Hér á landi og nánast allstaðar í Evrópu eru menn algerlega andsnúnir dauðarefsingum, og er ég svosem engin undantekning. Það kann því að virðast furðulegt að skrifa grein um mis-“góðar” aftökuaðferðir. En þegar maður gefur þessu fyrirbæri rafmagnsstólnum bara smá-umhugsun, verður maður bara að skrifa þær hugleiðingar á blað!
Stundum hefur það flogið mér í hug að réttast væri að setja hið versta af glæpahyskinu hér á landi “í stólinn”, eins og gert er í USA. En við umhugsun er ég er ekki svo viss um það. Ég er nefnilega, eftir að hafa horft nokkrum sinnum á bíómyndir þar sem þessi aftökuaðferð er sýnd á raunsannan hátt, búinn að fá ógeð á henni. Að raka af mönnum hárið, óla þá oní stól, setja rafskaut á höfuð þeirra og fætur og grilla þá síðan með rafstraumi - ef að þetta er ekki “cruel and unusual punishment”, þá veit ég ekki hvað það er.
Mætti ég þá frekar biðja um að vera hengdur! Henging hálsbrýtur menn, kippir mænunni úr sambandi og öllu er lokið á augabragði. Í samanburði er það einfalt, ódýrt og snyrtilegt. Þess eru hinsvegar dæmi að menn hafi þraukað í rafmagnsstól í 10-20 mínútur. Það rýkur úr fanganum, og lykt af brunnu holdi fyllir klefann, auk þess sem að fanginn losar oft þvag. Þessi aftökuaðferð er líklega sú viðbjóðslegasta sem tíðkast hefur á vesturlöndum síðan hætt var að rekja úr mönnum garnirnar einhverntíman á miðöldum.
Rafmagnstóllinn var fundinn upp í Bandaríkjunum á síðari hluta nítjándu aldar, og er í raun og veru bjánaleg uppfinning, svipuð þeim og við sáum oft hjá Fróða Ýmissyni í Spaugstofunni. Nóg var til af hálf biluðum uppfinningamönnum sem fundu upp aragrúa af gagnslausum og fáránlegum uppfinningum. Uppfinningum sem nú eru grafnar og gleymdar, en stundum grafnar upp fólki til skemmtunar. Í raun og veru ætti rafmagnsstóllinn að vera í flokki með með öllum þessum hlægilegu uppfinningum, en er það ekki.
Ætli það hafi ekki verið þessi tröllatrú sem menn höfðu þá á tæknina sem að gerði útslagið. Var ekki flott fyrir Bandaríkjamenn að geta sagst svo tæknivæddir að þeir tækju glæpamenn af lífi með rafmagni? Jú, það hefur þótt svo kúl að engum datt í hug að hugsa aðeins útí þetta og spyrja “Já en Fróði, til hvers?” Til hvers að vera að eyða tugum kílówatta af rafmagni í að murka lífið úr manni með tilheyrandi brunalykt, þegar hægt var að gera þetta snöggt og snyrtilega með snöru og fallhlera, eins og hafði tíðkast öldum saman?
Eitt enn um rafmagnsstóla, svo er ég hættur, lofa því: Góð er sagan um kónginn í Afríku sem heyrt hafði af þessarri sniðugu nútímaaðferð sem að Ameríkanar höfðu við að lífláta fólk. Hann pantaði eitt stykki rafmagnsstól frá US of A, og nú yrði sko óvinum hans til setunnar boðið! En svo þegar að stóllinn góði var kominn, ráku menn sig á nokkuð sem menn höfðu ekki hugsað útí. Rafmagsstólar þurfa rafmagn eigi þeir að þjóna tilgangi sínum, og ekki var eitt einasta raforkuver í landinu! Þannig að kóngsi varð að finna önnur not fyrir þennan annars fína stól: Hann lét því taka af honum ólarnar og rafskautin, og notaði hann framvegis sem hásæti sitt! Þessa sögu sel ég nú ekki dýrara en ég keypti hana, en það er gaman að henni.
_______________________