Fyrstu nürnberg réttarhöldin. Þessa ritgerð er ég nýbúinn að skrifa, ég veit að hún er stutt, spannar ekki allt efnið og svo fram eftir götunum :) en njótið ef þið viljið.


Nürnberg réttarhöldin, eða Nuremberg trials á ensku er samheiti yfir mörg réttarhöld sem haldin voru yfir mest áberandi pólitísku-, hernaðar- og efnahagslegum leiðtogum Þriðja ríkisins í Þýskalandi fyrir brot framin í heimsstyrjöldinni síðari. Þ. e. a. s. þessum fáu sem náðust lifandi. Réttarhöldin voru haldin í borginni Nürnberg í Þýskalandi á árunum 1945 til 1949. Þau fyrstu eru frægust þar sem réttað var yfir 24 af þeim mikilvægustu sem náðust þ. a. m. nokkrum af leiðtogum Þriðja ríkisins. Þessi fyrstu réttarhöld eru umfjöllunarefni þessarar
ritgerðar. Þau stóðu yfir frá 20. nóvember 1945 til 1. október 1946.

Alþjóðleg réttarhöld.

Fljótlega eftir stríðsbyrjun ákváðu bandamenn að þeir vildu refsa þýskum stríðsglæpamönnum. Þegar var orðið ljóst í fyrri hluta heimsstyrjaldarinnar að Þjóðverjar fóru ekki eftir alþjóðlegum samningum um stríðsrekstur og ennfremur um framgöngu þeirra gagnvart gyðingum. Framganga Þjóðverja var brot á alþjóðlegum samningum t. d. fjórða Haag-samningnum um reglur og venjur um stríð á landi ásamt viðauka við hann hvor tveggja frá 18. október 1907. Þann 17. desember 1942 gáfu Bandaríkin, Bretland og Sovétríkin út fyrstu opinberu yfirlýsinguna um að stríðsglæpamenn yrðu ákærðir. Í október 1943 skrifuðu leiðtogar Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjanna undir samning um að í stríðslok yrðu haldin réttarhöld yfir stríðsglæpamönnum í því landi og samkvæmt lögum þess lands sem að glæpirnir voru framdir í. Ef um meiriháttar stríðsglæpi væri að ræða sem hefðu engin landfræðileg mörk yrði réttað á stað sem væri ákveðinn sameiginlega af ríkisstjórnum bandamanna.
Einungis sex og hálfum mánuði eftir uppgjöf Þjóðverja voru fyrstu Nürnberg réttarhöldin haldin. Þar skipuðu fjórar öflugustu þjóðir bandamanna, þ. e. Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar og Rússar einn dómara, einn varadómara og einn saksóknara hver þjóð.

Hinir ákærðu.

Ekki voru allir helstu stjórnendur Þriðja ríkisins dregnir fyrir dóm;
Adolf Hitler og ýmsir forystumenn Þriðja ríkisins höfðu framið sjálfsmorð, aðrir flúðu, einkanlega til Suður Ameríku, og margir létust í styrjöldinni. Af þeim sem náðust lifandi voru þessir einstaklingar mikilvægastir og ákærðir í fyrstu réttarhöldunum: http://img453.imageshack.us/img453/6308/akaerdirxm4.png )

Ákærurnar voru birtar á 71 blaðsíðu. En þær voru í grófum dráttum fjórar:
1. Þátttaka í skipulagningu eða samsæri um að fremja “glæpi gegn friði”.
2. Að skipuleggja, ýta undir og heyja stríð og fremja aðra “glæpi gegn friði”.
3. Stríðsglæpir.
4. Glæpir gegn mannkyni.
Og voru tvær eða fleiri af þessum ákærum birtar á hendur hverjum þeirra.

Réttarhöldin.

Sovétríkin vildu halda réttarhöldin í Berlín en Nürnberg var valin af nokkrum ástæðum; Nürnberg var á stjórnarsvæði Bandaríkjanna (á þessum tíma var Þýskalandi skipt í fjögur svæði), dómshúsið þar var stórt og tiltölulega heilt eftir sprengingar Bandamanna, stórt fangelsi var hluti af byggingunni og þar sem að borgin var nokkurs konar heimaborg Nasistaflokksins var táknrænt að dauði nasistaflokksins yrði þar.
Þeir ákærðu sem höfðu gerst sekir um að ganga lengra en var í samræmi við starf það sem þeir gegndu gaf tilefni til voru dæmdir til dauða og hengdir.
Aðrir eins og Dönitz, flotaforingi og forseti eftir dauða Hitlers, fengu fangelsisdóma og enn aðrir sem voru sendiherrar eða þess háttar voru sýknaðir.

Afleiðingar Nürnberg-réttarhaldanna.

Eftir Nürnberg réttarhöldin hafa ýmsir einræðisherrar og herforingjar haft það hangandi yfir höfði sér að verða dæmdir persónulega af alþjóðlegum dómstólum ef þeir hafa gengið of langt í ofbeldi og glæpum. Vonandi hefur það afstýrt einhverjum óhæfuverkum. Engu að síður hefur frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar verið af nógu að taka. Til dæmis samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna 1993 að setja upp alþjóðlegan dómstól vegna alvarlegra brota á alþjóðlegum mannúðarreglum frömdum í fyrrum Júgóslavíu frá og með 1. janúar 1991. Nokkrir herstjórar og leiðtogar hafa verið dæmdir af þessum dómstól. Áður nefndur fjórði Haag-samningurinn frá 1907 Genfarsamningurinn frá 1949 og fleiri eru til verndar friði og til þess að draga úr skelfingum styrjalda, gera ráðstafanir gegn hópmorðum, og banna þjóðarmorð, hópmorð, glæpi gegn mannkyninu, morð, pyndingar, nauðganir, sem framdar eru sem liður í blóðblöndun eða kerfisbundnar árásir á almenna borgara þegar það beinist að hvaða þjóðfélagshóp sem er, einkum af þjóðernislegum, pólitískum eða af trúarlegum ástæðum, þar með talin þvingun til að stunda vændi. Nýjasta dæmið er svo frá þessu ári þar sem glæpamaður sem komst á forsetastól í Írak, Saddam Hussein, var dæmdur undir alþjóðlegum þrýstingi til hengingar í heimalandi sínu auk fleiri samverkamanna sinna fyrir fjölmarga glæpi. Er það von mín að þessi þróun aftri ýmsum herstjórum einræðisherrum frá ofantöldum glæpum í framtíðinni.