sagði efnahagslega uppbyggingu samfélagsins setja mark sitt á alla þætti menningarinnar, svo sem lög, trúarbrögð, menntun og ríkisvald. Hin ráðandi stétt hafði áhrif á alla þessa þætti, og þess vegna vernduðu lögin hina ríku en ekki þá fátæku.

Verkamennirnir skapa auðinn en fá aðeins brot af framleiðslu sinni til baka, á meðan vinnuveitendurnir græða á tá og fingri. Þetta kallaði Marx gildisauka og lýsti því þannig að verkamaðurinn reisti hallir en byggi sjálfur í hreysi. Hann sagði að verkamenn væru firrtir, og myndu glata hluta af sjálfum sér með því að vinna fyrir aðra og sjá aldrei afrakstur vinnu sinnar. Marx leit svo á að til að skapa jöfnuð í samfélaginu yrði að grípa til róttækra aðgerða á samfélagsbyggingunni. Fólk yrði að átta sig á stöðu sinni og rísa upp gegn firringunni sem það byggi við. Framleiðslutækin ættu að verða sameign íbúanna – kommúnismi í stað kapítalisma. Samkvæmt Marx átti þessi nýja samfélagsgerð að leiða til þess að hagsmunaárekstrar myndu hverfa, og hinir andstæðu hópar launamanna og vinnuveitenda myndu heyra fortíðinni til. Framleiðsla yrði ekki lengur einum ákveðnum hópi til hagsbóta, heldur myndu allir í samfélaginu fá jafn mikið í sinn hlut.