Ferðir Marco Polo, fyrsti hluti (af þremur).
Leiðin til Kína.

Marco Polo fæddist árið 1254 og var fjölskylda hans rík aðalsmannaætt í Feneyjum. Þegar Marco var sex ára fóru faðir hans og frændi í ferðalag austur sem endaði með því að þeir lentu í Kína og stóð það ferðalag í níu ár. Á meðan á því stóð lést móðir Marcos. Tveimur árum eftir lok ferðar föður hans ákváðu faðir hans og frændi að fara í aðra ferð til Kína,og fór Marco núna með þeim, var hann þá sautján ára.

Fóru þeir til Akkó en í fyrri ferð þeirra hafði Kublai látið þá fá lista með nokkrum hlutum sem hann vildi fá frá páfa en þessi tveggja ára bið hafði stafað af því að á leið þeirra til baka frá Kublai hafði þáverandi páfi látist og ekki var búið að velja nýjan. Í Akkó vildu þeir hitta Theóbald legáta, en hann sagði þeim að líklega yrði nýr páfi ekki valinn í bráð og og hættu þeir þá ekki lengur á að láta Stórkaninn bíða lengur og náðu þeir í allt á listanum sem Theóbald gat hjálpað þeim með og lögðu af stað til Kína. Þegar þeir komu til Ajas fréttu þeir að það hefði verið kosinn nýr páfi og var það vinur þeirra Theóbald sem sagði þeim að koma á fund hans. Er þeir komu til hans lét hann þá fá fleiri gjafir og bréf til að færa Kublai ásamt tveimur munkum en þeir voru aðeins hluti af því sem að Kublai hafði beðið um, en það höfðu verið hundrað kristinfræðimenn. Þá áttu þeir að fylgja þeim Poloum til Kublai. Ásamt þessu reyndi Theódus að koma á vinsamlegu stjórnmálasambandi milli Vesturlanda og Mongólaveldis með því að láta föður Marco fá bréf til Barka, kans gullna skarans, en það var Mongólaveldið sem var lengst í vestri.

Austurförin reyndist ekki auðveld. Mamlúkar í Egyptalandi höfðu ráðist inn í mongólaveldi Ilkanata sem kaninn Húlagú réð yfir og höfðu hrakið heri hans frá Palestínu og Sýrlandi og réðu nú ekki lengra vestur en til Efrat. Ekki trufluðu Mamlúkar ferðir Poloanna á leið þeirra yfir Mesapótamíu og Sýrland, en er þeir komu aftur til Ajas og ætluðu þaðan til Armeníu þá var þeim sagt að þar færi nú foringi Mamlúka, Búndúkdari, um með hernaði og ránum um allt svæðið inn af ströndinni og hræddust þá munkarnir og snéru við. Tóku Poloarnir nú á það ráð að taka á sig töluverðan krók alla leið inn í Kákasus og þaðan til Georgíu. Þaðan fóru þeir til suður Kaspíahaf og síðan suður til Vestur-Persíu og voru þá komnir til lands sem var undir stjórn Mongóla og töldu þeir sig örugga þar. Stoppuðu þeir í borginni Erzincan sem Marco segir frá á eftirfarandi hátt:
Þar sem framleitt eru bókbandslérefti best í heimi og óteljandi aðrar iðnir stundaðar og hér eru betri uppsprettublöð en á nokkrum öðrum stað á jörðinni, og hér er mikil olía en hún er ekki góð til átu en er mjög gott eldsneyti.

Marco fór ekki norðar en til Tíflis en það má sjá á að þaðan beinist athygli hans suður og lýsir hann mjög vel Mesópótamíu, þó án þess að fara þangað þótt hann hafði hlakkað mjög til þess að gera það, en ekki getað vegna átaka Mamlúkanna.
Marco segir frá örlögum kalífadómsins í Bagdad, sem hafði áður fyrr verið meiri en allir aðrir, þau höfðu verið að vera brotinn niður af herjum Húlagús. Segir Marco frá hinum minnistæða atburði þegar Bagdad féll og kalífinn var leiddur fyrir Húlagú eftir að herir Húlagús höfðu fundið í fjárhirslum hans ógrynni fjársjóða, og undraðist Húlagú mjög mikið að kalífinn hefði ekki notað þennan pening til að kaupa málaliða sem hann hefði getað notað til að vernda borgina. Þar sem að Húlagú var einkar hugmyndasamur lét hann fara með allt gullið og læsa það ásamt kalífann inn í turni einum og sagði við hann
“Éttu nú fjársjóðinn þinn fyrst þér þykir svona vænt um hann”

Hvert Marco fór eftir að hafa farið frá Erzincan er ekki vitað, en vitað er að hann endar upp í Tabris. Til að komast þangað þá hafa þeir þurft að taka allmikinn krók vestur sem er heldur skrítið því að þeir voru á austurleið, en Tabris var mikil verslunarborg á þessum tíma og líklega hefur enginn Poloanna staðist þá freistingu að fara þangað og að öllum líkindum farið þaðan nauðugir. Ferðin frá Tabris til Hormús tók nokkuð langan tíma miðað við vegalengd, eða einn og hálfan mánuð og hafa þeir líklega stoppað um stund í borginni Kerman á leið þeirra suður til Hormús. Frá Hormús ætluðu þeir að fara sjóleiðina til Kaþei en það þykir undarlegt því að enginn þeirra þekkti siglingaleiðina frá Hormús til Indlands nema það sem þeir höfðu heyrt frá infæddum, en þeir hafa viljað reyna að bæta upp tímann sem þeir eyddu í að bíða eftir að nýr páfi yrði kjörinn.

Leiðin frá Kerman til Hormús var ekki auðveld. Eftir að hafa farið fyrstu tvo daganna upp í móti fóru þeir yfir Kamadínsléttu og var hún talin eitt hættulegasta svæði jarðar á þessum tíma, en ekki vegna neinna náttúruafla heldur vegna þess að á þetta land herjuðu Karánar, en þeir voru þjóð stigamanna og þýðir Karán bastarður. Fannst mörgum þetta nafn henta þeim enda voru þeir afkomendur mongólskra karla og indverskra kvenna. Leiðtogi Karána, Nígúdar, sem var bróðursonur Stórkansins, hafði búið til þessa þjóð sína með því að leggja undir sig hluta af norður Indlandi og herjaði þaðan á allt og alla með tíu þúsund manna herliði sínu. Þó svo að Marco hafi verið raunsæismaður var hann alveg jafn trúgjarn og aðrir Evrópumenn á þessum tíma og trúði hann sögum af því að Karánar væru göldróttir og byggju til þoku og sandbyli áður en þeir réðust á fórnalömb sín. Segist Marco hafa orðið fyrir einni svona árás en tekist að flýja inn í einn af víggirtum bæjum Rúdbarsléttu. Frá Kamasal, en það hét þessi víggirti bær flýttu þeir sér til Hormús og lýsir Marco borginni svona:
Frábær höfn… kaupmenn koma hingað sjóveginn frá Indlandi… loftið er skrælþurrt, vegna sólarhitans, og óheilnæmt… þeir innfæddu borða ekki samnskonar mat og við… skipin þeirra eru mjög léleg… þeir hafa ekkert járn í nagla… fólkið… það býr ekki í borgunum að sumarlagi, annars dæi það allt úr hita… allnokkrum sinnum á sumri… blæs vindur svo yfirmáta heitur að hann er banvænn… þeir dýfa sér í vatn upp að hálsi til að sleppa frá hitanum… allir ávextir… eru þroskaðir og búið að lesa þá í mars… enginn gróður nein staðar nema döðlupálmar, sem endast til maí. Þetta er allt hitanum að kenna, í honum skrælnar allt upp.
Eins og sjá má þá þótti Marco vera mjög heitt í Hormús en hann lét sér ekki nægja að segja svona frá hitanum heldur bætir hann við sögu um her sem Kerman hafði sent til að ráðast á Hormús, en þeir gerðu þau mistök að sofa úti um nóttina. Þá kom einn af þessum banvænu vindum og drap allt liðið og þurrkaði það svo upp að ekki var hægt að færa líkin til grafar því þau brotnuðu niður í duft þegar reynt var að færa þau og á endanum var brugðið á það ráð að grafa grafirnar við hliðina á líkunum og sópa þeim ofan í.
Marco og þeir ætluðu sjóleiðina frá Hormús en eins og Marco sagði þá voru skipin léleg að mati Feneyinganna. Í smíði skipskrokkanna voru notaðir trénaglar og kókoshnetutrefjar voru notaðar til að halda borðunum saman. Það var ekkert þilfar og aðeins eitt siglutré og að lokum þá voru þau ekki tjörguð heldur smurð með daunillum grút. Eftir að hafa skoðað skipin vandlega þá ákváðu þeir að fara frekar landleiðinna heldur en að hætta lífi síni í þessum manndrápsbollum eins og Marco orðaði það. Þýddi þetta að þeir þurftu að fara aftur til baka til Kerman og fara þaðan norðaustur til Túrkestan.

Á leið þeirra norður yfir Rúdbar var heppnin með þeim því að Karánar létu ekki sjá sig. Hins vegar var ferðin norður frá Kerman einn erfiðasti hluti allrar ferðarinnar, núna silaðist flutningalestin áfram í sjö daga yfir svæði þar sem ekkert vatn var að fá nema á örfáum stöðum en þar var það svo salt að það var næstum ekki hægt að drekka það. Eftir þessa viku blasti við þeim stór uppsprettulind þar sem menn og dýr gátu loksins svalað þorsta sínum. Það var eins gott því að enn var eftir fjögurra daga ferð yfir vatnslausa eyðmörk áður en þeir kæmust til borgarinnar Kú-banan. Frá Kú-banan fóru þeir inn í héraðið Tún-Kain, en norðarlega á því svæði stóð risavaxið tré eitt en það næsta var í tíu mílna fjarlægð. Þetta tré var sagt vera á þeim stað þar sem Alexander mikli hefði gjörsigrað heri Daríosar Persakonungs. Hélt Marco síðan inn í austurhluta þessa héraðs en þar réð regla ein sem hét Assassínar á árum áður. Assassínar voru regla eða félag sem Sjeik Alaodin stofnaði og voru þetta nokkurs skonar sjálfsmorðssveitir því að þeir gáfust aldrei upp. Þeir voru launmorðingjar og voru óhræddir til að drepa þennan og hinn þjóðhöfðingjann jafnvel þótt að þeir vissu að þeir myndu aldrei sleppa lifandi eftir verkefnið og yrðu oftast pyntaðir til dauða. Þaðan fór Marco til Sjíbarghan og þaðan til Balk og fóru þeir sömu leið og Alexander mikli hafði farið. Frá Balk var haldið til Talíkhan en það var tólf daga ferð yfir lítt byggt svæði, en á því var þó mikið um vatn og veiðidýr svo að þá skorti ekkert á leiðinni. Frá Talíkhan fóru þeir til Isjkasjam og þaðan um þriggja daga ferð yfir hrjóstrugt eyðisvæði til Badaksjan héraðsins. Í Badaksjan veikist Marco og urðu þeir að dvelja þar í eitt ár meðan hann er að jafna sig. Á meðan hann dvaldist í Badaksjan sat Marco ekki auðum höndum heldur fór í stuttar ferðir hingað og þangað frá Badaksjan og lýsti því sem hann sá.

Eftir að Marco hafði jafnað sig, var haldið í austur-norðaustur í gegnum lítið grannríki Badaksjan Vakhan og tók sú ferð fimmtán daga. Eftir þriggja daga ferð frá Vakhan upp mikinn bratta voru þeir nú komnir upp á “þak heimsins” Pamír-sléttuna. Ferðin yfir Pamír-sléttuna tók tólf daga og þegar þeir vorum komnir yfir Pamír þá beið þeirra fjörtíu daga ferð yfir Belor, strjábýlt eyðiland og loksins eftir tveggja mánaða ferð á þaki heimsins fór leið þeirra að liggja niður á við, niður í Kasjgarhérað og könnuðust nú faðir Marcos og frændi hans við aðstæðurnar úr fyrri ferð sinni, en á Pamír-sléttunni hafði kuldinn og hin mikla hæð verið mesta vandamálið en núna beið þeim þrotraun af öðrum toga. Það er að segja hin banvæna Góbíeyðimörk.
<Blank>