Rit þetta er greinasafn sem gefið er út 1993 af íslenskum samtökum sem nefna sig Átak gegn stríði. Ritið inniheldur nokkrar valdar greinar eftir ýmsa höfunda sem hafa látið málið sig varða, t.a.m. Ramsey Clark, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna og Michael Ratner, lögfræðing og fyrrverandi yfirmann Center for Constitutional Rights og fyrrverandi formann bandarísku lögmannasamtakanna (National Lawyers Guild).
Ritið er frekar vel unnið og get ég ekki betur séð en að fræðilegum kröfum sé fylgt í hvívetna og er fullra heimilda getið. Rit þetta getur, eðlis síns vegna, ekki talist hlutlaust og er það heldur ekki. Engu að síður er þarna ekki verið með neinar fullyrðingar án þess heimildir séu ekki fyrir því. Ritið er sem fyrr segir greinasafn og þar sem viðfangsefni greinanna er mjög afmarkað koma þær oft á tíðum inn á sömu hlutina, en nálgast þá þó yfirleitt frá öðrum sjónarhóli. T.a.m. beinir Michael Ratner sjónum sínum fyrst og fremst að brotum Bandaríkjastjórnar, í tengslum við Persaflóastríðið, gegn ákvæðum stjórnarskrár Bandaríkjanna og bandarískum lögum á meðan að Ramsey Clark er fyrst og fremst að fjalla um brot Bandaríkjamanna á alþjóðalögum í tengslum við stríðið.
Viðfangsefni ritsins
Grein Clark er skýrsla sú sem hann sendi til rannsóknarnefndar Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í Haag, fyrir hönd Rannsóknarnefndar um stríðsglæpi Bandaríkjanna við Persaflóa, um stríðsglæpi Bandaríkjanna í Persaflóastríðinu þar sem hann birtir ákærur á hendur George Bush, J. Danforth Quayle, James Baker, William Webster, Colin Powell, Norman Schwarzkopf og fleirum sem báru ábyrgð á Persaflóastríðinu fyrir hönd Bandaríkjanna. Þeir eru kærðir fyrir glæpi gegn friði, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyninu og önnur glæpsamleg athæfi sem brjóta í bága við stjórnarskrá Bandaríkjanna, stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, Genfarsáttmálann, Haagsáttmálann, Nürnbergsáttmálann og önnur lög og alþjóðalög sem sett hafa verið til að framfylgja þeim. Ákæran er byggð á þúsundum skjala, heimilda, mynda, viðtala, opinberra yfirlýsinga stríðsaðila og annarra frumgagna.
Í ritinu er í fyrstu rakin forsaga Persaflóastríðsins. Fjallað er lauslega um hagsmuni Vesturland í miðausturlöndum á 20. öldinni og fram að stríðinu og viðleitni þeirra til að tryggja hagsmuni sína á svæðinu með flestum tiltækum leiðum. Sérstaklega er fjallað um stefnu Bandaríkjanna á svæðinu á síðustu 30 árum þar sem þau hafa stutt hvern mannréttindabrjótinn á svæðinu á fætur öðrum og att þeim saman í stríð í viðleitni sinni til að tryggja áhrif sín á svæðinu. Einnig er síðan lítillega gert grein fyrir ýmsum árásarstríðum sem Bandaríkin hafa staðið fyrir sem hafa gengið þvert á ákvæði alþjóðasamninga og falið í sér skýlausa stríðsglæpi, s.s. árás á Grenada 1983, Lýbíu 1986 og innrásinni í Panama 1989 svo dæmi séu nefnd. Í innrásinni í Panama einni brutu t.a.m. Bandaríkjamenn öll þau alþjóðalög sem Írakar brutu með innrásinni í Kúvæt og gengu jafnvel lengra.
Glæpir gegn friði
Glæpur gegn friði telst undirbúningur og framkvæmd árásarstríðs að fyrra bragði. Samkvæmt gögnum Clark undirbjó Bandaríkjastjórn Persaflóastríðið 18 mánuðum áður en það átti sér raunverulega stað, eða strax á árinu 1989. Fyrir liggur m.a. opinber játning Normans Schwarzkopfs, yfirhershöfðingja bandaríkjahers þess efnis.
Ástæðan var sú að ráðamönnum í Bandaríkjunum voru uggandi vegna þeirrar staðreyndar að innflutningur Bandaríkjanna á olíu frá Persaflóasvæðinu hafði aukist um 100% árið 1989 miðað við árið 1973, eða úr 5% af neyslunni í 10% og fyrir lá að þetta hlutfall myndi halda áfram að aukast. Í því skyni að tryggja yfirráð og áhrif Bandaríkjanna á svæðinu var ný hernaðarstefna hönnuð af Norman Schwarzkopf og Colin Powell, hershöfðingja og formanni herforingjaráðs Bandaríkjanna, sem miðaði að því að tryggja olíuhagsmuni Bandaríkjanna á svæðinu og var stefnan kynnt Öldungadeild Bandaríkjaþings snemma árs 1990. Stefnan gekk út á að espa Íraka út í stríð sem síðan myndi réttlæta bandaríska íhlutun. Síðan átti að leggja Írak í rústir efnahagslega og hernaðarlega.
Til að ögra Írökum út í stríð voru Kúvætar m.a. fengnir til að brjóta gegn framleiðslusamningi OPEC-ríkjanna með því að vinna umframmagn af olíu úr olíulindum sem þeir áttu í félagi við Íraka. Samkvæmt Genfarsáttmálanum, Haagsáttmálanum og Nürnbergsáttmálanum flokkast þetta sem stríðsglæpur og glæpur gegn friði.
Stríðsglæpir
M.a. í bæði Genfarsáttmálanum og Haagsáttmálanum er það skilgreint sem stríðsglæpir að ráðast á borgaraleg skotmörk sem almennir borgarar þurfa nauðsynlega á að halda. Er þá átt við skotmörk sem ekki þjóna beinum hernaðarlegum tilgangi.
Meðal þeirra borgaralegu skotmarka sem Bandaríkjaher réðist á vísvitandi, samkvæmt gögnum Clark, þ.á.m. opinberum yfirlýsingum háttsettra bandarískra embættismanna, voru fjöldi raforkuvera og dreifikerfa, vatnsveitustöðva og vatnsbóla, síma- og útvarpsstöðva, matvælaframleiðsla, geymslu- og dreifingarstöðva, markaða, verkasmiðja sem framleiddu barnamjólk og aðra drykkjarvöru, bólusetningarstöðva fyrir húsdýr og áveitukerfa, járnbrautarmannvirkja, umferðamiðstöðva, brúa, þjóðvega, vegagerðarstöðva, lesta, langferðabifreiða og annarra almenningssamgöngutækja auk ökutækja í eigu fyrirtækja og einstaklinga, olíulinda og dæla, leiðsla, hreinsunarstöðva, olíugeyma, bensínstöðva, tankbíla, holræsakerfa, verksmiðja sem framleiddu vörur fyrir almenna borgara s.s. klæða- og bílaverksmiðja, sögulegra minja og fornra sögustaða, verslunarmiðstöðva, búða, skrifstofa, hótela, veitingahúsa, skóla, sjúkrahúsa, moska og kirkna.
A.m.k. 125.000 manns, karlar, konur og börn, voru drepnar í árásum á skotmörk sem ekki höfðu neinar hernaðarlegar þýðingar. Bein og fyrirsjáanleg afleiðing þessa er síðan langvarandi sjúkdómar sem rekja má m.a. til mengaðs vatns og tugþúsundir manna hafa látist vegna. Bandarísk hernaðaryfirvöld hafa viðurkennt að hafa valið ákveðin borgaraleg skotmörk til að ná yfirhöndinni í Írak eftir stríðið. Þau hafa einnig viðurkennt að hafa ráðist á þessi skotmörk í Írak til að auka áhrifamátt viðskiptabannsins sem þeir létu setja á landið.
Bandaríkin brutu einnig ákvæði Genfarsáttmálans, Haagsáttmálans, Nürnbergsáttmálans og stofnskrá SÞ um vopnuð átök í átökum sínum við Íraska herinn með því að ráðast á og drepa óvígfæra hermenn, hermenn sem voru að reyna að gefast upp, auk þess að ráðast á og drepa íraska hermenn í þúsundatali eftir að vopnahlé hafði verið samið líkt og gerðist 2. mars 1991 þegar meira en 750 írösk ökutæki voru eyðilögð og þúsundir íraskra hermanna drepnar eftir að vopnahlé hafði verið samið. A.m.k. 100.000 íraskir hermenn voru drepnir í stríðinu. Bandaríkjamenn misstu 148 hermenn skv. upplýsingum bandarískra stjórnvalda.
Bandaríkin notuðu einnig bönnuð vopn í hernaði sínum í Persaflóastríðinu. Dæmi um ólögleg vopn sem þau notuðu eru bansínsprengjur sem er varpað úr lofti og ætlað er að valda íkveikjum og dauða á stórum svæðum, napalm og flísasprengjur. Þessar sprengjur voru notaðar jafnt á hermenn sem óbreytta borgara. Einnig voru notaðar svokallaðar “súperbombur” sem vega um tvö og hálft tonn og er ætlað að koma þjóðarleiðtogum fyrir kattarnef. Þessar sprengjur eru einnig bannaðar.
Bandaríkjamenn réðust vísvitandi á mannvirki sem höfðu að geyma hættuleg efni svo sem kjarnorkuver sem notuð voru í friðsamlegum tilgangi, allt í trássi við samþykktir SÞ og án hugsunar um þau hættulegu áhrif sem slíkar árásir gætu haft á umhverfið og heilsu fólks svo sem útgeislun o.s.frv.
Þetta framferði stangast á við Genfarsáttmálann, Haagsáttmálann, Nürnbergsáttmálann, stofnskrá SÞ, stjórnarskrá Bandaríkjanna og bandarísk lög og flokkast sem stríðsglæpir.
Brot gegn stofnskrá Sameinuðu þjóðanna
Bandaríkjastjórn kom því til leiðar að Sameinuðu þjóðirnar virtu að vettugi 6. kafla stofnsáttmála þeirra um friðsamlega lausn deilumála í þeim tilgangi að fá í gegn vægast sagt vafasama ályktun Öryggisráðsins um að sérhver þjóð mætti grípa til hvaða ráða sem hún hefði til að framfylgja ályktunum SÞ um að koma Írökum frá Kúvæt og sem síðan voru notaðar til að leggja Írak í rústir.
Bandaríkin greiddu milljarði dollara í mútur til einstakra ríkja innan SÞ til að fá fylgi þeirra við stefnu sína. Strax eftir að Öryggisráðið heimilaði valdbeitingu gegn Írak 29. nóvember 1990 hættu Bandaríkjamenn m.a. andstöðu við lánagreiðslur frá Alþjóðabankanum til Kína upp á 140 milljónir dollara, þeir lofuðu Sovétríkjunum efnahagsaðstoð upp á allt að 7 milljörðum dollara, þeir lofuðu m.a. að afskrifa hluta af skuld Zaire, skuldir Egyptalands við Bandaríkin upp á sjö milljarða dollara voru afskrifaðar, Bandaríkin lofuðu að selja Saudi-Arabíu hergögn fyrir 12 milljarða dollara, þau greiddu upp skuld sína við SÞ upp á 187 milljónir dollara strax eftir atkvæðagreiðsluna, lofuðu að útvega hinum ýmsum þriðjaheimsríkjum vopn, samþykktu stjórnmálasamskipti við ríki þrátt fyrir mannréttindabrot og hótuðu öðrum ríkjum efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum sem ekki vildu hlýða. T.d. var Jemen, sem greiddi atkvæði gegn stefnu Bandaríkjanna, umsvifalaust refsað með því að dregin var til baka þróunaraðstoð upp á milljónir dollara. Þetta er skýlaust brot á stofnskrá SÞ og flokkast ennfremur sem glæpur gegn friði.
Glæpir gegn mannkyninu
Bandaríkjamenn frömdu glæpi gegn mannkyninu með því að nota vopn í stríðinu sem eru bönnuð m.a. vegna umhverfisáhrifa sinna s.s. napalm. Flestir, ef ekki allir, verstu olíulekarnir í Persaflóa má rekja beint til bandarískra loftárása, svo og flestir eldsvoðar í olíulindum Íraks og Kúvæts. Vísvitandi eyðilegging á vatnsveitum, úrgangseyðslustöðvum og holræsakerfum er bein og langvarandi árás á líf og heilsu fólks í Írak.
Bandaríkjamenn sviptu írösku þjóðina nauðsynlegum lyfjum, drykkjarvatni, matvælum og öðrum lífsnauðsynjum að yfirlögðu ráði með viðskiptabanni, hafnbanni (án leyfis Bandaríkjaþings), með því að frysta íraskar bankainnistæður, með því að leyna upplýsingum um þá brýnu þörf sem var á þessum nauðsynjum í landinu, hindra alþjóðleg samtök, ríkisstjórnir og hjálparstofnanir í að sjá Írökum fyrir nauðsynjum og verða sér úti um upplýsingar um raunverulegt ástand í landinu, með því að varpa að yfirlögðu ráði sprengjum á rafveitunet þannig að sjúkrahús lömuðust, varpa vísvitandi sprengjum á matvælageymslur, áburðargeymslur og útsæðisgeymslur. Þetta hefur leitt til dauða þúsunda manna.
Sem dæmi má nefna að fyrstu sjö mánuði ársins 1990 var neysla á tilbúinni barnamjólk í Írak 2500 tonn á mánuði. Frá 1. nóvember 1990 til 7. febrúar 1991, í rúma þrjá mánuði, gátu Írakar ekki flutt inn nema 17 tonn af þessari vöru vegna viðskiptabanns Bandaríkjanna. Þeirra eigin framleiðslugeta hafði verið algerlega lömuð. Rauði hálfmáninn í Írak taldi að 3000 börn hefðu dáið frá 7. febrúar 1991 fram til ársins 1992(?) vegna skorts á barnamjólk og lyfjum.
Þetta framferði flokkast sem glæpir gegn mannkyninu samkvæmt stofnskrá SÞ, Genfarsáttmálanum og Haagsáttmálanum.
Lokaorð
Hér að framan hefur verið reynt að draga saman meginatriðin í innihaldi ritsins sem er hér til umfjöllunar. Tekið skal fram að í umfjölluninni er verið að bregða ljósi á það sem haldið er fram í ritinu en ekki skoðanir mínar.
Rit þetta er mjög athyglisvert og svo virðist sem þung rök liggi fyrir því sem fullyrt er í ritinu, en fróðlegt væri að kanna þær heimildir sem stuðst er við. Þetta rit er, eins og áður hefur verið minnst á, alls ekki hlutlaust og er greinileg afstaða tekin. Engu að síður virðist sem höfundar hafi þó ekki fallið í þá gryfju að fullyrða hluti sem engin innistæða sé fyrir, þó oft á tíðum séu óneitanlega notuð nokkuð stór orð.
Það er þó deginum ljósara að Bandaríkjamenn frömdu stríðsglæpi í Persaflóastríðinu og er sennilega ekki mjög um það deilt. Hins vegar greinir menn á um hversu mikla og alvarlega glæpi þeir frömdu og hvort það hafi verið vísvitandi eður ei. Það er þó von mín að sanngjörn niðurstaða fáist í þetta mál þegar alþjóðastríðsglæpadómstóll hefur verið gangsettur, hvenær sem það annars verður.
Hjörtur J.
Heimildaskrá:
Einar Valur Ingimundarson o.fl.: Stríðsglæpir Bandaríkjanna gegn varnarlausu fólki í Írak. Minningarrit um fórnarlömb Persaflóastríðsins. Útgefandi Átak gegn stríði. Reykjavík. 1993.
Með kveðju,