Karl mikli Frankakonungur Karl mikli Frankakonungur

Þau eru mörg stóru nöfnin í mannkynssögunni en þó hafa aðeins nokkrar manneskjur fengið þá einkunn að hafa verið miklar. Dæmi um slíkt er Alexander mikli, Pétur mikli, Katrín mikla og Friðrik mikli. Hér er ætlunin að gera einni af þessum manneskjum nokkur skil sem svo sannarlega átti ekki síst þessa einkunn skilda, Karli mikla Frankakonungi.

Nafn Karls er vissulega mjög stórt í sögunni og má segja að það tímabil í Evrópu sem hann er uppi á einkennist af honum og hans aðgerðum að langmestu leyti. Hann hafði ítök víða og útvíkkaði ríki sitt stöðugt meira eða minna allan þann tíma sem hann var við völd. Hugmyndin með þessari ritgerð er því að reyna að gera grein fyrir mikilvægi Karls mikla í sögunni og hvaða áhrif hann hafði á mótun ímyndar Evrópu í meginatriðum.

Aðdragandi keisaraveldið Karls mikla

Karl mikli var af frankverska ættarveldinu Carolingian. Ættarveldið hefur nafn sitt frá honum. Faðir Karls, Pepin hinn stutti, hafði verið fyrsti konungur Frankaríkis af þeirri ætt. Ættin hafði fram til þess haft embætti hallarvarða hjá ættinni sem áður réð ríkjum, Merovingian-ættarveldinu, áður en Pepin tók völdin í ríkinu af síðasta konungi þeirrar ættar, Clotaire II.

Carolingian-ættarveldið voru afkomendur Pepins hins gamla sem var valdamikill landeigandi sem hafði verið í þjónustu Clotaire II og gengt embætti borgarstjóra hallarinnar í Austrasia frá því um 584 til 629. Barnabarn hans, Pepin af Herstal, tók við embættinu og varð að lokum valdamesti maður Frankaríkisins þó Merovingian-ættarveldið stjórnaði áfram að nafninu til.

Óskilgetinn sonur Pepins af Herstal, Karl Martel, tók við af honum og varð að lokum leiðtogi alls Frankaríkisins. Hann stóð í miklum stríðum við ýmsar þjóðir en mestu sigrar hans voru þó á múslimum frá Spáni þegar þeir gerðu innrás í Frakkland 732 og 739.
Eftur dauða Karls var konungsríkinu skipt í tvennt á milli tveggja sona hans, Pepins hins stutta og Carloman. Carloman sagði þó af sér stuttu síðar og lagði Pepin þá allt fyrrum ríki föður síns undir sig. Hann tók sér síðan konungsnafn með því að reka síðasta konung Merovingian-ættarveldisins frá völdum árið 751 og var hann smurður af páfanum í Róm, Stefáni II, til þess 754. Sá atburður er allajafna talinn marka upphaf valdatíma Carolingian-ættarveldisins. Pepin stóð í stríðum við ýmsar þjóðir eins og faðir hans hafði gert og m.a. verndaði páfastól gegn árásum Langbarða sem bjuggu á Norður-Ítalíu. Þegar Pepin dó um 768 tóku tveir synir hans við ríkinu, Carloman og Karl.

Landvinningar og stríð

Karl var sennilega fæddur í Acchen, 2. apríl 742. Þegar Stefán II smurði föður hans til konungs 754 smurði hann einnig Karl og yngri bróður hans Carloman. Karl sóttist eftir bandalagi við Langbarða árið 770 með því að giftast dóttur Desideriusar konungs. Árið eftir lést Carloman bróðir Karls skyndilega og lagði Karl þá undir sig lönd hans og flúðu erfingjar Carlomans til hirðar Desideriusar. Um það leyti hafnaði Karl eiginkonu sinni sem leiddi til óvildar á milli hans og Langbarða.

Árið 772 bað Adríanus I páfi Karl um hjálp gegn Desideriusi og gerði Karl þá innrás inn í Ítalíu, sigraði Desiderius og tók sér konungstignina sjálfur yfir Langbarðaríkinu. Því næst hélt hann til Rómar og endurstaðfesti loforð förðus síns um að vernda lönd páfans.
Allt frá árinu 772 hafði Karl varist árásum hinna heiðnu Saxa á lönd sín og eftir árangurinn á Ítalíu hélt hann í herferð árið 775 gegn Söxum í því skyni að sigra þá og kristna. Sú herferð bar nokkurn árangur í upphafi en átti síðan eftir að dragast á langinn í um 30 ár.

Saxarnir voru skiptir niður í fjölda ættbálka en börðust af mikilli heift gegn Frönkunum og ekki síst kristninni. Þeir héldu fast í sína gömlu trú og bönnuðu kristni sín á meðal að viðlagðri dauðarefsingu. Karl var hins vegar staðráðinn í að kristna Saxana með valdi, enda var herförin gegn þeim farin í nafni kristindómsins, og háði stríð sín gegn þeim af gríðarlegri hörku og miskunnarleysi. Í eitt skiptið lét hann t.a.m. slátra 4.500 Söxum í einu í nafni kristninnar.

Á þeim 30 árum sem Karl barðist við Saxana háði hann mörg önnur stríð. Hann barðist t.a.m. árið 778 við múslima á Spáni, lagði Bæjaraland undir sig árið 778 og sigraði Avars-heimsveldið (nokkurn veginn Austurríki og Ungverjaland í dag) á árunum 791-796. Í þessum stríðum sínum sýndi Karl enga miskunn, sem fyrr er drepið á, og voru uppreisnir ennfremur barðar niður með miskunnarlausu ofbeldi. Í stríðinu gegn Avars-heimsveldinu var þeirri þjóð t.a.m. nær útrýmt.

Karl krýndur keisari Rómarveldis

Með því að hafa þannig komið frankverskri stjórn yfir svo margar þjóðir hafði Karl í raun byggt upp keisaraveldi og orðið keisari. Það eina sem hann vantaði var titillinn. Einn helsti ráðgjafi Karls, Alcuin af Jórvík, hafði hvatt til þess að Karl tæki að sér forystuhlutverk fyrir alla kristna menn. Ráðleggingar Alcuins byggðu á þeirri stöðu sem stjórnmálin voru í í Evrópu um þessar mundir. Í fyrsta lagi hafði Leo III páfi orðið fyrir samsæri í Róm og hafði flúið undir verndarvæng Karls í Paderborn í Saxlandi. Í annan stað hafði austrómverski keisarinn verið komið frá völdum af móður hans árið 797. Af þessum sökum taldi Alcuin gullið tækifæri fyrir Karl að taka sér keisaratign sem rómverskur keisari. Sá hann m.a. þannig fyrir sér endurvakningu hins forna rómverska keisaraveldis.
Karl kom páfa til hjálpar og endurheimti stöðu hans í Róm frá samsærismönnunum.

Á jóladag árið 800 kraup Karl niður í St. Péturskirkjunni til bæna. Ætlunin var að halda mikla veislu í kirkjunni til heiðurs aðalsmönnum Franka sem fóru fyrir herleiðangrinum til Ítalíu. Þegar Karl stóð upp frá bænum sínum lagði Leo III páfi kórónu á höfuð hans og lýsti hann hinn mikla, friðarkeisara Rómaveldis. Margir sagnfræðingar í dag álíta að páfinn hafi krýnt Karl sem keisara til að styrkja stöðu páfadóms í Róm og er mikið til í því. Hins vegar er spurning hvort titill sá sem Karl hafði þá þegar fyrir, sem patriarki Rómverja, hafi ekki verið nógur hafi þetta verið eina ástæða krýningarinnar. Það er þó ljóst að krýningin var að hluta til eins konar samningsatriði fyrir að koma páfa aftur til valda í Róm.

Ævisöguritari Karls, Einhard, skrifaði að konungurinn hefði verið hissa og jafnvel ósáttur út af þessari krýningu og hefði hann vitað af henni þá hefði hann ekki farið í kirkjuna þannan dag. Sagði Einhard að Karli hafi fundist að með þessu væri verið að setja vald hans undir yfirráð páfa. Einnig mun Karl hafa óttast að þetta gæti leitt til átaka við austrómverska ríkið. Þessi frásögn Einhards hefur leitt til mikilla vangaveltna meðal sagnfræðinga. Karl hefur þó sennilega langað í og búist við keisaratitli, enda nýtti hann sér titillinn síðar meir, en vera má að hann hafi ekki verið nægilega sáttur við forsendur krýningarinnar sem fyrr segir.

Krýning Karls, sem rómversks keisara, markar upphaf þýskrar og franskrar keisaratignar og er bæði forsenda krýningar Napoleons I sem keisara Frakka mörgum öldum síðar og keisaratigna Þjóðverja og Austurríkismanna. Í fimm aldir notuðu þýskir valdhafar ennfremur krýningu Karls sem réttlætingu á rómverskri metnaðargirnd sinni.

Árið 813 lýsti Karl eina son sinn sem lifði, Lúðvík, sem arftaka sinn og krýndi hann persónulega sem keisara. Lúðvík erfði lítið af kostum föður síns og skipti ríkinu upp á milli þriggja sona sinna eftir sinn dag. Ríkjahlutarnir samsvara nokkurn veginn því sem er í dag Frakkland, Þýskaland og Lothringen (Lorraine). Þessi uppskipting ríkisins leiddi síðan til átaka á milli erfingjanna sem síðan markar upphaf þeirrar spennu sem alla tíð síðan hefur einkennt samskipti Þjóðverja og Frakka meira eða minna.

Stjórnsýsla og menning í ríki Karls

Ríki Karls var ekki einsleitt ríki með samræmdum pólitískum hefðum. Miklar andstæður voru innan þess á milli hinna einstöku svæða ríkisins og þá einkum milli austurhlutans og vesturhlutans. Í samanburði við vesturhlutann var austurhlutinn vanþróaður þar sem efnahagurinn var nær enginn og bæjarskipulag þekktist svo að segja ekki. Ennfremur var friður ríkjandi í vesturhlutanum en horfurnar oft ekki eins góðar í austurhlutanum.
Stjórnun keisaradæmisins var byggð á um 250 konunglegum stjórnendum sem kölluðust greifar. Karl fylgdist reglulega með gerðum þeirra með því að senda eftirlitsmenn til þeirra. Þessir greifar sáu einnig um dómsmál í héröðum sínum. Karl gaf út hundruðir tilskipana og úrskurða sem náðu til allra sviða ríkisins.

Lagaleg uppbygging ríkisins var á þá leið að menn voru dæmdir samkvæmt lögum kynþáttar síns en ekki lögum þess lands sem þeir bjuggu í eða voru staddir í þegar afbrotið var framið. Frjálsum mönnum var síðan mögulegt að losna undan refsinsgu fyrir afbrot gegn ákveðið hárri peningagreiðslu til þess sem brotið var á eða aðstandenda hans ef um manndráp var að ræða. Allir hinir ólíku kynþættir sem byggðu ríkið lifðu þannig samkvæmt sínum eigin lögum, siðum og venjum sem var ekki síst til að tryggja friðinn og gera sigraðar þjóðir líklegri til að sætta sig við yfirráð Franka.

Ekki síður mikilvægur þáttur í ríki Karls en stríð hans var því sá friður, regla og menning sem hann stóð fyrir. Með sigrum sínum tryggði Karl frið á gríðarlega stóru landflæmi og með styrkri og víðsýnni stjórnun tókst honum að viðhalda þeim friði að langmestu leyti á meðal hinna ólíku íbúa ríkisins.

Menning Franka sjálfra var fremur frumstæð og jafnvel í sumum tilfellum varla hægt að tala um menningu. Þegar Karl tók ríki Langbarða á Ítalíu varð honum ljóst að menning Ítalíu var á miklu hærra stigi en menning hans eigin þjóðar. Menning sem átti sér þúsund ára sögu. Hann viðurkenndi fúslega menningarlega yfirburði annarra þjóða ef því var fyrir að fara og jafnvel þó viðkomandi þjóð hefði látið undan síga fyrir vopnavaldi.

Karl fleygði sér bókstaflega í fangið á þeirri menningu sem hann fann fyrir á Ítalíu og tók strax að kynna sér þessa hana. Hann flutti í því skyni m.a. marga menntamenn frá Ítalíu og til sinnar eigin hirðar í Acchen og veitti þeim fullt frelsi til fræðimennsku og rannsókna. Hann safnaði þó ekki aðeins fræðimönnum til hirðar sinnar frá Ítalíu heldur alls staðar að úr Evrópu. og var frægastur þeirra einmitt fyrrnefndur Alcuin of York.

Ólíkt fyrirennurum sínum stofnaði Karl höfuðborg fyrir ríki sitt sem var mun varanlegri en áður hafði verið. Uppáhalds búsetustaður hans eftir 794 var Acchen (Aix-la-Chapelle) og lét hann reisa kirkju og höll þar sem var að hluta til reist í stíl sem fenginn var frá Róm og Ravenna.

Byggingarlist í ríki Karls var þó fyrst og fremst byggð á trúarlegum forsendum. Mikil áhersla var lögð á að byggja kirkjur og klaustur í því skyni að styrkja trúarlíf í ríkinu og tryggja klerkastéttinni nóg af stöðum til að stunda trúarlega iðkun og fræðistörf.
Ennfremur stóð Karl síðan fyrir umfangsmiklum endurprentunum á kristilegum bókum í klaustrum auk veraldlegra rita s.s. ýmissa hetjukvæða. Hann stóð einnig fyrir því að við tókum upp arabískt letur í stað þess rómverska, en það eitt og sér hafði gríðarleg áhrif á menningarþróun Evrópu og hefur enn.

Niðurlag

Það er því ljóst að Karl mikli er mjög mikilvæg persóna í sögunni, en ekki bara vegna hinna mörgu sigra sinna eða vegna stærðar keisaraveldis hans,.heldur einnig fyrir hina sérstöku blöndu af hefðum og nýjungum sem hann stóð fyrir. Hann var í fyrsta lagi hinn hefðbundni germanski stríðsmaður sem eyddi mestu af fullorðinsárum sínum í stríð. Í stríðunum gegn Söxum neyddi hann þá til að skírast eða hljóta verra af og bældi niður uppreisnir með miskunnarlausum hætti. Á hinn bóginn lagði hann allt veldi sitt í þjónustu kristninnar, klausturlífs, latínukennslu, eftirprentun bóka og stjórnun í gegn um lög. Valdatími hans, sem varð að nokkurns konar fyrirmynd margra síðari tíma konunga, felur þannig í sér samruna þeirra germönsku, rómversku og kristnu menningarheima sem síðar urðu grundvöllur evrópskrar siðmenningar.

Hjörtur J. Hjartar


Heimildaskrá

Arnold, Benjamin: Medieval Germany 500-1300. A Political Interpretation. London. 1997.
Barraclough, Geoffrey: The Origins Of Modern Germany. Oxford. 1972.
Bäuml, Franz H.: Medieval Civilization in Germany 800-1273. London. 1969.
Boussard, Jacques: The Civilisation of Charlemagne. London. 1968.
Braunfels, Wolfgang: Karl der Grosse. Ein Baumeister Europas. Bonn. 1965.
Ludwig, Emil: The Germans. London. 1942.
Wagner, Monique: From Gaul to De Gaulle. An Outline of Frence Civilization. New York. 1998.
Með kveðju,