Sagnfræði og kvikmyndir Það virðist vera í tísku núna að gera kvikmyndir eftir sögulegum atburðum. Sérstaklega hefur stríðsmyndaflóran fengið aukið vægi á ný á síðustu árum allt frá því að “Saving Private Ryan” sparkaði ærlega í rassinn á producentum í Hollywood og sýndi og sannaði að vel gerðar stríðsmyndir geta líka sópað inn aurum í kassann.

Við erum að sjá algerlega nýja línu í gerð kvikmynda eftir styrjaldasögum. “Saving Private Ryan” lagði línurnar fyrir þessa “nýju” túlkun á styrjaldasögu í kvikmyndaheiminum með því að setja fram sögu þar sem ekki voru eins breið skil á milli góðu og vondu kallanna. Það eru til dæmis ekki allir japanar vondir morðingjar í “Pearl Harbor” ólíkt t.d. “Bridge over River Kwai”. Skilaboðin eru fremur í ætt við “stríð er slæmt og stríð gerir alla slæma”. Allir sem vilja geta séð muninn á gömlu útgáfunni og þeirri nýju með því að bera saman “Ryan” og “The Longest Day”. (Reyndar vil ég persónulega meina að þessi nýja sýn kvikmyndaleikstjóra á stríð hafi komið fram á snilldarlegan hátt í “Starship Troopers” hér um árið og sé þaðan komin til Spielbergs, en það er önnur saga.)

Annað atriði sem er reyndar ekki eins nýtt af nálinni í stríðsmyndum og haldið hefur verið fram, er sú einstaklingsbundna nálgun sem flestar þessara mynda ganga út á. Myndirnar (t.d. “Ryan”, “Pearl Harbor” og “Enemy at the Gates”) byggja á einsögukenndri sögu tveggja til þriggja einstaklinga, gjarnan elskenda, sem berjast í gegnum þykkt og þunnt og sýna sigur mannsandans yfir aðstæðunum (dæmi: Hanks og Sizemore ákveða að verða eftir við brúna og berjast þrátt fyrir ofureflið í lokaatriði “Ryan” í stað þess að fara til baka).

Í þriðja lagi er raunsæi farið að skipta leikstjóra meira máli en áður. Tímar “Dirty Dozen” myndanna eru liðnir. Nú vill almenningur fá að sjá bardagana eins raunverulega og hægt er, búningar, vopn og þess háttar verða að vera eins nálægt sannleikanum og hægt er. Þetta er vissulega mikill fengur fyrir áhugamenn um sagnfræði og það þarf ekki annað en að líta á muninn á tveimur aðal kafbátamyndum síðustu 15 ára til að skilja hvað við er átt. “U-571” og “Das Boot” eru eins og svart og hvítt hvað varðar raunsæi og sannleiksgildi, enda er “Das Boot” tvímælalaust ein besta stríðsmynd sem gerð hefur verið, á meðan “U-571” er ekki einu sinni spennandi og að auki sagnfræðilegur kúkur. Munurinn liggur að verulegu leyti í því að söguþráðurinn og karakterarnir eru raunsæir og trúverðugir í “Das Boot”, en ná því aldrei í “U-571”.
Upphafs þessarar raunsæisstefnu í stríðsmyndagerð er að leita um miðjan 9. áratuginn, þegar myndir eins og “Platoon”, “Full Metal Jacket” og “Das Boot” komu út og beindu sjónum fremur að þeim hörmungum sem stríð hefur í för með sér (fyrir alla þáttakendur þess) heldur en því hvort góðu kallarnir unnu eða töpuðu. Reyndar var einn helsti þátturinn í þessari nýju hugsun að áhrfandinn gat ekki lengur verið viss um að hetjan lifði myndina af! Skilgreinandi atriði fyrir þessa stefnu eru annars vegar stórkostlega myndrænn dauði Elias í “Platoon” og hins vegar lokaatriði “Das Boot” sem ég vil ekki skemma fyrir þeim sem eiga eftir að sjá þessa ótrúlegu mynd. Það er því ekki beinlínis rétt að segja að Spielberg hafi algerlega umbylt kvikmyndaraunsæi með “Saving Private Ryan”, hann hefur aðeins þróað það og gert það að staðli fyrir aðra leikstjóra til að fara eftir.

Í fjórða lagi er tæknin farin að skipta höfuðmáli. Í “Pearl Harbor” fáum við að sjá hinn risastóra flugflota Japana í árásini sjálfri. Þetta er í raun töluvert afrek þegar er litið til þess að í raun eru ekki til nema innan við fimm flughæfar AM65 “Zero” vélar í heiminum! Allur þessi floti er tölvuteiknaður eins og svo mörg atriði í kvikmyndum nútímans. Þesi tækni gerir leikstjórum kleift að auka enn á raunsæi mynda sinna (t.d. í þessu tilfelli) auk þess sem að þessi tækni býður upp á mun stórfenglegra myndmál og túlkun en fyrr.

Í fimmta og síðasta lagi hefur leikaravalið breyst nokkuð. Það er nú farið að skipta mestu máli hvaða leikarar eru valdir í aðalhlutvek, það eru ekki lengur hörkulegir jálkar í líkingu við Anthony Quinn og sem standa vaktina í stríðinu. Í stað þeirra eru komnir sætir súkkulaðistrákar eins og Matt Damon, Ben Affleck og Edward Burns og mannlegir reynslubankar eins og Tom Hanks og Tom Sizemore. Þetta er í beinu sambandi við þá stefnu að gera myndirnar mannlegri, meira fyrir augað og beina athyglinni fremur að einstaklingunum og þeirra sögu heldur en að bjóða upp á hardcore bardagamyndir með cuttthroat týpum í hverju horni.

Og hver er svo niðurstaðan? Höfum við gengið til góðs…?
Þegar á heildina er litið held ég að við getum fagnað því að Hollywood er farið að sýna sögunni svolitla virðingu. Sagnfræðiáhugamenn hljóta að fagna því og hafa meira gaman af bíómyndum þar sem ekki er verið að ljúga eins mikið um atburði sem þeir vita að eiga að vera öðruvísi! Hins vegar má kannski segja að nú er orðið erfiðara fyrir almenna áhorfendur að spotta lævíslegan Ameríkanaáróðurinn í stríðsmyndum því hann er farin að blandast betur við söguþráðinn og er hófsamari en hann var á áruatugunum eftir stríð (hér nægir að nefna aftur muninn á “The Longest Day” og “Ryan”). Auðvitað eru undantekningar frá þessu og sú stærsta er náttúrulega “Pearl Harbor” sem er ákaflega flott mynd í ala staði en hörmulega amerísk og þjóðrembufnykinn leggur af henni langar leiðir í fjölmörgum atriðum. En það er efni í aðra grein og best að setja hér punkt áður en ég skrúfa mig upp í þá umræðu.

obsidian