Að hvaða marki mótuðust samskipti íbúa þriðjaheimslanda við Veturlönd á grundvelli þjóðernishyggju þeirra fyrrnefndu?

Á tímabilinu milli heimstyrjaldanna tveggja tóku samskipti Evrópu og Norður-Ameríku við aðra heimshluta í sívaxandi mæli að einkennast af þjóðernishyggja íbúa hins síðarnefnda. Stafaði þetta af ýmsum þáttum en segja má að ein meginástæðan hafi verið vaxandi fjöldi menntamanna í löndum þriðja heimsins sem höfðu hlotið menntun sína á Vesturlöndum. Þessir menn fluttu síðan heim með sér vestrænar hugmyndir, s.s. um þjóðernishyggju, sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðskipulag að vestrænni fyrirmynd.

Fyrri heimstyrjöldin uppfyllti væntingar margra þjóða um sjálfstæði sér til handa. Þegar Bandaríkin hófu þátttöku í styrjöldinni lýsti Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti því yfir að það meginatriði ætti að gilda að styrjöldinni lokinni að sjálfsákvörðunarréttur þjóða yrði virtur. Eftir styrjöldina var bundinn endi á heimsveldi Tyrkja, Rússa, Austurríkismanna og Þjóðverja og fjöldi nýrra þjóðríkja leit dagsins ljós í Mið- og Austur-Evrópu. Þau landsvæði utan Evrópu sem verði höfðu með einum eða öðrum hætti í eigu þessarra heimsvelda voru hins vegar nær undantekningalaust skipt á milli þeirra ríkja sem haft höfðu sigur í styrjöldinni. M.ö.o., yfirlýsing Wilsons forseta náði ekki til þessarra landsvæða.

Ein af afleiðingum Fyrri heimstyrjöldarinnar var því vaxandi þjóðernishyggja í t.a.m. Asíu og Afríku. Þá ekki síst í kjölfar iðnvæðingar í heimsálfunum svo og vegna áhrifa frá vestrænum hugmyndum, sem innfæddir menn fluttu heim með sér eftir að hafa hlotið menntun á Vesturlöndum, eins og áður hefur verið minnst á.

Japan tekur forystuna

Þjóðernishyggja í Asíu í upphafi 20. aldarinnar fékk ekki síst innblástur frá Japan sem var fyrsta Austur-Asíuríkið til að öðlast að eigin frumkvæði form nútímaríkis og til að sigra vestrænt ríki í stríði, Rússa 1905. Japanir létu sér þó ekki nægja að nútímavæða ríki sitt í samræmi við vestræn ríki heldur hóf einnig umfangsmikla útþenslustefnu í anda þeirra í Asíu. Fyrir stríð höfðu þeir m.a. lagt undir sig Kóreu og hluta Kína auk ýmissa eyja í Suðaustur-Asíu. Eina vestræna ríkið sem stóð gegn útþenslu Japana voru Bandaríkin enda höfðu þeir töluverðra hagsmuna að gæta á Kyrrahafi. Útþenslustefna Japana hélt þó áfram mest megnis óheft og var ekki loku skotið fyrir þá þróun mála fyrr en í seinni heimstyrjöldinni.

Japanir höfðu þó ákveðna sérstöðu á við flest önnur Austur-Asíuríki þar sem þeir voru ekki nýlenda, eða með öðrum hætti undirgefnir öðrum ríkjum, eins og raunin var víða annars staðar. Þeirra þjóðernishyggja var af öðrum og neikvæðari toga. Þeir létu sér ekki nægja að vinna að hagsmunum þjóðar sinnar innan sinna landamæra heldur herjuðu þeir á nágrannaþjóðir sínar og stunduðu mikla útþenslustefnu. Þjóðernishyggja flestra annarra þjóða Austur-Asíu gekk hins vegar nær undantekningalaust út á það að berjast fyrir sjálfstæði sínu og að losna þannig við yfirráð eða ítök erlendra ríkja. Þetta átti t.a.m. við um Kína.

Kínverski risinn

Hin vestrænu stórveldi höfðu lengi keppst um sem mest ítök í Kína þegar fyrri heimstyrjöldin braust út, þar á meðal þær þjóðir sem lotið höfðu í lægra haldi í styrjöldinni. Eftir styrjöldina kröfðust Japanir aukinna ítaka í Asíu fyrir stuðning sinn við bandamenn í styrjöldinni, þar á meðal í Kína. Þeir höfðu einkum og sér í lagi augastað á þeim hluta Kína sem verið hafði á áhrifasvæði Þjóðverja. Á Washington-ráðstefnunni 1921 samþykktu vestrænu ríkin að Japanir fengju ákveðna hluta Kína til yfirráða. Kínverjar urðu að vonum sárhneykslaðir af þessum sökum og fór alda óánægju í garð Japana um landið og varð sérstaklega vart á meðal námsmanna. Var almennt litið á þetta framferði vesturlanda sem svik, ekki síst vegna þess að Kínverjar höfðu einnig staðið með bandamönnum í styrjöldinni. Sérstaklega lagðist þetta í slæman jarðveg hjá þeim Kínverjum sem litið höfðu vonaraugum til Vesturlanda eftir félagslegum umbótahugmyndum. Af þessum sökum m.a. fóru margir Kínverjar að hallast æ meir að Sovétríkjunum og marxískri hugmyndafræði en aðrir að þjóðernishyggju og áherslum um þjóðlega einingu landsmanna. Í kjölfar þessa skiptust landsmenn í tvær fylkingar, þjóðernissinna og kommúnista, sem börðust um yfirráð í landinu fram yfir seinni heimstyrjöld, eða þar til kommúnistar höfðu sigur árið 1949.

Indland og Gandhi
Á sama tíma og atburðir þessir voru að eiga sér stað í Kína vakti leiðtogi indverskra þjóðernissinna, Mohandas Gandhi, upp löngun indversku þjóðarinnar eftir sjálfstæði Indlands frá Bretum. Í kjölfar þess var sett á laggirnar sjálfstæðishreyfing Hindúa undir forystu Gandhis en áður hafði verið komið á fót sjálfstæðishreyfingu indverskra múslima. Gandhi var andvígur því að berjast fyrir sjálfstæði í krafti ofbeldis en kynnti þess í stað aðferðafræði sem hann nefndi “ekkert samstarf” (non-cooperation). Í þessu fólst aðallega að hunsa Breta og gera þeim, með friðsamlegum hætti, erfitt fyrir að stjórna landinu. Á grundvelli þessarar aðferðafræði fór síðan sjálfstæðisbarátta Indverja að mestu leyti fram.

Gandhi og sjálfstæðishreyfing hans var sem þyrnir í augum Breta og gerðu þeir ýmsar tilraunir til að binda endi á feril hans, m.a. með því að fangelsa hann en allt kom fyrir ekki. Sjálfstæðishreyfingunni óx stöðugt fylgi og leiddi að lokum til sjálfstæðis Indlands.

Sjálfstæðisbarátta í Afríku

Ekki er hægt að segja að eiginleg þjóðernishyggja hafi komið fram í Afríku á árunum á milli heimstyrjaldanna. Sú andstaða sem fram kom í hinum ýmsu hlutum Afríku á millistríðsárunum var svo margbreytileg að vart er hægt að flokka hana undir eiginlega þjóðernishyggju. Sum andstaða var skipulögð í kringum stjórnmálaflokka eins og Vestur-Afríska þjóðarráðið (West African National Congress) og Afríska þjóðarráðið í Suður-Afríku. Önnur andstaða kom fram í t.a.m. afmörkuðum verkföllum, uppþotum, mótmælum trúarsafnaða eða mótmælum í gegnum greinarskrif í blöð eða í gegnum aðrar stjórnmálalegar aðferðir. Samræmdar aðgerðir voru hins vegar svo að segja engar.

Það sem Afríkubúar leituðu fyrst og fremst eftir, í viðleitni sinni til að berjast fyrir sjálfstæði ríkja sinna, var eitthvað sem sameinaði íbúa viðkomandi ríkis eða landsvæðis í baráttunni fyrir sjálfstjórn. Í Norður- og Norðaustur-Afríku var það einkum Islam sem menn litu til sem sameiningartákns í þessu skyni og annars staðar þar sem ákveðin trúarbrögð voru útbreidd, einkum kristni, leituðu menn á náðir þeirra. Annað sem Afríkubúar nýttu í þessum tilgangi voru t.a.m. efnahagslegir hagmunir íbúanna, þá einkum verkamanna. Verkalýðsfélög í Afríkuríkjum áttu þannig víða stóran þátt í baráttunni fyrir sjálfstjórn ríkjanna. Innlendir framleiðendur voru einnig virkjaðir í þessum tilgangi til að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sína. Það sem hafði þó hvað mest vægi og slagkraft sem sameiningartákn í Afríkuríkjum var sameiginleg menning og saga íbúanna þar sem slíku var á að skipa.

Nýlenduveldin reyndu eftir megni að halda aftur af allri andstöðu innfæddra í sinn garð og reyndu m.a. í því skyni að nýta sér óeiningu og óskipulag andstöðunnar til að etja ýmsum hópum saman. Sums staðar var einnig gripið til þess ráðs að banna samtök innfæddra og þá einkum og sér í lagi verkalýsfélög, s.s. í Suður-Afríku.

Andstaða innfæddra í Afríku var þó fyrst og fremst viðleitni til að losna undan yfirráðum Vesturlanda. Eiginleg þjóðernishyggja sem slík fór ekki að ná umtalsverðum árangri í Afríku fyrr en eftir seinni heimstyrjöld.

Lokaorð

Það er ljóst að á því tímabili sem um ræðir hafa samskipti Vesturlanda við íbúa þriðjaheimsins mótast að verulegu leyti af þjóðernishyggju hinna síðarnefndu. Á það við um hvort heldur sem er ríki sem voru nýlendur annarra ríkja, einkum þá vestrænna ríkja, eða þau ríki sem öðlast höfðu sjálfstæði og voru að byggja upp sjálfsímynd sína á alþjóðavettvangi. Þjóðernishyggja þessara ríkja var þó á reist á mjög mismunandi grundvelli. Þau ríki sem voru undir yfirráðum erlendra aðila börðust fyrst og fremst fyrir sjálfstæði sínu á meðan að þau ríki sem þegar höfðu hlotið sjálfstæði, eða alltaf átt það meira eða minna, börðust fyrir viðurkenningu á alþjóðlegum vettvangi og fyrir því að geta staðið jafnfætis vestrænum ríkjum á sem flestum sviðum.

Það má segja að vissu leyti að það sama hafi orðið drifkraftur sjálfstæðisbaráttu margra þriðjaheims ríkja á millistríðsárunum og var drifkraftur t.a.m. frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789, þ.e. borgarastéttin. Eins og fram kemur hér á undan hafði fjöldi innfæddra manna úr nýlendum vestrænna ríkja gengið menntaveginn á Vesturlöndum og kynnst þar hugmyndum, t.a.m. um þjóðernishyggju og sjálfsákvörðunarrétt þjóða, sem þeir síðan fluttu heim með sér. Þessir menn mynduðu síðan borgarastétt síns lands sem í flestum tilfellum hafði ekki verið til áður. Sumir myndu e.t.v. segja að með því að gefa innfæddum tækifæri á að afla sér menntunar á Vesturlöndum hafi vestræn ríki verið að skjóta sig í fótinn. Um það hvort það sjónarmið eigi við rök að styðjast eða ekki verður þó dæmt í þessari ritgerð. Engu að síður er ljóst að vestræn hugmyndafræði hefur að miklu leyti verið orsök þeirrar þjóðernishyggju sem upp spratt í þessum ríkjum á árunum á milli heimstyrjaldanna. Ekki má þó vanmeta í því sambandi löngun íbúa þriðjaheimsríkja eftir sjálfstæði, en án þeirrar löngunar hefði lítið orðið um sjálfstæðisbaráttu ríkjanna.

Niðurstaða ritgerðarinnar er því sú að þjóðernishyggja íbúa þriðjaheimsríkja hafi haft veruleg áhrif á samskipti þeirra við Vesturlönd á árunum á milli heimstyrjaldanna. Orsakir þessarar þjóðernishyggju hafa síðan fyrst og fremst verið kynni íbúa þriðjaheimsins af vestrænum hugmyndum og löngun þeirra eftir sjálfstæði sér til handa.

Hjörtur J.


Heimildaskrá
Chesneaux, Jean: Peasant Revolts in China 1840-1949. London. 1973.
Curtin, Philip o.fl.: African History. New York. 1978.
Kennedy, Malcolm: A Short History of Japan. New York. 1964.
Kulke, Hermann og Diether Rothermund.: A History of India. London.1986.
Latourette, Kenneth Scott: A Short History of the Far East. New York. 1946.
Með kveðju,