Ég var að horfa á Leno í gær, þar sem hinn skemmtilegi dagskrárliður “Jaywalking” var á skjánum. Þar hafði fjöruga fitubollan hann Jay farið og sýnt vegfarendum myndir af hinum og þessum þekktum einstaklingum, t.d. Rumsfeldt, George W. Bush og fleirum svona til að sjá hverja menn þekktu í sjón. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta er gert í þættinum og útkoman er alltaf sú sama. Bandaríkjamenn virðast yfir höfuð ekki vita neitt! Mér var nóg boðið þegar ein konan sagði aðspurð hvort hún hefði kosið í forsetakosningunum að hún “pældi ekkert sérstaklega í pólitík eða kosningum, maðurinn minn sér um allt svoleiðis”!!! Þetta kemur heim og saman við kannanir sem hafa verið gerðar á pólitískri þekkingu Bandaríkjamanna og það er fremur slappt til þess að hugsa að þetta ríki sem titlar sig mesta lýðræðisríki heims (Greatest Democracy on Earth) virðist hafa þegna sem að mestum hluta er skítsama um lýðræði og eru ekki einu sinni vissir um hvað það er. Í þeirri von að ástandið gæti andskotann ekki verið svona slæmt bar ég saman nokkrar stareyndir um kosningaþáttöku og -úrslit í Bandaríkjunum og Evrópu á síðustu árum. Og hér er það sem ég fann:

Við Íslendingar erum vön því að hafa tiltölulega hátt kosningahlutfall og segja má að hefð hafi skapast fyrir því að kjósa þegar kosið var í þjóðaratkvæðagreislu um lýðveldisstofnunina, en þá kusu nærri 99% þjóðarinnar (að mig minnir). Síðan þá hefur talan heldur dalað, en samt sem áður er hlutfall þeirra sem fara á kjörstað og greiða atkvæði enn frekar hátt, eða að meðaltali 86,4 % í Alþingiskosningum á tíunda áratugnum. Við skipum sjötta sæti á lista yfir hæsta kosningahlutfall í V-Evrópu og verður það að teljast nokkuð gott. Bretar eru t.d. þrátt fyrir langa lýðræðishefð aðeins í 19. sæti (af 25 ríkjum) með 74,7 % kosningaþáttöku (71,4 % í þingkosn. 1997).

Lítum nú á Bandaríkin. Kosningaþáttaka í þingkosningunum 2000 (House) í Bandaríkjunum var sláandi lítil eða aðeins 48,5 % ! Í Bandaríkjunum voru tæpar 206 milljónir manna á kjörskrá árið 2000 en innan við helmingur þeirra sá ástæðu til að nýta rétt sinn til að hafa áhrif á stjórn voldugasta ríkis heims. Af öllum ríkjum Evrópu er aðeins Sviss með lægri almenna kosningaþáttöku en Bandaríkin (næsta ríki fyrir ofan er Portúgal með 65,2% meðaltal) og jafnvel þá verður að gera ráð fyrir því að Svisslendingar kjósa í þjóðaratkvæðagreislum tvisar í mánuði um ýmis mál svo kosningaleiði er þónokkur þar í landi. Til samanburðar má nefna að Af 41 Afríkuríki á listanum eru aðeins 10 með lægri kosningaþáttöku en Bandaríkin, t.d. er vandamálaríkið Chad með sömu tölu og Bandaríkin, 48,5%. Vafasöm lýðræðisríki eins og Uganda, Sierra Leone, Mið-Afríkulýðveldið og Lýðveldið Congo eru öll mun ofar á listanum!

Hvað segir þetta okkur um álit bandarískra þegna á stjórnmálum. Er þetta vegna þess að þeim finnst pólitíkusar yfileitt spilltir eiginhagsmunaseggir? Varla því að það viðhorf er við lýði í velflestum lýðræðisríkjum hvort eð er :-) Er pólitísk hugsun Bandaríkjamanna þá máske bundin við forsetaembættið og ríkisstjórn? Ef svo væri ætti að vera meiri áhugi á forsetakosningum en þingkosningum. Við skulum athuga hvað tölurnar segja.

Þáttaka í forsetakosningunum 2000 í Bandaríkjunum var nálega sú sama og í þingkosningunum þar sem kosið var um allt klabbið í einu. Heldur fleiri tóku þó þátt í forsetakosningunum, eða 51,2 % Bandaríkjamanna. Ekki getur það talist góð þáttaka þrátt fyrir að tekist hafi að þoka tölunni upp fyrir helming! Þegar á það er litið að þetta voru mest spennandi kosningar í marga áratugi eru þetta sorglegar fréttir fyrir Bandaríkjamenn. Það sem er jafnvel verra, er að ef við hugsum málið út frá þeim sjónarhóli að atkvæðin skiptust um það bil jafnt milli þeirra Bush og Gore (hvor fékk um 47,9% af greiddum atkvæðum, Nader um 3% og aðrir minna en 1%) stöndum við frammi fyrir hörmulegri staðreynd. Forseti Bandaríkjanna, valdamesti maður heims, hefur aðeins hlotið stuðning 18,9 prósenta bandarísku þjóðarinnar í kosningum til embættisins! Af þessum 206 milljónum eru því aðeins tæplega rúmlega 50 milljónir manna sem sáu ástæðu til að greiða George Bush atkvæði sitt. Til samanburðar má nefna að þrátt fyrir að forsetakosningar á Íslandi séu ópólitískar (eða eigi að heita svo) sáu rúmlega 167 þúsund manns ástæðu til að kjósa í forsetakosningunum 1996, eða um 85,9 % þeirra sem voru á kjörskrá. Af þeim kusu rúmlega 40% Ólaf Ragnar Grímsson og má því segja með réttu að hann hafi mun meiri stuðning þjóðar sinnar en George W. Bush. Þjóðinni stendur að minnsta kosti ekki á sama um það hver gegnir þessu embætti.

obsidian


Heimildir:
http://www.idea.int/voter_turnout/index.html
http://www.fec.gov/elections.html (Federal Election Commission)
http://www.althingi.is