Á hverju ári koma út nokkrar kvikmyndir byggðar á atburðum úr mannkynssögunni. Eins og gengur eru þær afar misjafnar að gæðum, og söguleg nákvæmni er einnig misjöfn. Bara til að taka snögghugsuð dæmi:
Hin þýska Der Untergang var bæði feykivel gerð og fylgdi sögunni (eins og best er vituð) mjög nákvæmlega. Gladiator var einnig mjög flott mynd, og þó að sögulegt fræðslugildi hennar sé takmarkað, gagnast hún þó vel í að vekja áhuga á Rómarveldi. 300 er hinsvegar algerlega á jaðrinum. Í raun er þetta ævintýramynd sem hefur lítið með mannkynssögu að gera þó söguþráðurinn sé (mjög lauslega) fenginn úr henni. Það er svo sem ekkert út á það að setja, enda listavel gerð ævintýra- og bardagamynd. En ekki skil ég hvernig Íranar (eða nokkrir aðrir) gátu tekið hana svo alvarlega að þeir móðguðust.
Tilefni þessara pælinga er annars mynd sem kom út fyrra en ég kom ekki í verk að sjá fyrr en núna nýlega; Apocalypto Mel Gibsons. Hann hefur greinilega lengi verið söguáhugamaður, það sýna myndir sem hann hefur leikið í; Gallipoli, The Bounty, The Patriot, We Were Soldiers – og sérlega þær stórmyndir sem hann hefur framleitt og leikstýrt; Braveheart, (að minna leyti) The Passion of the Christ og svo sú sem hér um ræðir.
Apocalypto gerist í Mið-Ameríku einmitt um þær mundir sem Spánverjar koma þangað, þó ekki hafi persónur myndarinnar hugmynd um það fyrr en í lok myndar! Sögð er saga ungs manns af frumstæðum veiðimannaættbálki sem býr í frumskógunum. Dag einn fara grimmir ræningjar um þorpið hans með báli og brandi, og taka hann til fanga ásamt fleiri þorpsbúum. Þeim er smalað líkt og þrælum í langa þrautagöngu yfir skóga og fjöll. Þegar þeir koma loks á leiðarenda, sem reynist vera Maya-borg með tilheyrandi pýramídum, verður þeim ljóst að þeir eru “fórnarlömb” í bókstaflegri merkingu. Vinum söguhetjunnar er skellt upp á altari og skorið úr þeim hjartað.
Ég er nú enginn sérfræðingur í sögu Mið-Ameríku, en mér skilst að lítið hafi verið um blóðfórnir hjá Mayum, en þeim mun meira hjá Aztekum. (Hélt reyndar þegar ég sá myndina að þetta ættu að vera Aztekar). Svo hrottafengnar þóttu þessar aðfarir hjá þeim að þær gengu fram af spænskum konkvistadorum, sem seint yrðu þó taldir meðal mestu mannvina sögunnar.
Allavega, þá tekst söguhetjunni að sleppa við að vera fórnað, en þá tekur ekki betra við því nú á að nota hann sem lifandi skotmark stríðsmannana sem áður tóku hann til fanga. Hefst nú mikil eftirför og myndin breytist í hreinræktaða hasarmynd þar sem söguhetjan nýtir sér veiðikunnáttu sína til að plokka niður andstæðingana einn af öðrum, á mis-grófan hátt. Myndin er eins og fyrri myndir Melsins, bæði fantavel gerð og á köflum fantaleg.
Það var þó líklega endirinn sem ég var hvað hrifnastur af. Ef einhver vill ekki vita, EKKI LESA LENGRA!
Myndin endar þannig að söguhetjan er búinn að koma öllum stríðsmönnunum fyrir kattarnef nema tveimur. Eftirförin berst út úr frumskóginum og niður í fjöru, þar sem hún endar mjög skyndilega! Söguhetjan og stríðsmennirnir tveir stara agndofa út á haf… á stór og skringileg skip og ennþá skringilegri menn róandi árabát í land. Spánverjar eru mættir á svæðið!
Þetta er að mínu mati táknrænasti atburður myndarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem frumbyggjarnir gleyma öllu því sem þeir voru að gera, jafnvel þó það hafi verið blóðug og mannskæð eftirför! Spánverjarnir líta í þeirra augum út eins og verur úr öðrum heimi (sem þeir auðvitað eru í ákveðnum skilningi). En líka í augum okkar áhorfenda, sem undanfarna tvo tíma höfum aðeins séð frumbyggjana og lifað okkur inn í söguþráðinn. Söguþráð sem ekki skiptir lengur máli, því akkúrat á þessum tímapunkti eru að verða risavaxin straumhvörf. Við vitum að innan örfárra ára munu hin fornu menningarsamfélög Maya og Azteka þurrkast út og líf frumbyggjanna breytast að eilífu. “Apocalypto”, ragnarökin sem titill myndarinnar er líklega að vísa í, eru að hefjast.
Svo mörg voru þau orð hjá mér, en gaman yrði að fá fleiri álit. Á þessari mynd, og á fleiri myndum og sögulegri nákvæmni (eða ónákvæmni) þeirra. Endilega komið með dæmi ef þið munið eftir. Eins yrði gaman ef einhver nennti að skrifa grein um þá atburði sem vísað er til í myndinni, því það er mjög áhugaverð saga.
PS: Því má svo bæta við að ekki voru allir jafn hrifnir af myndinni og ég. Afar mismunandi álit má lesa á http://www.rottentomatoes.com/m/apocalypto/
_______________________