JFK - Merkilegasti Bandaríkjaforsetinn? Ég setti nýlega inn könnun hér á sagnfræðiáhugamálinu þar sem spurt var einfaldlega “Merkilegasti Bandaríkjaforseti síðan 1945?” Yfir 200 manns hafa kosið. Það kom mér ekki á óvart að John F. Kennedy yrði hlutskarpastur, en yfirburðirnir komu mér á óvart. 41 % telja hann merkilegastan. Að sjálfsögðu er það misjafnt hvað menn telja “merkilegt”, enda notaði ég orðið með það fyrir augum.


JFK - Man & the Myth

Kennedy var að mínu mati sæmilegur Bandaríkjaforseti, en mýtan (“goðsögnin” - myth) hefur orðið manninum sterkari. Um þessa mýtu mætti skrifa heila grein, en ég læt það bíða betri tíma. Læt nægja að segja að bæði eldra fólk sem man forsetatíð hans, og yngra fólk sem aðeins hefur séð hann í eftirminnilegum gömlum fréttamyndum (og kannski sökkt sér í morð-mysteríuna), lítur á hann sem einhverskonar dýrling. Bandaríkjaforseta ólíkan öllum sínum forverum og eftirmönnum. Í báðum tilfellum á jákvæðan máta.

Ef ævi Kennedys og embættistíð eru skoðuð í hlutlausu ljósi – ekki ljósi mýtunnar áðurnefndu – hverfur glansmyndin og eftir stendur venjulegur maður. Að sönnu vel gefinn og hæfileikaríkur, en alls ekki óskeikull. Reyndar með ýmsa djöfla að draga, sem líklega hefðu komið honum í koll hefði hann ekki verið myrtur áður en fyrsta kjörtímabili hans lauk.

Hefði hann lifað er ekki erfitt að ímynda sér hann í kringum 1975 sem feitan gamlan fyrrum forseta í teinóttum seventís-jakkafötum með tilheyrandi hárgreiðslu og barta. Líklega kallaðan “Horny Jack”, hafandi löngu skilið við Jackie eftir einhvern kynlífsskandalinn sem næstum kostaði hann embættið áður en hann loks hætti árið ‘69. Glansmyndin sem hingað til hefur viðhaldist, hrynur til grunna við slíka “what if?” umhugsun!

Burtséð frá glansandi ímyndinni, þá var leið hans til forsetaembættis ekki beinlínis þyrnum stráð. Hann var fæddur inn í fokríka og fræga fjölskyldu með hefð fyrir pólitík. Og ekki voru verk hans sem forseta svo ýkja merkileg. Hann átti erfitt með að hrista af sér arfinn frá Eisenhower-stjórninni í Kaldastríðsmálum, eins og kom í ljós í Svínaflóaklúðrinu og á Vínarfundinum með Krúschev. Það leiddi beinlínis til Kúbudeilunnar, sem hann reyndar höndlaði með sóma.

Varðandi Víetnam, þá gat hann eða hans menn aldrei ákveðið neitt af eða á í því máli. Það kom í hlut Lyndon Johnsons að ákveða “á” með slæmum og langvinnum afleiðingum, en ómögulegt er að segja hvað Kennedy hefði gert. Í mannréttindamálum svartra og velferðarmálum almennt, var Kennedy-stjórnin alræmd fyrir að draga sífellt lappirnar með undanbrögðum. Það kom því einnig í hlut Johnsons að keyra þau mál í gegn – sem aftur er algerlega óvíst að Kennedy hefði gert.


Mitt álit:

En því er þó ekki að neita að bara það að hafa svo mikinn og langvinnan goðsagnablæ yfir sér, gefur ákveðna punkta í “merkilegheitum”. Set því JFK í þriðja sæti. Merkilegri að mínu mati eru :

1) Harry S. Truman

Ævi, 1884-1972: Fæddur inn í efnalitla fjölskyldu í Miðvesturríkjunum. Fremur lítt menntaður en komst til metorða sem sveitapólitíkus í Missouri og var munstraður á þing af valdameiri aðilum þar. Algerlega óþekktur á landsvísu þegar hann tók sæti á þingi og þótti ekki til stórræða líklegur, þó hann stæði sig vel í skyldustörfum. Var útaf því gerður að varaforseta Roosevelts.

Embætti, 1945-53: Hann tók við embættinu óvænt og nær algerlega óviðbúinn eftir fráfall Roosevelts, á afar erfiðum og viðkvæmum tíma rétt í lok Seinni heimsstyrjaldar. Glímdi síðan við margvíslega eftirstríðs-erfiðleika bæði í innanlands- og alþjóðamálum, upphaf Kalda stríðsins. Náði flestum að óvörum endurkjöri 1948 og leiddi “hinn frjálsa heim” í Kóreustríðinu.


2) Richard M. Nixon

Ævi, 1913-94: Ólst upp við lítil efni en braust til mennta og áhrifa. Varð þjóðþekktur fyrir “kommúnistaveiðar” á McCarthy tímanum. Varð varaforseti Eisenhowers, en tapaði svo kosningum 1960 fyrir JFK. Sneri aftur 1968 og náði þá kosningu.

Embætti, 1969-74: Honum gekk ekki jafn vel að ljúka Víetnamstríðinu eins og hann hafði lofað, en náði þó góðum árangri í samskiptum sínum við Sovétríkin og Kína og slakaði þannig loks verulega á spennu Kaldastríðins. Nokkuð sem enginn hafði búist við af honum, gamla “kommaveiðararum”, enda varð “Only Nixon could go to China” að orðtaki! Gekk hinsvegar of langt í óprúttnum aðferðum í pólitíkinni og varð að segja af sér með skömm.


Að endingu hvet ég svo þáttakendur í áðurnefndri könnun til að nota tækifærið og gera grein fyrir atkvæði sínu í stuttu máli :)
_______________________