Hér verður fjallað um samskipti Íslendinga og Breta á millistríðsárunum, en það er kannski við hæfi að líta aðeins aftur um nokkrar aldir og sjá hvernig þessi samskipti þróuðust. Í upphafi höfðu Íslendingar helst samskipti við Norðmenn. Á 15. öld fara að koma hinar ýmsu þjóðir til þess að veiða fisk við strendur landsins og upp frá því fara Íslendingar að stunda meiri viðskipti við þær. Bretar verða síðan eitt öflugasta veldið hér á norður slóðum og nánast enginn sem gat storkað sjóher þeirra. Bretar verða sýnilegri Íslendingum með herflota sinn á Íslands miðum og fara að stunda meiri viðskipti við Íslendinga. Íslendingar verða efnahagslega háðari Bretum og komast þannig undir áhrifasvæði Breta. Á 19. öld gera gufuskipin það kleift að stytta leiðina frá Íslandi til umheimsins og færir það landið nær heiminum og kemur því til leiðar að það fær hugsanlegt gildi í hernaði.
Árið 1918 gera Íslendingar sambandslagasamning við Dani með ákvæði um hægt væri að segja honum upp að 25 árum liðnum. Á síðustu árum fyrrri heimsstyrjaldar og næstu árum á eftir versnaði efnahagur Íslendinga og erfiðlega gekk að selja vörur til annarra landa. Upp úr 1924 fór hagur Íslendinga aftur á móti að vænka, en stærstu viðskiptavinir Íslendinga voru þá Bretar og Danir. Árið 1921 fengu Íslendingar lán hjá breskum banka og við það styrktust tengsl Íslands við Bretland auk þess sem Bretar höfðu haft allt ráð landsins í höndum sér á árum fyrri heimsstyrjaldar. Árið 1919 kölluðu Bretar ræðismann sinn Eric Cable frá Íslandi og skipuðu hér íslenskan kjörræðismann í hans stað. Aðalverk Eric Cable var að fylgjast með hernaðar umsvifum Þjóðverja á Íslandi.
Síðan skall kreppan á landanum eins og annars staðar í heiminum og það varð mun erfiðara að selja saltfisk og koma öðrum vörum í verð. Flestar þjóðir drógu úr innflutningi á vörum og bætti það ekki efnahaginn á Íslandi. Kreppan varð sérlega slæm fyrir Ísland vegna þess að Íslendingar fengu helming tekna sinna með útflutningi og urðu að flytja inn mikið af lífsnauðsynlegum vörum sínum inn til landsins. Megnið af þeim kom frá Bretlandi. Einmitt á þessum erfiðu tímum komu upp alls konar hreyfingar sem sögðust geta leyst vandamálin sem herjuðu á þjóðum heims, það voru stefnur eins og kommúnismi, nasismi og fasismi. Enn versnaði ástandið þegar borgarastyrjöldin á Spáni braust út árið 1936. Spánverjar höfðu nefnilega keypt saltfisk af Íslendingum. Ríkisstjórnin brást við þessum vanda með því að hvetja menn til að veiða fleiri fiskitegundir en áður og framleiða lýsi og mjöl, en til þess að borga verslunarskuldir Íslands tók ríkisstjórnin 12 milljón króna lán í Bretlandi og jukust skuldir landsins frá 1929 úr 49 milljónum í 113 milljónir 1939.
Árið 1932 var gerður samningur á milli samveldislandanna í breska heimsveldinu sem fékk nafnið Ottawa-samningarnir. Þessir samningar voru gerðir á kreppu árunum og fjölluðu þeir um tolla hækkanir á innflutningi til samveldislandanna og ætluðu þessi lönd að reyna að vera sjálfum sér nóg. Þessir samningar komu mjög illa niður á Íslendingum þar sem að mestu viðskipti Íslands við Bretland var fiskinnflutningur til Bretlands. Sveinn Björnsson var sendur til Bretlands til að athuga hvernig þessi samningur myndi hafa áhrif á viðskipti Íslands og Bretlands. En orð Sveins Björnssonar lýsa því best hvað sumir Bretar höfðu í huga með þessum samningum.
Togaraútgerðarmenn og fiskinnflytjendur í Bretlandi hugsuðu sér gott til glóðarinnar að koma ár sinni vel fyrir borð í skjóli Ottawasamninganna. Togaraútgerð hafði ekki borið sig sem bezt hjá brezkum útgerðarmönnum undanfarið. Nú hugsuðu þeir sér, að tíminn væri kominn til að bægja erlendum fiski, þ. á m. íslenzkum fiski, frá brezka markaðnum með innflutningshöftum, en þó aðallega með svo háum tolli, að ókleift yrði að keppa um fiskinnflutning til Bretlands við brezka útgerðarmenn.
En bresk stjórnvöld höfðu ekki áhuga á því að skilja Íslendinga úti í kuldanum og sáu til þess að Íslendingar gætu selt fisk til Bretlands, þótt samningarnir við þá væru að sjálfsögðu ekki hagstæðir.. Aðalatriðið var að geta selt eitthvað til þess að halda íslensku þjóðinni frá gjaldþroti og Bretar höfðu sýnt í verki að þeir vildu taka tillit til hagsmuna Íslendinga. Á hinn bóginn höfðu Íslendingar nú misst af stórum hluta þeirra gjaldeyristekna sem þeir höfðu haft af saltfisksölu í Suðurlöndum og notað til innkaupa á nauðsynjum í Bretlandi, á sama tíma og útflutningur þeirra til Bretlands var skorinn niður. Þetta olli hér miklum vandræðum og leiddi m.a. smám saman til þess að Íslendingar urðu háðir Þjóðverjum í viðskiptum.
Þegar árið 1938 gekk í garð voru ekki góð teikn á lofti um að friður myndi haldast í Evrópu og íslenska ríkisstjórnin fékk leyfi frá alþingi að sækja um 12 milljón króna lán í Bretlandi. Átti að nota þessa peninga til þess að byggja síldarverksmiðju til þess að glæða smá lífi í efnahag landsins. Einnig ætluðu Íslendingar á sama tíma að fá fé að láni til þess að leggja hitaveitu í Reykjavík og byggingar á virkjun í Laxá. Hugsunin með þessu var meðal annars sú að ef til styrjaldar kæmi og samgöngum til landsins yrði lokað þá gætu fjöldi Íslendingar notað orkuna frá Laxá til að knýja híbýli sín og hitaveitan myndi gefa hita. Ekki má heldur gleyma hversu miklar tekjur myndu sparast við það að minka innflutning á kolum og olíu til landsins. Lánið átti einnig að nota til að greiða niður erlendar skuldir, en einmitt á sama tíma og Íslendingar sóttust eftir þessum lánum hafði Hitler tekið Austurríki og seildist eftir Tékkóslavakíu. Þannig að Bretar neituðu Íslendingum um þessi lán því að þeir vildu halda öllu fjármagni í Bretlandi til að hervæðast. Sveinn Björnsson var í Bretlandi haustið 1939 en þar átti hann samræður við Sir Frederick W. Leith-Ross sem var aðalfjármálaráðunautur bresku stjórnarinnar en í samtali Sveins Björnssonar kom þetta fram.
Það var á árinu 1936 eða 1937, að brezku stjórninni varð ljóst, að til ófriðar mundi draga á næstunni. Mikið var um umsóknir um brezk lán frá öðrum þjóðum um þetta leyti. Nú tók stjórnin þá ákvörðun að leyfa ekki nein lán til annarra landa nema til þeirra þjóða, sem vitað var um, að stæðu með Bretum, ef til ófriðar kæmi, vegna samninga í þá átt, opinberra eða leynilegra, og þá aðeins til vígbúnaðar. Þessi lán til Íslands féllu ekki undir þetta. Er eg spurði, hvers vegna brezka stjórnin hefði ekki komið hreinlega fram og látið fjármálaráðunetið, utanríkisráðuneytið eða Englandsbanka neita þessum lánum, sagði hann[Sir Frederick]: „Enginn mátti vita, hvernig var í pottinn búið. Það þurfti því að fela einhverjum, sem enginn vissi um, hver væri, að beita þessu valdi, játandi eða neitandi, eftir reglum þeim, sem stjórnin hafði ákveðið. Þetta lenti á mér. Mér þótti ekki alltaf jafngaman að neita; m. a. Fannst mér þetta hitaveitufyrirtæki merkilegt.“ Lauk svo. Að ég lýsti því nokkru nánar fyrir honum, eftir því sem eg þekkti til.
Ekki var nóg með það að kreppan væri að setja strik í efnahagsmálin hjá Íslendingum, en þá þurfti stríðsbrölt stórveldanna að koma í veg fyrir uppbyggingu á íslenskum efnahag.
Íslendingar reyndu að nota öll þau ráð sem þeim datt í hug í viðskiptum sínum við Breta, það er að segja Íslendingar versluðu við Þjóðverja í nafni hlutleysis enda var það bráðnauðsynlegt fyrir þá að geta selt sem flestar afurðir sínar. Íslensk stjórnvöld notuðu einnig ótta Breta við að Þjóðverjar myndu ná tökum á Íslandi ef Íslendingum yrði ekki leyft að koma meira af vörum sínum inn á breskan markað. Bretar gátu hins vegar ekki hleypt Íslendingum meira inn á markaði sína vegna Ottowa-samninganna. Vegna þess að Íslendingar áttu í markaðsvandræðum urðu þeir að selja þær til Þýskalands, þótt það væri ekki alltaf hagstætt vegna vöruskipta, og þar með að auka á tengsl sín við Þjóðverja. Á þennan hátt náðu Þjóðverjar líka efnahagslegum tökum á Íslandi. Bretar höfðu áhyggjur af því að Íslendingar myndu tengjast þýskalandi efnahgslegum böndum. Enda reyndu bresk stjórnvöld að gera það sem þau gátu til að aðstoða Íslendinga í viðskiptum þeirra við Breta. Einnig voru bresk stjórnvöld tilbúinn að athuga hvað þyrfti að gera fyrir íslensk stjórnvöld til að koma í veg fyrir efnahagslegt hrun á Íslandi. Íslendingar voru líka eins og áður segir nokkuð iðnir við að nota þýsku hættuna við Breta til að ná efnahagslegum áviningum fyrir þjóðina. Og þrátt fyrir hlutleysi Íslendinga út á við þá reyndu íslensk stjórnvöld að koma því á framfæri við Breta að þau myndu aldrei taka málstað Þjóðverja og vildu helst af öllu eiga viðskipti við bresku þjóðinna.
Árið 1933 fóru bretar að hafa meiri áhyggjur af öryggi Íslands þar sem að maður að nafni Howard Little sendi ýktar fréttir af ástandinnu á Íslandi til Bretlands. Little sagði frá því í bréfum sínum að nasistar marseruðu um götur Reykjavíkur í hundruða tali og Þjóðverjar væru komnir með aðstöðu fyrir flugvelli á Íslandi. Ísland ætti í fjárhagslegum erfiðleikum og það yrði auðvelt fyrir Þjóðverja að taka Ísland sem hefði engan her eða nokkurs konar varnir í eða við landið. Breska ríkisstjórnin ákvað að senda Eric Cable aðalræðismann sinn frá Kaupmannahöfn 1934 til að athuga aðstæður á Íslandi, en hann hafði verið hér umsvifamikill ræðismaður í fyrra stríði og þekkti vel til. Cable komst að því að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af nasistum á Íslandi. Nasistahreyfingin væri lítil og áhrifa-laus. Bretar höfðu samt áhyggjur af því að Þjóðverjar myndu koma sér upp bækistöð fyrir flota sinn á Íslandi, enda myndi þeir fá sterkari stöðu á Atlantshafinu og betri hernaðarlega stöðu gegn Bretum ef til styrjaldar kæmi, þannig að bretar höfðu ástæðu til að óttast hvað Þjóðverjar ætluðu sér með Ísland. Haustið 1936 sendu Bretar til Íslands aðalræðismann sem hét John Bowering, en hann var fyrsti útsendi ræðismaðurinn frá því að Cable hélt heim í lok fyrra stríðs. Bowering sendi ríkisstjórn sinni upplýsingar um að lítið væri hæft í skrifum Littles en benti á að Ísland stæði mjög illa efnahagslega og gaf þar með í skyn að Þjóðverjar kynnu að notfæra sér erfiðleika Íslendinga. Jafnvel þó að Bretar hefðu ekki áhuga á því að koma sér upp aðstöðu á Íslandi, vildu þeir samt sem áður halda áhrifum sínum hér eins og þeir höfðu gert í fyrri heimstyrjöldinni og umfram allt koma í veg fyrir að Þjóðverjar hreiðruðu hér um sig.
Samskipti Íslendinga og Breta á millistríðsárunum 1918 - 1939 einkenndust af gagnkvæmri virðingu og vinsemd. Íslendingar voru að reyna að ná sér upp úr kreppu og koma lífi í efnahagsmálin á fjórða áratug og reyndu hvað þeir gátu til að komast sem mest inn á breskan markað með vörur sínar. Bretar voru tilbúnir til þess að liðka fyrir Íslendingum því það var mikilvægt fyrir þá að halda Íslandi á áhrifasvæði sínu, en áttu erfitt um vik vegna samveldishagsmuna. Sama gilti um fjármál. Bretar sáu að Ísland gat haft hernaðarlega þýðingu í styrjöld og kepptu að því að koma í veg fyrir að Þjóðverjar fengju hér aðstöðu, án þess að hafa neinn hug á því að nota landið sjálfir í hernaði.
Heimildarskrá
Sveinn Björnsson, Endurminningar, Sigurður Nordal sá um útgáfuna, 1957.
Þór Whitehead, Ófriður í aðsigi, Reykjavík, 1980.
Advertisements contain the only truths to be relied on in a newspaper.